16.01.1951
Neðri deild: 50. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í C-deild Alþingistíðinda. (3515)

137. mál, fasteignamat

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Mig langar til að segja hér nokkur orð í sambandi við þær umræður, sem hér fóru fram um daginn. Ég ætla þá fyrst að segja, að það hvort tveggja gleður mig, að þetta frv. er hér fram komið og gerð er hér tilraun til að leysa það misræmi, sem í þessum málum er, en á hinn bóginn vil ég lýsa óánægju minni yfir því, hvað þetta kemur seint, því að það gengur varla í gegnum þingið á þeim stutta tíma, sem eftir er, því að það má varla bíða lengur en orðið er að leiðrétta hið geysilega misræmi, sem er á fasteignamatinu annars vegar og þeim verðmætum, sem eru í þessum eignum, hins vegar. Þetta hlutfall hefur raskazt svo geysilega, að þetta er orðin alger skrípamynd. Hinar miklu verðlagsbreytingar, sem orðið hafa á undanförnum árum, hafa allar verið í þá átt að lækka gildi peninganna hjá þeim, sem þá eiga, í hlutfalli við aðrar eignir, sérstaklega fasteignir. Það hefur orðið stórkostlegur eignaflutningur frá þeirri stétt manna, sem á eignir sínar í peningum, til hinna, sem eiga þær í öðrum eignum. Þetta hefur endað á þann hátt, að með breyttu gengi hefur þetta verið viðurkennt í reyndinni, þannig að þessi þróun undanfarinna ára hefur orðið fullkomin nú með hinu breytta gengi, sem ákveðið var á síðasta þingi. Ef nú á að kóróna þetta með því að skipta svona geysilega misjafnt milli þeirra, sem peninga eiga, og hinna, sem eiga fasteignir, að peningarnir eru skattlagðir sem eign alveg samkvæmt lögum landsins, og verður þar ekki undan komizt, en þeim, sem fasteignirnar eiga, er leyft að fella svo og svo mikið af eign sinni gegnum fasteignamatið og komast þannig undan skatti af henni, — ef þetta er gert, þá er verið að bæta gráu ofan á svart gagnvart þeim, sem eign sína eiga í peningum. Ég segi hiklaust, að þetta geti ekki gengið, þrátt fyrir það að ég tel mig umboðsmann fleiri manna, sem hag hefðu af því, að þessu yrði ekki breytt, en hinna. Sjálfur á ég í fasteignum það, sem ég á. — Það á enginn að þola, að hann sé beittur órétti gagnvart öðrum þegnum þjóðfélagsins, eins á enginu að bæta hagsmuni sína með því, að öðrum sé gert rangt til, eins og hér er gert. Auk þess hefur þetta í för með sér algera skrípamynd af eignum manna. Við getum tekið dæmi. Maður er talinn vel efnaður, en efni hans eru í peningum. Nú breytir hann þeim í fasteign, og þá er hann orðinn öreigi eða því sem næst. Menn, sem eru stórríkir, eru kannske eignalausir á skattframtali. Það sjá allir, hvílíkt misræmi er í þessu.

Fasteignamatið er miðað við verðlag fyrir síðustu styrjöld, þ. e. byggist á því verðlagi, sem þá var á afrakstri fasteigna og fasteignunum, og var allt á þessum grundvelli reist eins og venja er. Fasteignamatið var hóflegt, jafnvel á þessum grundvelli, eins og fasteignamat hefur alltaf verið, og ég er alls ekki með því, að það verði miðað við hæsta hugsanlegt söluverð fasteignarinnar. Nú er komið í ljós, — og kom reyndar fljótlega, — að þessi grundvöllur hefur stórkostlega raskazt. Og okkur, sem að þessu stóðum, var fyrir löngu ljóst, að þetta mat var orðið ófullkomið. Fasteignamatsn. taldi rétt að ræða við fjmrn. um, hvort tiltækilegt þætti að breyta matinu þá, og það var sameiginlegt álit fjmrn. og fasteignamatsn., að það væri ekki unnt að framkvæma það, vegna þess að breytingar á verðlagi væru svo hraðfara frá ári til árs, að til þess að fylgja þeim eftir, hefði þurft að breyta matinu á hverju ári, meðan það ástand ríkti, og gæti matið jafnvel verið ófullkomið samt sem áður, þegar það gengi í gildi, vegna þess að breyting á verðlaginu héldi áfram. Þess vegna var sameiginlegt álit þessara aðila, að rétt væri, að haldið væri grundvelli í þessu efni eins og upphaflega var, en þegar á það stig væri komið, að nokkurn veginn jafnvægi væri á komið um verðlagsmálin og séð væri fyrir, á hvern hátt það yrði, þá yrði þetta mat tekið til leiðréttingar. Og þá var hugsað helzt að taka það þannig að hækka matið eftir till. fróðra manna þar um, þegar að því kæmi, hlutfallslega jafnt frá því, sem það væri í fasteignamatsbókunum. Og ég hygg, að þetta hafi vakað fyrir, þegar fasteignamatsl. var breytt árið 1945 með síðari málsgr. 1. gr. matslaganna, sem orðast þannig: „Nú breytist verðgildi peninga að verulegu leyti á milli þess, að aðalmat fer fram, og má þá með l. ákveða breytingu á matsverði allra fasteigna í landinu í samræmi við það.“ En það var orðið nokkurn veginn ljóst þá og er jafnvel enn ljósara nú, að þess konar aðferð við breytingu á matinu mundi verða nokkurs konar handahóf og lítið betri en þetta mat, sem nú er í gildi.

