11.01.1951
Neðri deild: 47. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í C-deild Alþingistíðinda. (3536)

141. mál, innflutningur búfjár

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Þetta frv. er flutt fyrir hönd ríkisstj., og felast ekki í því nein loforð af hálfu einstakra nm. að fylgja því óbreyttu eða eins og það kemur fyrir hér. Árið 1948 voru sett lög um innflutning búfjár, sem hér er lagt til að verði gerð breyting á. Það var þá gert ráð fyrir, að heimild væri til að flytja inn sæði til kynbóta, en þó með þeim takmörkunum, sem í þeim lögum eru, en þær eru bæði um það, að leyfi fyrir innflutningnum skuli vera fengið hjá Búnaðarfélagi Íslands, búfjárræktarráði og yfirdýralækni og að fyllstu varúðar sé gætt í sambandi við smitnæma sjúkdóma. M. a. eru ákvæði um það, að gripirnir, sem tilraunirnar eru gerðar á, skuli vera algerlega einangraðir. Nú stendur í þessum lögum, að aðeins ríkið sjálft hafi heimild til að standa að slíkum ráðstöfunum. Hins vegar hefur ekkert verið gert af hálfu ríkisins í þessa átt, en ýmsir aðilar aðrir hafa sýnt áhuga á þessum málum og verið fúsir til að standa undir kostnaði og sjá um að öllu leyti framkvæmd slíkra tilrauna. Má þar nefna Samband íslenzkra samvinnufélaga, sem hefur mikinn áhuga á að flytja inn sæði til að koma upp innlendu holdakyni, en samkvæmt lögunum má ekki veita því slíkt leyfi nú. Á sama hátt hefur komið fram áhugi hjá fulltrúum Reykjavíkurbæjar á að gera hliðstæðar tilraunir með innflutning á sæði til að bæta mjólkurkynið. Fyrir síðasta þingi lá frv., sem var svipað að efni og þetta, þar sem aðalbreytingin frá gildandi lögum var sú, að ríkið gæti leyft einstökum aðilum að hefja kynbætur á þennan hátt, ef allrar varúðar yrði gætt og þau skilyrði fyrir hendi, sem lögin kveða á um. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að einstakir aðilar taki í sínar hendur fyrir hönd ríkisins að stofna og starfrækja slíkar tilraunastöðvar undir eftirliti þeirra aðila, sem nefndir eru í 3. gr. þessa frv.

Ég skal ekki segja um það, hvernig landbn. snýst við þessu frv., en ég skal geta þess, að ég er sjálfur mjög meðmæltur því, að það verði samþ. Ég hef mikla trú á þeim umbótum, sem hægt væri að gera á íslenzka bústofninum með því að kynbæta hann, og á ég þar sérstaklega við kynbætur á holdanautum, og ég hef mikinn áhuga á að koma sem víðtækustum tilraunum í þessum efnum á. Ég er sannfærður um, að okkar miklu beitilönd verða á engan hátt betur nýtt en til þess að koma upp harðgerðu holdakyni og verja til þess hinum miklu gresjum, sem hrossin hafa nú ein. Gott nautakjöt hefur alltaf þótt gott og verið talið fyrsta flokks vara, en hestakjöt hefur ætíð verið talið annars flokks. Því tel ég, að um mikla framför yrði að ræða, ef í stað hrossakjötsins kæmi nautakjöt. Fer ég svo ekki fleiri orðum um þetta mál, því að það liggur ljóst fyrir, en það væri kannske rétt að óska eftir því, að það færi til landbn. til frekari meðferðar, og ef till. kæmi fram um það, þá yrði rétt að verða við henni. Ég óska svo eftir því, að málinu verði að umr. lokinni vísað til 2. umr.