19.02.1951
Neðri deild: 71. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (3578)

165. mál, menntaskólar

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja hér mikið umræður, þar sem álit okkar hv. þm. A-Sk., er hér hefur gert grein fyrir máli sínu, fer mjög saman, en þó vildi ég mega segja fáein orð. — Það var augljóst, strax og þetta frv. kom fram, að óvenjumikið hafði verið unnið að því að tryggja því framgang, þar sem 7 voru flm., eða flestallir þingmenn Norðurlands; enda hefur gegnt furðu, hve mál þetta hefur verið fast sótt.

Þegar skólalöggjöfin nýja var sett árið 1995, var hún mjög rækilega undirbúin af þar til skipaðri mþn., og var hreint ekki hægt að segja, að ekki hefði verið vandlega að málum hugað, áður en frv. var lagt fyrir Alþingi. Hins vegar kom fljótlega fram andstaða af hálfu menntaskólans á Akureyri gegn því, að hann gengi inn í kerfið. Mér þótti að vissu leyti ekki óeðlilegt um þáverandi rektor menntaskólans á Akureyri, sem stýrt hafði skólanum um 30 ára skeið, þótt hann vildi ógjarnan fara að breyta því fyrirkomulagi skóla síns, er hann hafði mótað. Hins vegar þykir mér ekki ástæða til, að staðið sé fast á að viðhalda þessu sama formi, þegar nýr rektor hefur tekið við skólanum. — Því hefur m. a. verið haldið fram af formælendum þessa frv., að þetta mál væri mjög fast sótt af almenningi í hlutaðeigandi héruðum og m. a. lægju fyrir um þetta áskoranir frá sýslunefndum. Ég verð nú að telja þetta undarlegt, nema málið væri svo vaxið, að nemendur í héruðunum væru það margir, að þeir fengju ekki skólavist í héraðsskólunum. Þá væri eðlilegt, að áherzla væri lögð á, að þeir fengju að stunda sitt gagnfræðanám í menntaskólanum á Akureyri. En ef hægt er að veita þeim skólavist í héraðsgagnfræðaskólunum, þá virðist lítil ástæða til að sækjast sérstaklega eftir því, að þeir stundi það nám í menntaskólanum á Akureyri. Þar kemur það þó ekki sízt til greina, ef rétt er, að nemendum utan af landi hafi verið neitað um heimavist í menntaskólanum á Akureyri, að sé þar um að ræða menn, sem stunda nám í lærdómsdeild, þá yrðu þeir að leita til Rvíkur, en allir vita, að þar er skólinn yfirfullur.

Það hefur orðið samkomulag um það í menntmn. að bera fram brtt. þá, sem fyrir liggur á þskj. 671. Ég tel, að með því að frv. yrði fært í það horf, sem sú till. gerir ráð fyrir, þá yrði það mun betra en það er nú. Mun ég greiða atkvæði með brtt. Hins vegar hef ég ekki gengið til samkomulags um að greiða frv. atkv. mitt út úr deildinni. Ég mun þó ekki greiða atkv. á móti því, ef brtt. nær fram að ganga, og geri það þá í trausti þess, að frv. komi ekki aftur hingað inn í þingið. Það hefði ekki átt að koma hingað í því formi, sem það hefur nú, eftir að málið hafði fengið afgreiðslu fyrir einum tveimur árum. Og í því trausti greiði ég ekki atkv. á móti því, að það verði þá ekki flutt aftur, t. d. að öðrum tveimur árum liðnum.