11.01.1951
Neðri deild: 47. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (3513)

137. mál, fasteignamat

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við það, sem hér hefur komið fram í umr., að allir ræðumennirnir hafa talið, að núverandi fasteignamat væri úrelt og algerlega ófullnægjandi grundvöllur til að sýna það, sem það á að leiða í ljós, enda vita allir, að svo er. Ég tel, að sú breyting að ákveða, að fasteignamat skuli aðeins fara fram á 25 ára fresti, hafi verið mjög fljótfærnisleg og mjög undarlegt, að Alþ. skyldi samþ. hana. Við vitum öll, hve verðgildi peninga raskast oft fljótt og aldrei meira en á síðustu tímum, og margar þjóðfélagsástæður gera það einnig að verkum, að það, sem við töldum rétt verðgildi fyrir 10 árum, hefur algerlega raskazt. Og síðan síðasta fasteignamat var framkvæmt hefur verðgildið raskazt meira en nokkru sinni áður og meira en nokkurn óraði þá fyrir. Þetta kom einnig fram í ræðu hv. þm. A-Húnv., sem var þó á móti þessu frv., en vildi í þess stað kákráðstafanir, sem væru verri en engar ráðstafanir. Við vitum, að heilar sveitir, sem þá voru í fullri byggð og fasteignir þá metnar eftir því, hafa nú farið í eyði. Hins vegar hefur fólkið hrúgazt á ýmsa staði, sem þá voru lítt byggðir og taldir lítils virði, og því örari sem slíkar raskanir eru, því örar verður að fara fram mat á fasteignum til að samræma matið breyttum aðstæðum, og það hefur Alþ. gert til bráðabirgða, þegar stóreignaskatturinn var lagður á, en þá datt engum í hug að nota fasteignamatið, heldur margfeldi af því. Alþ. var að raska grundvellinum með því að sexfalda matið sums staðar og nota annað margfeldi á öðrum stöðum, og þetta sýnir, hve mikil nauðsyn er á að meta upp á einhvern hátt og að ekki verður komizt hjá því að gera eitthvað í þessum efnum. Mér hefur fundizt, að allir hv. þm. væru sammála um, að hér þyrfti eitthvað að gera, en svo er hitt, að deila má um það, hvort fara skuli þá leið, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, eða ekki, og eins hvort etcki sé rétt að ganga lengra í þessum efnum en frv. gerir ráð fyrir, þó að það sé dýrt, og ég segi fyrir mig, að ég lít ekki sömu augum á þetta og hv. þm. A-Húnv., sem óx kostnaðurinn, sem af þessu mun verða, mjög í augum, en mér finnst, að ekki megi horfa of mikið í það, ef hægt verður að fá sanngjarnt mat, sem nota má sem réttlátan grundvöll til að byggja á í þessum efnum. En það er rétt að hafa fullt hóf á kostnaðinum, og í þessu frv. er reynt að benda á leið, sem mun kosta hóflegt fé, en ég vil endurtaka það, að ekki ber um of að horfa í kostnaðinn, heldur er meira um það vert, að hægt sé að koma þessum málum í það horf, að fullt öryggi sé að, þar sem um svo stórt mál er að ræða.

Ég get tekið undir með hv. 2. þm. Skagf. í því, að allt, sem verður til þess að spenna fasteignir í óeðlilega hátt verð, sé óheilbrigt og til skaða og niðurdreps, og vildi ég sízt verða til slíks, en réttlátt fasteignamat getur á engan hátt orsakað slíkt. En eins og nú er málum háttað, þá er hlegið að fasteignamatinu og gert gaman að því, ef það er nefnt sem verðgildismælikvarði, og við megum ekki draslast með slíkt skipulag, þegar um svo mikilsvert atriði er að ræða, og að litið sé á þetta sem hreint afskræmi, sem ekki sé hægt að nota, þegar Alþ. þurfti eða þarf að nota það til að skattleggja þegnana eftir því, og því sé þá breytt af handahófi. Út frá þessu sjónarmiði finnst mér að ekki megi dragast lengur að gera eitthvað í þessu efni og að nauðsynlegt sé, að málið sé tekið upp og farið að vinna að því að finna leið að nýju fasteignamati. Ég hef þá trú, að réttlátt fasteignamat, sem sé í samræmi við sanngjarnt verðgildi fasteigna, verði til þess, að meira hófs gæti í kaupum og sölum fasteigna en verið hefur nú um skeið.

Í sambandi við það, sem stendur í 2. gr. frv., að nefndin skuli taka tillít til söluverðs fasteigna í hinum ýmsu héruðum, þá vil ég taka það fram, að það er fyrst og fremst mælikvarði á verðgildi fasteignar, hvað hún er seld fyrir hátt verð, en engum dettur að sjálfsögðu í hug, að matið verði jafnhátt og söluverð getur hæst orðið, en það verður auðvitað alltaf matsatriði, hve langt það verður fyrir neðan.

Það má ef til vill segja, að þetta frv. komi nokkuð seint fram, þar sem gert er ráð fyrir, að þetta þing verði fremur stutt og að góðan tíma hefði þurft til að athuga málið, en þar sem ég lít svo á, að hér sé um mjög stórt mál að ræða, þá vil ég mælast til þess við hv. fjhn., að hún taki málið föstum tökum og hlutist til um, að einhverju verði hrundið af stað í þessum efnum. Ég álít, að ekki sé fært að bíða lengur með að gera eitthvað í þessu máli. Ég hef oft heyrt það hjá ýmsum forsvarsmönnum landbúnaðarins, að þeir telja, að lágt fasteignamat sé mikilsvert fyrir atvinnuveginn, en þar er ég á annarri skoðun. Ég tel, að réttlátt mat, sem sé þó ekki í samræmi við hæsta verð, sé heppilegast og engan veginn í þágu atvinnuvegarins að sporna við sæmilega háu mati. En það er fyrst og fremst réttlætismál gagnvart þeim, sem eiga eignir í öðru en fasteignum, og það er einnig réttlátt gagnvart þeim, sem eiga fasteignir. Ég er því ekkert hræddur við það, að fasteignamat sé fært nokkuð til samræmis við núverandi verðgildi. Ég segi þetta ekki af því, að ég sé að mæla neitt sérstaklega með þessu frv. óbreyttu. Það verður að athuga það vel, og kemur mjög til mála að gera á því einhverjar breytingar, en ég er nú svo stemmdur, að ég óska, að fremur verði gengið lengra en skemur í þessu máli en gert er í frv., og að málið verði tekið föstum tökum og reynt verði að endurbæta fasteignamatið, svo að allir megi vel við una.