26.01.1951
Neðri deild: 56. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í C-deild Alþingistíðinda. (3562)

158. mál, Akademía Íslands

Viðskmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Það virðist í ræðum þeirra tveggja þm., sem hér hafa talað, hv. þm. V-Húnv. og hv. 3. landsk., að þeir telji, að heimspekideild háskólans muni geta tekið við því hlutverki, sem hér er ætlað þeirri stofnun eða þeim samtökum, sem hér um ræðir. Ég skal ekki bera neina rýrð á heimspekideildina, þar eru vafalaust á hverjum tíma færir menn í sínu fagi, að vísu eru ekki öll þeirra fræði um íslenzkt mál, en ég hef ekki þá trú, að heimspekideildin anni nokkurn tíma þessu sérstaka hlutverki, sem hér um ræðir. Heimspekideildin hefur starfað frá því háskólinn var stofnaður, og mætti þá láta sér koma til hugar, að hún hefði átt að taka sig fram um það að gera eitthvað í þessum efnum annað en það, sem hún þegar hefur gert. Þar að auki verður að taka til greina, að hér á að vera um virðingarstofnun að ræða, sem skipuð yrði 12 beztu rithöfundum og fræðimönnum þjóðarinnar. Það er dálítið annars eðlis en það, að það séu gefin ákveðin fyrirmæli til ákveðinnar deildar í háskólanum um vissa framkvæmd. Heimspekideildin hefur sýnt, að hún hefur ekki tekið sig fram um framkvæmdir í þessu, og ég er ekki mjög bjartsýnn um það, að þessu hlutverki yrðu gerð góð skil í hennar höndum. Ég skal ekki deila um kostnað við fræðslumálin, þau eru þungur baggi og taka mikinn hluta af tekjum ríkisins. Skólamálin eru alltaf stór liður í útgjöldum hvers lands. Ég hef ekki þá trú, að skólarnir eigi að vera undirstaða málsins. Þess er ekki að vænta, að kennararnir, þó að þeir séu vel að sér, taki að sér myndun nýyrða í málinu. Málinu er þörf á því, að mynduð séu nýyrði um ýmis tæki, sem komið hafa fram á síðari tímum, en við höfum ekki þurft á að halda áður. Það má deila um það, hvort greiða eigi þessum mönnum heiðurslaun. Ég tel eðlilegt og heppilegt, að þeim mönnum, sem eiga sæti þarna, séu greidd einhver heiðurslaun.