02.11.1950
Efri deild: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður um þetta mál. Vil ég fyrst taka það fram, að ákvæði um hjálp úr bjargráðasjóði gildir jafnt um sveitir og kaupstaði samkvæmt 11. gr. En þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Nú verður hallæri í sveitarfélagi af óvenjulegum harðindum eða langvarandi aflaleysi, eða tjón verður þar af náttúruvöldum á mannvirkjum eða búfé, enda hafi það, sem skemmdist eða ónýttist, verið óvátryggt fyrir tjóni þessu, og getur þá stjórn bjargráðasjóðs veitt styrk eða lán úr bjargráðasjóði samkvæmt lögum þessum, til að draga úr áhrifum hallærisins eða bæta tjónið að einhverju leyti.“ Enda er stjórn sjóðsins skipuð formanni Fiskifélags Íslands, formanni Búnaðarfélags Íslands og skrifstofustjóranum í félmrn., sem er formaður stjórnarinnar. En geta sjóðsins er svo lítil, að alltaf þegar mest hefur við þurft, eins og þegar um hjálp vegna aflabrests á síldveiðum er að ræða, þá hefur verið gengið fram hjá honum, og ríkissjóður hefur sjálfur hlaupið undir bagga, og í þeim tilfellum hefur jafnan verið um svo háar upphæðir að ræða, að þetta er ekki nefnandi í sama vetfangi, en sú hjá]p mun þegar nema á þriðja tug millj. kr. Það var augljóst, að ef bjargráðasjóður, sem þegar er tómur, hefði verið látinn annazt þetta, þá hefði hann þurft að taka lán, og hefðu þá tekjur hans verið settar að veði fyrir því, og hefði þetta þá étið upp tekjur hans næstu 10 árin. — Ég sagði í upphafi, að ríkisstj. hefði viljað greiða þetta þannig, að það gengi í gegnum sjóðinn, en slíkt var ekki hægt sökum þess, að í 12. gr. segir, að verja megi séreign sýslu- og bæjarfélaga og skipta því eftir reglum, sem sýslunefnd eða bæjarstjórn hafa samþ., en þá aðeins er hallæri beri að höndum. Ég endurtek, að það skal aðeins gert, ef hallæri ber að höndum. En samkvæmt 2. lið sömu greinar má nota séreignina til kaupa á vetrarforða, ef haustbirgðir eru svo litlar, að hætt er við bjargarskorti fyrir menn eða skepnur, en fé það skal greitt að fullu, en vaxtalaust, á ársfresti. Það má því ekki verja þessu fé til útbýtingar, nema um hallæri sé að ræða, og aðeins til eins árs, ef um forðakaup er að ræða. Þá er rétt að athuga það, að sumir þessir aðilar eiga nú enga séreign í sjóðnum, því að Árneshreppur tók sína í fyrra, og þannig hefur því sennilega einnig verið háttað með a.m.k. sum sveitarfélögin á Austurlandi, svo að séreign þessi er nú ekki til lengur. Ríkisstj. hefði því orðið að breyta þessum lögum og leggja síðan þessa upphæð inn í sjóðinn, ef þessa leið hefði átt að fara. En vegna þess, hvernig lögin nú eru, hefði þetta stangazt á við framkvæmdirnar. Það var því ekki hægt að koma 1/2 millj. kr. í óafturkræfum framlögum undir sjóðinn, nema breyta fyrst l. um hann. Síðan hefði þurft að gera þessa 1/2 millj. kr. að séreign þeirra sveitarfélaga, sem áttu að njóta hennar, og afhenda hana síðan sem óafturkræft framlag frá bjargráðasjóði. Ég held því, að hv. þm. Barð. ætti að athuga, að mjög vafasamt er, að hægt sé að framkvæma till. hans, nema breyta um leið l. um bjargráðasjóð. Og ég held, að hv. þm. sjái, ef hann athugar málið, að ekki er hægt að fara þá leið, sem hann vill fara. Ég held, að hv. þm. sé að hugsa um sjávarútveginn, en það mikla framlag, sem til hans hefur farið á undanförnum árum og átt hefði að fara í gegnum sjóðinn, hefur allt farið utan við hann. Ég held því, að ekki hafi verið hægt að afgreiða málið á heppilegri hátt en gert var.

Hér er því aðeins um formsatriði að ræða, en aðalatriðið er, að hjálpin komi að fullu gagni og sé sanngjarnlega af hendi innt. Rétt áður höfðu verið gerðar sams konar ráðstafanir gagnvart síldveiðunum án aðstoðar bjargráðasjóðs, og þetta hefur ekki aðeins verið framkvæmt á sama hátt við síldveiðarnar, heldur einnig bátaútveginn. Þó að hægt væri að ræða fleiri hliðar þessa máls, þá skal ég ekki eyða tímanum í það. Að lokum er eitt atriði, sem ef til vill er aukaatriði, en það er, að í þessum héruðum, sem hér eiga hlut að máli, eru mjög góð skilyrði til kjötframleiðslu, en nú fer að skorta kjöt í landinu, og þá er ekki ólíklegt, að þessi hjálp eigi eftir að borga sig fyrir þjóðarheildina.