29.01.1951
Neðri deild: 57. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í C-deild Alþingistíðinda. (3566)

165. mál, menntaskólar

Flm. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Þegar lögin um menntaskóla voru sett, 1946, var ráðgert, að gagnfræðadeildin, sem starfaði við menntaskólana, yrði lögð niður og skólarnir yrðu 4 ára skólar í stað 6 ára áður. Þessi nýbreytni mætti andspyrnu menntaskólans á Akureyri, þar sem talið var óheppilegt að leggja gagnfræðadeildina niður. Gegn þessari breytingu barðist Sigurður Guðmundsson skólameistari, er vafalaust má telja einn merkasta skólamann okkar, og andmælti hann þessari breytingu í milliþn. í skólamálum, er sat á Laugarvatni. Þar kom líka, að menntmrh. heimilaði gagnfræðadeild skólans að starfa til 1948 eftir gamla skipulaginu, en 1948–49 í samræmi við nýju fræðslulöggjöfina, og skyldu þá nemendur búnir undir miðskólapróf. 1949 heimilaði menntmrh. svo ekki, að gagnfræðadeildin skyldi starfa áfram, og var þá málið borið fram á þingi. Þá voru lög samþykkt um tveggja ára gagnfræðadeild eða til 1951. Nú hafa komið fram tilmæli frá menntaskólanum á Akureyri að heimila gagnfræðadeildinni að starfa til 1953. Það er óhætt að segja, að mikill meiri hluti þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli, stendur á bak við þessi tilmæli. Bæjarfélagið og margir fleiri aðilar hafa mælzt til þessa, og síðast á fjórðungsþingi Norðlendinga var samþykkt að óska þess, að miðskóladeildin fengi að starfa áfram.

Með þessu frv., sem hér liggur fyrir til umræðu, fylgir ýtarleg greinargerð, enda hafa margir þingmanna kynnzt málinu hér á þingi 1949, og má segja, að rökin fyrir því hafi lítið breytzt síðan. Tel ég óþarfa frekari greinargerð við 1. umr. þessa máls. Nú mun skammt til loka þessa þings, og óska ég þess, að málið gangi sem fyrst til nefndar. Leyfi ég mér að óska, að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. menntmn.