Við vitum það, að í því verðlagsróti, sem hefur verið hér í landi undanfarin ár, hefur verð fasteigna ekki aðeins stórbreytzt í heild gagnvart peningum, heldur hefur verðgildi þeirra raskazt mjög innbyrðis, borið saman við það, sem áður var, því að nú er söluhæfni fasteigna á ýmsum stöðum þannig, að þær eru allt frá því að vera hér um bil óseljanlegar en sumar þeirra seldar rétt fyrir fasteignamatsverð — og allt upp í það að seljast fyrir þrefalt, ferfalt og upp í tífalt fasteignamatsverð. Hins vegar er það þannig, að ef á að gera einhverja leiðréttingu á þessu, verður hún að vera öðruvísi en þannig, að gerð sé hækkun á matinu með einhverju einu margfeldi, sem sé látið gilda um allar fasteignir. Og mér skilst, að verið sé að leitast við að gera það með flutningi þess frv., sem hér liggur fyrir. Og ég held, að það sé misskilningur hjá hv. þm. A-Húnv., sem hann sló hér fram um daginn í umræðum um þetta mál, þar sem hann taldi þetta frv. hroðvirknisgraut, þar sem ekki væri einu sinni gert ráð fyrir að nema úr gildi núverandi fasteignamatsl. Ég held, að þetta sé mesti misskilningur, vegna þess að ég lít svo á, að þetta frv. sé byggt eingöngu á framkvæmd þess, sem ég var að lesa upp hér áður, þar sem segir: „Nú breytist verðgildi peninga að verulegu leyti á milli þess, að aðalmat fer fram, og má þá með l. ákveða breytingu á matsverði allra fasteigna í landinu í samræmi við það.“ Það er það, sem verið er að gera með þessu frv., ef að l. verður, því að fasteignamatsl. sjálf standa eftir sem áður óhögguð og óbreytt og halda sinu gildi. En þetta mat hefur aðeins gildi fyrir þetta eina tilfelli, sem því er ætlað að hafa áhrif á viðkomandi matinu. Það er sem sé leiðrétting á núgildandi mati. Ég skal viðurkenna, að það er kannske ekki eðlilegt, að þessi breyting væri gerð fyrr en nú, því að nú fyrst er komið útlit fyrir, að hægt sé að gera ráðstafanir um mál eins og fasteignamat með það fyrir augum, að gilt geti um nokkur næstu ár. Ég tel, að þótt nú sé kannske ekki komið fullkomið jafnvægi á verðlagsmálin hjá okkur, þá sé komið svo langt í þá átt, að hægt sé nú að breyta þessu rangláta fasteignamati í varanlegt form.

