24.10.1950
Neðri deild: 8. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (3417)

37. mál, skáldalaun rithöfunda og listamanna

Flm. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fylgja þessu frv. úr hlaði með nema fáeinum orðum. Það var borið fram á síðasta þingi, en náði þá ekki afgreiðslu, en var aðeins vísað til n.

Ég tel fullvíst, að allir þeir, sem hugsað hafa um þessi mál, séu mér sammála um það, að sú tillögun, sem nú er á launum og úthlutun launa til rithöfunda, skálda og annarra listamanna, sé algerlega óviðunandi. M. a. tel ég ákaflega óheppilegt, að kosin sé nefnd af Alþ. til eins árs í senn, sem skipuð sé einum fulltrúa frá hverjum þingflokki, til að annast þessa úthlutun. Það fyrirkomulag leiðir til þess, að nefndarmennirnir hneigjast til þess að taka að meira eða minna leyti frekar upp tillögur eftir pólitískri afstöðu heldur en æskilegt væri, eins og komið hefur í ljós við úthlutun þessa fjár. Í öðru lagi er það, að sú nefnd, sem kosin væri til eins árs í senn, mundi ekki gera neinar stærri breytingar á úthlutuninni.

Það var árið 1947, að þá skoruðu þáverandi listamannasamtök í Bandalagi íslenzkra listamanna á Alþ., að það breytti þessu fyrirkomulagi, þar sem það væri alveg óviðunandi. — Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er alveg shlj. frv., sem samþ. var af þeim samtökum sem heppileg lausn málsins þá. — Nú er það að vísu þannig, að það koma margar fleiri leiðir til greina um tillögun þessarar úthlutunar en það, sem hér er lagt til. En það, sem lagt er til í þessu frv., hefur þó einn meginkost, sem er sá, að þetta eru till. listamannanna sjálfra, sem þeir eru að heita má einróma sammála um, og mundi það skapa miklu meiri festu og öryggi í kringum þetta heldur en ella mundi. Í öðru lagi er þetta fyrirkomulag mjög einfalt og óbrotið og mundi geta komið í veg fyrir mikið af þeim metingi, sem orðið hefur vart á undanförnum árum í sambandi við þessa úthlutun og er mjög óheppilegur.

Það nýmæli er í þessu frv., að lagt er til, að laun listamanna verði skattfrjáls. Má vera, að hv. þm. sé það nokkur þyrnir í augum. En ég vil benda á í því sambandi, að laun til listamanna hafa raunverulega lækkað á undanförnum árum, þar sem fjárlagaupphæðir margar hafa farið síhækkandi, sem telja má hliðstæðar þessum launum, en þessi laun hafa staðið í stað og dýrtíð hefur aukizt, eins og kunnugt er, þannig að ég hygg, að undanþága þessi mundi ekki koma fram sem nein raunveruleg hækkun þessara launa, því að í raun og veru hefur verið höggvið af fjárhæðinni, sem veitt er til þessara manna.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr.umr. lokinni og til hv. menntmn.