12.01.1951
Neðri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (3440)

69. mál, sjúkrahús o.fl.

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Ég á sæti í þeirri n., sem þetta mál kom fyrir, og get ég ekki mælt með frv. Það, sem farið er fram á, er, að Siglufjarðarsjúkrahúsi verði veitt sömu réttindi hvað stofnframlög snertir og fjórðungssjúkrahúsum. Hefur svo verið, að önnur sjúkrahús hafa fengið 2/5 stofnkostnaðar greiddan úr ríkissjóði. Svokölluð fjórðungssjúkrahús eru í hverjum landsfjórðungi, eða fjórðungssjúkrahúsin á Akureyri, Ísafirði, Seyðisfirði og í Reykjavík. Þótti sanngjarnt, að þau fengju hækkað framlag um 1/5 kostnaðar úr ríkissjóði, þar sem þau væru aðalsjúkrahúsin í þessum fjórðungum. Jafnframt var sett á þau kvöð um, að þau tækju við sjúklingum, er þangað leita úr öðrum sveitarfélögum.

Ef Siglufjarðarsjúkrahúsi yrðu veitt sömu réttindi og fjórðungssjúkrahúsunum, þá mundu öll önnur sjúkrahús á landinu koma og krefjast hins sama. Við þessu er ekkert að segja, ef deildin álítur, að hægt sé að taka þessar byrðar. En nú er svo, að ríkið skuldar orðið stórfé, t. d. vegna skólabygginga o. fl. Fæ ég ekki séð, að því verði greiði gerður með því að lofa héruðum framlögum og ráðast í alls konar framkvæmdir og svo standi allt fast vegna fjárskorts í ríkissjóði. Ég veit, að nú standa margir hálfbyggðir skólar og sjúkrahús, því að ríkið getur ekki staðið undir kostnaðinum. Ég held, að deildin ætti að athuga þetta. Það er gefið mál, að ef Siglufjörður fær þessa undanþágu, þá koma öll sjúkrahús á landinu með sams konar beiðni, og þau hafa rétt til þess. Annars ætla ég sízt að tala á móti sjúkrahúsum, en það verður að vera vit í því, sem gert er. — Ég ætla ekki að hafa orð mín öllu fleiri, en vildi gefa skýringu á þessu og benda á, að verði frv. samþ., þá fylgja öll sjúkrahús á landinu í kjölfarið.

Bent hefur verið á, að Siglufjörður hefði hér sérstöðu, þar sem svo margt aðkomufólk sækti þangað. Nú sækja miklu fleiri til t. d. Keflavíkur á vertíð. — Ætla ég nú ekki að hafa orð mín fleiri.