06.11.1950
Efri deild: 15. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mér þykir eiginlega furðu sæta, að hv. fjhn. skuli hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að vísa beri frá þessari till., þar sem fyrst og fremst er beðið um að láta sem skjótast fara fram rannsókn af ríkisvaldsins hálfu á því, hvort þarna sé um neyðarástand að ræða, og ekki eru gerðar frekari kröfur en að biðja um 1/9 hluta þeirrar upphæðar, sem veitt er til Austfjarðasvæðisins út af misserishallæri í aðalatvinnuveginum þar. En þessu hvoru tveggja er neitað af hv. n. Mér skilst þó á hv. frsm., að þessu sé neitað af því, að þessi tili. fjalli um úrbótaaðgerðir á svo litlu svæði. En þetta litla svæði er nú allur Vestfjarðakjálkinn, og er ekki allur munur á honum og því svæði, sem aðstoð á að fá skv. frv. Svæðið er áreiðanlega nógu stórt, mannfjöldinn nógu mikill og þörfin nógu brýn til þess, að hv. fjhn. ætti að geta lagt sig niður við að sinna málinu. Þá er það, að hjálpin sé ekki tæmandi, hv. frsm. notaði það orðalag. Það er út af fyrir sig rétt. En það var aðeins beðið um, að hið opinbera rétti hjálparhönd, svo að fólkið gæti hjálpað sér sjálft. Það var ekki beðið um, að því væru réttar fjárfúlgur, án þess að þyrfti að hreyfa legg eða lið, og hélt ég, að aðgengilegra væri að samþ. till., þar sem ekki er freklega í fjárbeiðnir farið, en aðeins gerðar þær hógværustu kröfur, sem hægt er, til að leysa úr hinni brýnustu þörf. En á hv. frsm. var helzt að skilja, að till. þyrfti að vera almennara eðlis og stærri og heimtufrekari, ef hv. n. ætti að sinna henni. En ég verð að segja,. að ég skil þetta ekki, en eftir orðum hv. frsm. virtist málið of smátt fyrir n.

Þá er það tilvísunin til þess, að þetta eigi að afgreiða í sambandi við annað mál. Ég taldi málið svo aðkallandi, að bregða yrði við hart og títt og vildi því tengja það við mál, sem er raunverulega sama eðlis, þ.e. að ríkisstj. bæti úr neyðarástandi fólksins á Vestfjörðum engu síður en á Austfjörðum. Formlega séð er náttúrlega hægt að tengja till. okkar við frv. um aðstoð til handa þeim, er síldveiðar stunduðu s.l. sumar, en það frv. er raunar ekkert skyldara till. okkar en frv. það, sem hér er til umr. Og ef til vill má ég skilja hv. frsm. fjhn. svo, að það sé fyrirheit af hálfu n. um að sinna málinu á jákvæðan hátt, ef það verði tengt við það frv., en um það hafa ekki fallið orð frá hv. frsm., svo að á því megi byggja, en ef ekkert fyrirheit er um það gefið, þá er beinlínis verið að hunza þessa till., og vildi ég gjarnan fá að heyra frá hv. frsm., ef n. vill frekar sinna till. okkar í sambandi við eitthvert annað mál, og ef svo er ekki, þá er verið að fara hér undan í flæmingi, og er þá á ólíkan hátt snúizt við óskum þessa fólks og óskum austfirzkra bænda. Hér er þá verið að vísa frá þessu tvennu: Í fyrsta lagi að láta rannsaka ástandið í atvinnumálum Vestfjarða og í öðru lagi að verja allt að 500 þús. kr. til úrbótar þar, ef þess þætti þörf. Ég þarf ekki frekar en ég hef þegar gert að lýsa því ástandi, sem nú er á Vestfjörðum, sem eitt dagblaðið taldi mig hafa verið stórvíttan fyrir, en það er staðreynd, að margar fjölskyldur á Vestfjörðum hafa ekki til hnífs og skeiðar frá degi til dags. Sumir hv. þm. hafa fleiprað um það, að vísu ekki í þingræðum, að Ísfirðingum væri ekki vorkennandi, þar sem þeir létu togarann liggja við bryggju, þegar þá skorti björg, en það er ekki hið sveltandi fólk, sem sker úr því eða ræður því með atkvæði sínu, hvort togarinn Ísborg fer á veiðar eða önnur atvinnufyrirtæki starfi, svo að hér er verið að hengja bakara fyrir smið, og undirtektir margra hv. þm. undir till. til bjargar þessu fólki eru hvorki ljúflegar né höfðinglegar.