06.11.1950
Efri deild: 15. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir ekki óeðlilegt, að ég geri nokkra grein fyrir afstöðu minni, þar sem ég er umboðsmaður nokkurs hluta þess fólks, sem hér er lagt til að veita aðstoð. Ég vil þá fyrst benda á það, að ég gerði brtt. við frv., en þær voru allar felldar, og báðir fjhn. till. á þskj. 118 voru á móti þeim, og geri ég ráð fyrir, að afstaða þeirra hafi markazt af því, að hér var um að ræða staðfestingu á brbl. Ég vildi færa málið á réttan vettvang, þannig að aðstoðin væri veitt samkv. l. um Bjargráðasjóð Íslands, en í 1. gr. þeirra l. segir, að bjargráðasjóður skuli vera allsherjarsjóður til hjálpar í hallæri, „en það er hallæri“, segir í gr., „ef sveitarfélög, eitt eða fleiri í sýslu, eða bæjarfélög verða af náttúruvöldum svo illa stödd, að þau megna ekki af eigin rammleik að forða mönnum og skepnum við harðrétti og felli“. Hér er því miðað við hallæri vegna náttúruafla, en það tel ég ekki vegna náttúruafla, þó að fiskigöngur bregðist, því að þær eru alltaf vafasamar. Það er því ekki hægt að færa þessa till. undir þessi l. Ég er því á móti þessari till., eins og ég er á móti frv. í heild, en ég er hér í minni hl. og verð að sætta mig við það, og mun láta afgreiðslu málsins afskiptalausa, og verður það hér að afgreiðast á ábyrgð þeirra manna, sem vilja afgreiða það þvert ofan í landslög. Þetta er sem sé ein af ástæðunum til þess, að ég er á móti till. á þskj. 118. Enn fremur er ég á móti þeim af því, að ég tel, að það mál eigi að leysa í sambandi við l. um aflatryggingasjóð, og má í því sambandi benda á, að í Bolungavík hefur í mörg ár starfað aflatryggingasjóður, og hefur verið veittur styrkur úr ríkissjóði til að hjálpa mönnum, sem þar hafa stundað útgerð. Tel ég heppilegra að taka slíkt mál upp sérstaklega en hnýta því aftan í frv. til bráðabirgðal. Og ég vil beina því til hv. þm., að hægt er að taka slíkt frv. upp sérstaklega. Þetta er ekki sagt af andúð gegn þessu frv., heldur meðfram af samúð með því. Þetta er önnur ástæðan til að ég gat ekki verið með brtt. — Hin er sú, að ríkisstj. tók lán að upphæð 2200000,00 kr. í sambandi við síldarútveginn á Siglufirði. Í sambandi við þessar ráðstafanir voru sett ákvæði um það, að ekki mætti hreyfa við þessu stofnfé. Nái þessi brtt. fram að ganga, er þetta þurrkað út. Nú er mér ekki kunnugt um, hvort komið hafa fram kröfur um aðstoð frá útgerðarmönnum á Vestfjörðum, en mér er ljóst, að ef þær kröfur koma fram, verður þeim sinnt ekki síður en kröfum Siglfirðinga, en ef þær hafa komið fram, væri æskilegt, að það yrði upplýst hér. Mér er ekki kunnugt um, hve mikið fé er til, það munu vera um 500 þús. kr. í síldveiðideild, en hve mikið er í þorskveiðideild, veit ég ekki. Um ástandið á Vestfjörðum skal ég ekki ræða að sinni. Afstaða manna er nokkuð skipt vegna þessa ástands, en ef það er úrbót, sem hv. þm. hélt fram, að hækka allt kaup, þá ætti að vera auðvelt fyrir Alþfl. að hækka kaupið úr 10 kr. í 110 kr., ef þetta er þá eina ráðið til bjargar á Vestfjörðum, og þá er óþarfi að eyða tíma Alþingis í umræður um þetta mál. Eftir að hv. þm. hafði gefið þessa yfirlýsingu, er síður ástæða til að taka orð hans alvarlega, þar sem hækkað kaup þýddi það, að útvegurinn gæti ekki borið það. Meðal annars á Arnarfirði var ekki hægt að borga sjómönnum kaup sitt, af því að það var svo hátt, að útgerðin bar það ekki, svo að að því kom í sumar, að grípa varð til annarra ráða, en nú hefur orðið að hætta, af því að fólkið vill hafa hærra kaup og minni vinnu, heldur en hafa lægra kaup og meiri vinnu. Ekkert samkomulag hefur orðið við fólkið um að lækka laun sín, og nú er að því komið, að atvinnan stöðvist, af því að fólkið vill hafa hærri laun á pappírnum en atvinnuvegirnir standa undir. Sama ástæðan er fyrir því, að togarinn á Ísafirði liggur bundinn. Ef hv. þm. vildi sýna vilja sinn í verkinu um að bæta lífskjör almennings á Vestfjörðum, ætti hann að stuðla að lausn togaradeilunnar. Hv. þm. sagðist taka frávísun nefndarinnar sem yfirlýsingu um, að hún vildi ekki láta rannsaka málið eða greiða það nokkuð. Ég verð að segja það, að þetta er einkennilegur málflutningur hjá hv. þm. Það er ekki farið fram á rannsókn, það er farið fram á styrk án rannsóknar, og þetta mál hefur ekki verið borið þannig fram, að það sé til þess að afla því vinsælda að viðhafa þennan málflutning, og ég vísa því frá, að n. sé á móti þessu máli. Þegar það verður borið rétt að, þá verður það tekið rétt fyrir í n. — Og að síðustu: Hv. þm. sagði, að það væri fjöldi manna, sem ekki hefði til daglegs brauðs. Ég vil benda honum á, að það er meðal annars í hans valdi að koma því til leiðar, að vinnutíminn sé lengdur, svo að menn fái meiri heildartekjur.