11.01.1951
Neðri deild: 47. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í C-deild Alþingistíðinda. (3437)

69. mál, sjúkrahús o.fl.

Frsm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. Í gildandi l. um sjúkrahús er ákveðið, að ríkissjóður leggi til 3/5 af stofnkostnaði fjórðungssjúkrahúsa og 2/5 af stofnkostnaði annarra sjúkrahúsa, sem sveitarfélög ráðast í að byggja. Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er farið fram á, að sömu ákvæði og gilda um byggingu fjórðungssjúkrahúsa gildi einnig um byggingu sjúkrahúss á Siglufirði. Þetta er af flm. rökstutt með því, að Siglufjörður sé, eins og kunnugt er, mikill útgerðarbær og þangað safnist fólk hvaðanæva af landinu og njóti þar læknishjálpar og sjúkrahúsvistar, einkum meðan síldveiðar standa yfir.

Heilbr.- og félmn. þessarar deildar hefur rætt og athugað þetta frv. og m. a. sent það landlækni til umsagnar, og vilja 4 nm. samþ. frv., en einn nm., hv. 1. þm. Rang., sá sér ekki fært að skrifa undir nál., en hann hafði hugsað sér að gera grein fyrir afstöðu sinni til málsins við þessa umr. þess. Nú sé ég, að hann er ekki mættur, og væri þá e. t. v. rétt að ljúka ekki afgreiðslu málsins, ef hans væri von innan skamms. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. af hálfu n.