Ég skal þá ræða efni frv. og þær athugasemdir, sem komið hafa fram um það. Ég er ekki sammála þeim skoðunum, sem hv. 1. þm. Árn. hélt fram hér á dögunum, að heppilegra mundi vera að byrja á því að senda matið til sveitarstjórna og bæjarstjórna úti um land til þess að láta þær leggja fyrst grundvöll að matinu og matsn. taki það síðan og leiðrétti. Ég hygg, að það mundi vera svo mikið innbyrðis ósamræmi í þeim till., sem kæmu um matið frá hinum ýmsu hreppsfélögum innan héraða, þannig að hver hreppsn. fyrir sig gæti litið öðruvísi á málið en aðrar hreppsn. innan sama sýslufélags. Ég held því, að það yrði örðugt fyrir fasteignamatsn. að samræma þær till., sem þannig kæmu utan af landi. Ég hygg, að heppilegra sé, að n., sem til þess væri kjörin, samræmi matið fyrst og sendi hreppsfélögunum það og fengi ábendingar frá þeim, sem hún tæki til greina, eftir því sem henni þætti rétt og sanngjarnt. Ég hygg, að það væri hagkvæmara fyrirkomulag en hitt. — Ég skal líka viðurkenna það, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Skagf., að það kann að þykja nokkur hætta á því með þessu fyrirkomulagi, að sjónarmið og þekking utan Rvíkur nytu sín ekki nægilega vel í matinu, þegar undirnefndir aðalmatsnefndar væru úr sögunni. Ég held, að það mætti bæta úr þessu, t. d. með því að þeir þrír menn, sem ættu að breyta matinu, væru teknir nokkurn veginn sinn úr hverjum hluta landsins. Þó hefði ég betri trú á því, að í stað þess að fasteignamatsmennirnir eiga að vera þrír, væru þeir ekki nema tveir, en hins vegar væri tekinn einn maður úr hverju sýslu- og bæjarfélagi, sem fjallaði um matið, hver á sinu svæði, þannig að matsmennirnir hefðu jafnan einn aukamatsmann til skrafs og ráðagerða og ákvörðunar um matið í hverju einu sýslu- og bæjarfélagi fyrir sig. Þetta gæti orðið eitthvað dýrara, en ég býst við að með þessu yrði þetta fullkomnara en með því móti, sem það er hugsað.

Það var minnzt á það hér við síðustu umræðu af hv. þm. A-Húnv., að það mundi ekki borga sig þetta brölt með matið, vegna þess að það gæfi lítið í aðra hönd, miðað við það, hvað það væri dýrt og hvað kæmi á móti. Ég vil segja það, að þótt þetta sé fyrst og fremst peninga- og fjárhagsmál, þá er það ekki eingöngu, því að það er líka réttlætismál með tilliti til álagningar skatts í landinu. Það má ekki allt mæla á hinn peningalega mælikvarða. Það er rangt og óviðunandi, að menn séu eins misjafnlega settir með greiðslur til hins opinbera og hlýtur að verða með því fasteignamati, sem nú er. En þar að auki er ég þessum hv. þm. ekki sammála um það, að þetta yrði lítill búhnykkur fyrir ríkissjóð, jafnvel þótt þetta mál, sem hér liggur fyrir, sé tekið út af fyrir sig.

Hv. þm. A-Húnv. sagði og vitnaði í síðasta fasteignamat, að það hefði kostað hátt á aðra millj. kr., en ég hygg, að honum hafi skeikað þar allverulega. Hann flaskaði á því, sem máltækið segir, að sjaldan komi fyrir, að menn ýki um helming eða meira en helming, því að fasteignamatið sjálft kostaði ekki tvær millj. kr. og ekki hátt á aðra millj. kr., heldur rúmlega eina millj. kr. Um þetta getur hver maður sannfært sig með því að leggja saman á landsreikningi kostnaðinn, enda var mikið um það talað á sinum tíma, og meira að segja var gefin út bók af einum ritfærasta manni landsins, þar sem einn kaflinn fjallar um það, hve fasteigamatskostnaðurinn hafi verið mikill og að þeir, sem hlut áttu að máli, hefðu getað dregið þá menn fyrir lög og dóm, sem að því unnu, ef þeir hefðu viljað hafa fyrir því.

