16.02.1951
Neðri deild: 70. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (3570)

165. mál, menntaskólar

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Eins og nál. ber með sér, hef ég skrifað undir það með fyrirvara og hafði ætlað mér að gera grein fyrir, í hverju hann er fólginn og hvernig mér finnst þetta mál liggja fyrir. Nú vil ég leyfa mér að vekja athygli á því, að það er fámennt hér í salnum og senn komið að þeim tíma, sem venja er að slíta fundi eða fresta, svo að mér mun ekki endast tími til að ljúka ræðu minni fyrir þann tíma, og vildi ég því beina því til hæstv. forseta, hvort hann sæi sér ekki fært að fresta umr. um þetta mál þangað til á mánudaginn. Það er óvíst, að það mundi nokkuð seinka afgreiðslu málsins í heild, því að annars yrði það þá að koma fram við 3. umr., sem ekki yrði upplýst hér nú.