12.01.1951
Neðri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (3442)

69. mál, sjúkrahús o.fl.

Pétur Ottesen:

Ég vil taka undir það, sem hv. 1. þm. Rang. sagði um þetta mál. Ef svipuð ákvæði yrðu samþ. nú, mundi ekki biða næsta þings, þar til gera þyrfti öðrum stöðum á landinu jafnt undir höfði og Siglufirði. Eins og hv. 1. þm. Rang. benti á, þá eru ýmsir aðrir staðir á landinu, sem svipað er ástatt um og Siglufjörð. Hann nefndi dæmi, og gæti ég bent á fleiri dæmi, t. d. Patreksfjörð á Vestfjörðum. Það er ekki ýkja mikili fólksfjöldi, sem sækir þangað. Hins vegar leitar hinn mikli skipafloti, sem er á veiðum út af Vestfjörðum, þangað til lækninga með særða og sjúka menn. Hv. þm. A-Sk. var að benda á, að Alþingi hefði veitt sérstöðu, það er rétt, en það þarf að leggja fram rík rök, ef fara á inn á þessa braut.

Hv. þm. A-Sk. vildi gera mun á aðstöðunni á Siglufirði og kaupstöðum hér í nágrenni Reykjavíkur, því að hér væri fjöldi lækna og aðrar góðar aðstæður. Já, hér er nóg af læknum, en það þarf líka sjúkrahús. Veit ekki hv. þm. A-Sk., að hér bíða menn í tugatali eftir sjúkrahúsvist? Eru þetta bæði sjúklingar úr Reykjavík og utan af landi. Lagast ekki allur vandi, þó að nógir séu læknarnir, þegar húsrúm vantar. Fram hjá þessu verður ekki komizt. Tvö stór sjúkrahús eru í byggingu hér við Faxaflóa, en ekki hægt að taka þau til notkunar vegna skorts á nauðsynlegum áhöldum.

Viðvíkjandi Siglufirði, þá er það aðeins 3 mánuði ársins, sem um aðstreymi fólks þangað er að ræða. Að öðru leyti er þar aðeins fólk, sem er alveg búsett þar. Þetta er því æðimiklum breytingum háð, hvað fólksfjöldi þar er mikill. Má einnig benda á hið mikla aðstreymi fólks hér við Faxaflóa. Er það ekki aðeins að koma á þorskveiðavertíð, heldur sækir hingað fólk hvaðanæva að til síldveiða hér við Faxaflóann. Af því leiðir, að þegar þessi umræddu tvö sjúkrahús eru tilbúin, verður ekki hægt að standa á móti kröfum þelm, sem fram kæmu um að veita þeim sömu réttindi og sjúkrahúsinu á Siglufirði. Auk þess eru margir aðrir staðir úti á landi, sem svipað er um.

Ef þetta mál yrði afgr. til Ed., kæmu fram kröfur frá a. m. k. tveimur stöðum, frá Patreksfirði og Vestmannaeyjum. Þætti mér gaman að hlusta á rökræður hv. þm. A-Sk., ef Vestmannaeyjar ættu ekki að fá sömu réttindi og Siglufjörður, og einnig Patreksfjörður og sjúkrahúsin hér í nágrenninu, þegar þau eru fullgerð. Hv. 1. þm. Rang. benti réttilega á, að ef frv. væri samþ. nú, þá er verið að samþykkja að gera slíkt hið sama við öll önnur sjúkrahús, því að það vantar öll rök til að standa gegn síðari kröfum. Við getum búið okkur undir að taka á móti þessu frv. frá Ed. með breytingum.

Ég ætla ekki að fjölyrða þetta frekar. En það er augljóst, að hér er verið að leggja grundvöll að mjög auknum stuðningi við þessi mál, sem þarf í sjálfu sér ekki að lasta. Það er sjálfsagt að athuga gefnar upplýsingar um, að ekki er hægt að einskorða þetta við Siglufjörð eins og gert er í frv.