Ég vil gera grein fyrir því, hvað fasteignamatið kostaði 1930. Þar er að vísu nokkuð blandað saman í kostnaði, en með nokkurri vinnu er hægt að komast að niðurstöðu um fasteignamatskostnaðinn þá. Ég get ekki betur séð en að hann hafi verið kringum 300 þús. kr. Það er að vísu hærri tala 1 millj. kr. en 300 þús. kr., en það var dálítill munur á verðlagi í landinu á þessum tveimur tímum, 1930 og hins vegar þeim tíma, er síðasta fasteignamat fór fram. Í kringum 1930 var meðalupphæð fjárl. 17.6 millj. kr., en þegar síðasta fasteignamat fór fram, þá var meðalupphæð á landsreikningnum 72.8 millj. kr., eða fjórum sinnum hærri. Landsreikningurinn er skýrasta dæmi þess, hve dýrt er að starfa og lifa í landinu á hverjum tíma. Útkoman verður sú, að fasteignamatskostnaðurinn 1930 er af heildarniðurstöðu útgjalda á fjárl. 1.7%, en við fasteignamat kringum 1940 er hann um 1.4% af meðalútgjöldum landsreikninga á þeim árum. Það sýnir sig, að kostnaðurinn er tiltölulega sízt hærri 1940, borið saman við þann kostnað, sem var yfirleitt í landinu á þessum árum, heldur en 1930. Og ég ætla að leyfa mér að fullyrða, þótt ég sé kannske ekki óhlutdrægur dómari um það, að til fasteignamatsins 1940 hafi verið vandað miklu meir en nokkurs annars fasteignamats. Þá var aflað ýtarlegra upplýsinga viðvíkjandi fasteignamatinu í landinu, sérstaklega til sveita, sem unnar voru úr hagfræðilegar skýrslur viðvíkjandi matinu, og allt kostaði þetta peninga. Ég vil líka geta þess, að viðkomandi þessu voru gerðar sérstakar fasteignamatsbækur fyrir alla kaupstaði og kauptún í landinu, sem ekki var áður. En ef menn vildu afla sér gagna um matið hér áður fyrr, varð að fara á safn til þess með miklum kostnaði. Úr þessu hefur fasteignamatsn. bætt.

Hv. þm. A-Húnv. taldi, að það borgaði sig ekki fyrir ríkissjóð að kosta til matsins, þar sem skattur væri áætlaður 700 þús. kr. af fasteignum. En mér finnst sem hans rök snúist alveg á móti honum sjálfum í því efni, því að það, hve matið er óeðlilega lágt og skatturinn er lágur, sýnir aðeins hve mikil þörf er á að breyta hér til. Ég er sannfærður um, að matið, þótt skikkanlegt væri, sem nú færi fram, mundi koma fram með útkomu, sem varlega áætluð mundi verða um fjórfalt núverandi fasteignamat, og þá hækkaði skatturinn úr 700 þús. kr. í um það bil 3 millj. kr. Líka má benda á, að almenni eignarskatturinn er líka grundvallaður á fasteignamatinu. Og það eru ýmsir menn, sem eiga miklar eignir í fasteignum, sem losna við mjög mikinn hluta af þeim skatti, sem þeim í raun og veru bæri að greiða. Það mætti því segja mér, að sú eðlilega breyting yrði eftir þessa lagabreytingu, að hún mundi gefa ríkissjóði upp undir 5 millj. kr. í skatti í staðinn fyrir það, sem nú er. Og þó að þetta fasteignamat yrði jafndýrt og 1940, sem enginn lætur sér þó detta í hug, þá yrði það hagur fyrir ríkissjóð eftir eitt ár. Þess vegna mæla öll þessi rök, sem færð hafa verið gegn þessu, með því, að þetta mál verði tekið til meðferðar og matið verði leiðrétt eins fljótt og kostur er á.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að það er engin nauðsyn á því, — því að þetta frv. krefst þess á engan hátt, — að núverandi fasteignamatsl. sé breytt, því að þetta frv. styðst meðal annars við eitt ákveðið atriði þeirra laga. Hitt er annað mál, að ég tel rétt, þó að það verði ekki gert nú, að núverandi fasteignamatsl. verði endurskoðuð, því að ég hygg, að það nái ekki nokkurri átt á tímum, sem eru jafnbreytilegir og þeir, sem nú eru og sennilega verða eitthvað eftirleiðis, að ætla sér að láta fasteignamatið vera óbreytt í 25 ár. Ég veit ekki betur en að hjá öllum menningarþjóðum og þar af leiðandi í okkar nágrannalöndum komi nýtt fasteignamat á 5 ára fresti. Og ég hygg, að hægt væri að koma þessu mati þannig fyrir, að það þyrfti ekki að valda ýkja miklum kostnaði, ef samvizkusamlega væri framkvæmt það millimat, sem framkvæma á á þessu tímabili, og öllum skjölum og skýrslum um matið væri haldið saman. Með því móti hygg ég að án mjög mikils kostnaðar væri hægt að endurprenta fasteignamatsbókina á 5 ára fresti. Stingur það dálítið í stúf við það, sem hér hefur verið ákveðið, að láta kyrrt liggja í þessum efnum í 25 ár.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta. En ég er að vissu leyti þakklátur hv. þm. A-Húnv. fyrir það, að hann gaf mér tækifæri til þess að leiðrétta misskilning, sem mjög hefur verið haldið á lofti í sambandi við það, hve gífurlega mikill kostnaður hefði verið í sambandi við síðasta fasteignamat.