13.11.1950
Neðri deild: 20. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í C-deild Alþingistíðinda. (3431)

63. mál, útsvör

Flm. (Áki Jakobsson):

Frv. þetta er alveg samhljóða því, sem flutt var á síðasta þingi, en varð ekki útrætt, enda flutt seint á þingi. Frv. er samið að tilhlutun bæjarstj. á Siglufirði. Fulltrúar bæjarstjórnar hafa talið sig því samþykka, og ber því að skoða það sem ósk frá Siglfirðingum almennt um fyrirkomulag á útsvörum. Breyt. er eingöngu í þá átt, að á þá menn, sem reka atvinnu, svo sem síldarverkun, megi leggja útsvar í þeirri sveit, þar sem atvinnureksturinn fer fram. Þetta hefur áður verið til umr., en þó aldrei í þessu formi. Er augljóst, að mál þetta snertir fleiri en Siglfirðinga, ekki síður önnur pláss norðanlands. Þau vilja geta lagt á þann atvinnurekstur, sem fram fer heima hjá þeim, en þurfa ekki að eiga undir skiptum á útsvörum og biðja um þau, sem gengur ákaflega seint fyrir sig. Reynslan er þannig, að mjög lítið er hægt að treysta á tekjur af skiptum útsvörum, þegar bæjarfélög gera sínar áætlanir. Það er þannig í bæjum eins og Siglufirði, að verulegur hluti af þeirri síldarverkun, sem fram fer á staðnum, er framkvæmdur af mönnum, sem eiga ekki heima á staðnum. Þetta verður mjög tilfinnanlegt fyrirkomulag með útsvörin. Þess vegna er mikill hluti af atvinnurekstri á Siglufirði án þess að taka þátt í skyldum til opinberra nauðsynja.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar. Ég veit, að hv. þm. er þetta nokkuð kunnugt. Leyfi ég mér að leggja til, að málið verði sent til 2. umr. og allshn.