06.11.1950
Efri deild: 15. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson): Herra forseti. Áður en ríkisstj. gaf út þær tillögur, sem hér um ræðir, var af hennar hálfu efnt til rannsóknar á þeim svæðum, þar sem mestrar hjálpar var talin þörf. Um þessi héruð ferðuðust reyndir menn og gáfu henni síðan skýrslu um ástandið. Ríkisstj. tók málið upp, nokkru áður en brbl. voru sett, eftir ábendingu frá fulltrúum þessara héraða og frá búnaðarmálastjóra, og á þeirri málaleitun var sú rannsókn byggð, sem getið er um hér að framan, þannig að nákvæm rannsókn var aðdragandi að setningu laga um íhlutun ríkisstj., og það voru fulltrúar fólksins, sem fóru fram á aðgerðir ríkisstj., og þær aðgerðir voru ekki látnar fara fram, fyrr en rannsókn hafði farið fram, en um hitt má deila, hversu góð þessi rannsókn hafi verið eða hvort hún hefði verið betur framkvæmd í öðru formi. Og þó að deila megi um einstök atriði, þá hefur ekki verið neinn ágreiningur um það að þarna hafi verið raunhæfra aðgerða fullkomin þörf. Ég verð að játa það, að þegar ég heyrði ræðu hv. 6. landsk. þm. og lýsingu hans á ástandinu á Vestfjörðum, fannst mér hann benda á athyglisverðar staðreyndir í því sambandi, að athugunar væri þörf af þeim sökum. Hinu vil ég ekki neita, að mér finnst hann hafa ýkt lýsingu sína nokkuð, því að ég hef nýlega heyrt, — ég man ekki, hvort ég heyrði það í útvarpi eða las það í blaði, - að útgerð er frá ýmsum þeim stöðum, sem hann sagði að lægju í dái. Ég segi ekki með þessu, að hv. þm. hafi verið að villa um fyrir þm., og ástandið getur verið fullalvarlegt, þó að hann hafi málað það dekkra en það raunverulega er. Mér skildist á honum, að ekki þyrfti nema litla upphæð til að færa atvinnuvegina í lag á Vestfjörðum, og er vert að athuga það, áður en svo lítilli upphæð er neitað. En nú er það svo, að margt það, sem hv. þm. hefur sagt, getur ekki staðizt. Þegar hann segir, að ekki eigi að blanda saman vandræðunum á Vestfjörðum og togaraverkfallinu á Ísafirði, þá er það ekki rétt. Nú er það svo, að sáttatillagan var felld á Ísafirði með 27:22 atkv., svo að þar hafa milli 40 og 50 manns greitt atkv., en nú eru ekki nema um 30 manns á togaranum, svo að þar hafa nokkrir menn, sem voru ekki á skipinu, tekið sér vald til að kveða á um þetta. Og ég hef heyrt, að um 160 manns hafi haft atkvæðisrétt um þetta mál, og þar á meðal verulegur hluti þeirra manna, sem svo illa var komið fyrir. Til samanburðar við Ísafjörð má taka Akranes, þar sem togarinn var líka í verkfalli, en þegar það leystist, varð svo mikil eftirspurn eftir vinnu, að gefa varð unglingum frí úr skólum til að geta leyst verkefnin við hagnýtingu aflans. Því verður ekki neitað, að togaraverkfallið á Ísafirði hefur veruleg áhrif á atvinnulífið þar og í nágrenninu. Og ég held, að það væri bezta lausnin á atvinnuvandræðunum á Ísafirði, ef hv. þm. vildi beita sér fyrir lausn togaradeilunnar þar. Ef til vill þarf aðdraganda að því, að hægt sé að hagnýta aflann þar eins og gert er á Akranesi, en fyrsta skilyrðið er að koma togaranum af stað, og því verður ekki neitað, að þarna er galli á málflutningi hv. þm., sem gefur tilefni til að ætla, að hann vilji ekki viðurkenna rétt samhengi málanna.

Ég segi ekki með þessu, að málið sé leyst, þó að togarinn komist út. Atvinnuhorfur á Ísafirði eru án efa mjög slæmar. Menn eru ekki sammála um, hvort þar er um aflaleysi eitt að ræða eða önnur þau náttúruöfl, sem menn ekki ráða við. Hér hlýtur því að fara nokkuð á milli mála. Annars vegar er því haldið fram, að um aflaleysi eitt sé að ræða, og þá get ég ekki trúað, að hálf milljón geti mikið hjálpað svo stórum landshluta sem Vestfjörðum. En í umræðum á dögunum drap hv. þm. á tregðu bankanna til lána. Af þessu er ljóst, að málin liggja ekki svo ljóst fyrir sem skyldi, og engin lausn á þessum vanda að hnýta tillögum til úrbóta aftan í það frv., sem hér er til umræðu. Þessum málum má ekki blanda saman, ef það á annað borð vakir fyrir hv. þm. að finna lausn þessara mála, en ekki það að kasta þessu máli hér inn í þingið sem pólitískum bolta handa flokkunum að henda á milli sín. Rétta leiðin er að taka málið upp sjálfstætt og láta rannsókn fara fram, og þá á eftir að bera fram tillögur til úrbóta og taka þá málið upp í samráði við ríkisstj. eða Alþingi, en ekki að kasta því inn í þingið eins og hér er gert.