23.02.1951
Neðri deild: 74. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í C-deild Alþingistíðinda. (3492)

128. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Skúli Guðmundsson:

Hv. form. iðnn. segist nú eins og áður vilja, að þetta frv. nái fram að ganga og verði afgr. af deildinni og þinginu. Það breytir engu af því, sem ég sagði áðan um þetta efni, að það lægi í augum uppi, að frv. mundi ekki ná samþykki nú. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir, að frv. um stofnun nýs banka verði afgr. í einni svipan, án þess að ríkisstj. hafi fjallað nokkuð um það, og ég geri ekki ráð fyrir, að endurskoðun á bankalöggjöfinni verði lokið, áður en þessu þingi lýkur, sem má búast við, að verði alveg á næstunni. Það liggur því í augum uppi, að málið nær ekki fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi, því að hana mun það ekki fá, fyrr en niðurstöður á endurskoðun bankalöggjafarinnar liggja fyrir. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál.