23.02.1951
Efri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (3590)

165. mál, menntaskólar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég bjóst við því, að málið lægi fyrir d. með skýringum og meðmælum, en svo er ekki. Það má vera, að það eigi sér engan formælanda.

Eins og menn muna, var frv. þessu líkt lagt fyrir þingið fyrir tveimur árum. Það var barið í gegn móti umsögn menntmrh. og gegn mótmælum félags gagnfræðaskólakennara o. fl., er fengu málið til umsagnar. Það var svo gott, að það var hægt að fá ráðh. til að gera það að flokksmáli, og var barið í gegn á þeim grundvelli. Þó að málið sé menntamál, var það lamið í gegn í skjóli flokksvalds. — Þegar málið var á döfinni, var fullyrt af ýmsum, að þegar tímabilið væri runnið út, mundi málið ekki skjóta hér upp kollinum aftur. Nú er þetta tímabil liðið, og er málið þá flutt á ný. Að þessu sinni eru flm. 7. Menn hafa ekki treyst á gildi málsins sjálfs til að tryggja, að það komist í gegn.

Frv. hefur tekið nokkrum breyt. í Nd., og eru þessar breyt. augsýnilega þess efnis, að hinir 7 flm. hafa orðið að víkja undan til að koma því í gegn. Mér virðast þessar breyt. vera til bóta, þó að þær réttlæti ekki framgang málsins. Með breyt. er farið fram á, að gagnfræðadeild menntaskólans á Akureyri megi vera ein bekksögn. Þetta er torskilið, ef þetta á að vera til þess að láta ungt fólk njóta þess, en úr þessu dregið með því, að deildin sé ein. Enn fremur er það skilyrði, að nemendur lærdómsdeildar sitji fyrir plássi í heimavist. Með öðru móti væri gengið á rétt þess fólks, sem ætti forgangsrétt að aðgangi að heimavist, þau hlunnindi yrðu að engu, því að heimavistin væri upptekin af mörgum bekkjum gagnfræðadeildar. Önnur breyt. á þó að tryggja úrvalsnemendum gagnfræðadeildar heimavist í lærdómsdeild skólans. Þó að þetta sé í frv., eru þessi hlunnindi gefin bókstaflega, því að þeir, sem eru búnir að stunda nám við skólann, ættu fullan rétt á að tryggja sér heimavist. Þeir hefðu því forgangsrétt fram yfir þá, sem síðar kæmu og sæktu um pláss. Þetta ákvæði verður einskis vert í reyndinni vegna þess, að gengið er inn á að hafa gagnfræðadeild. Þá skapast forréttindi þeirra, sem fyrir voru í skólanum, til að fylla heimavist skólans. Ég vil meina, að þær umbætur, sem leitazt er við að fá fram, séu lítils virði. Ég vil segja, að við, sem höfum fengizt við þessi mál, erum búnir að fá nóg af þessu. Prófin eru af 4 tegundum: gagnfræðapróf eftir tvö ár eða minna gagnfræðapróf, próf eftir þriggja ára nám eða meira gagnfræðapróf, gagnfræðapróf ettir þrjú ár í menntaskólanum á Akureyri og eftir 2 ár í menntaskólanum í Rvík. Gagnfræðaprófið átti að veita forréttindi, en engin vissi, við hvað átti að miða. Það er ekki heppilegt að stefna nú í líka átt og taka upp gagnfræðapróf eftir 2 ár í menntaskólanum á Akureyri, þegar prófið er tekið eftir þrjú ár í öðrum skólum landsins. En nú er komið gagnfræðapróf ettir 4 ár í gagnfræðaskólum. Þó að ekki sé litið á annað en þetta, er ekki stigið í rétta átt. Það á að taka upp sömu ringulreiðina og ríkti áður en nýja skólalöggjöfin var sett. Við höfum fengið reynsluna af þessu ástandi. Nokkur undanfarin ár höfum við haft reynsluna af því, hvaða afleiðingar það hefur haft, reynsluna af því, að báðir menntaskólarnir höguðu kennslunni ekki á sama hátt. Menntaskólinn á Akureyri fylgdi ekki nýju skólalöggjöfinni og starfrækti þriggja ára gagnfræðadeild. Ráðh. fékk undanþágu til þessa árið 1947–48 og aftur 1948–49, en þá sagði hann stopp. Þá var frv. borið fram um að veita undanþágu, þó að menntmrh., fræðslumálastjóri o. fl. skólamenn væru því andvígir. Á sama tíma og þetta var gert, var nýja skólalöggjöfin framkvæmd í öðrum skólum, og menn gengu undir landspróf. Nemendur frá Ísafirði fóru oftast til Akureyrar til að tryggja sér ódýrara nám, en þegar þessi breyt. var gerð, reyndist sú leið að mestu leyti lokuð. Nemendur í lærdómsdeild voru flestir úr skólanum og umhverfinu, og gátu þá aðrir ekki lengur notið þessa. Nemendur frá Vestfjörðum fóru til Rvíkur með miklu meiri kostnaði. Það var tilgangurinn með að afnema gagnfræðadeildir menntaskólanna að greiða fyrir fólki utan af landi að komast í lærdómsdeild og að fólk úr skólanum nyti ekki sérstöðu og bægði öðrum frá því að komast í skólann. Undanfarið hefur ungt fólk farið í menntaskólann í Rvík með miklum kostnaði, þar sem engin heimavist er við skólann og Rvík er dýrasti bær á landinu. Auk þess virðist mér í frv., eins og því var breytt í Nd., að setja eigi gagnfræðadeild í menntaskólann í Rvík. Hún yrði fyllt af börnum efnamanna í Rvík, sem kaupa fyrir þau tímakennslu og gefa þeim forskot. Þeir, sem fá svo aðstöðu til að fylla hin auðu sæti, koma úr Flensborg, gagnfræðaskólum Akraness, Hveragerðis og Keflavíkur. Þetta er lagleg ráðstöfun og gerir ekkert annað en trufla og rugla skólalöggjöfina frá 1946. Ég verð að benda á það, að þegar með þessu er búið að torvelda efnalitlu námsfólki að komast í menntaskólana, þá verður ekki lengur staðið á móti því að setja menntaskóla á Austurlandi og Vestfjörðum. Með þessu móti er því máli greidd gatan, og harma ég það ekki, en ég vil benda á þetta í sambandi við málið.

Ég vil nú spyrja, hver tilgangurinn hafi verið með lögfestingu landsprófs, er heimilar nemendum að setjast í menntaskóla og kennaraskóla án sérstaks prófs. Tilgangurinn var sá, að úrvalsnemendur gætu þreytt próf heima hjá sér og haft jafnan aðgang að þessum skólum og forréttindi, sem fólk á Akureyri og í Rvík hafði, væru afnumin. Með þessu þurftu nemendur að austan og vestan ekki að fara langar leiðir til að þreyta próf, heldur gátu þeir gert það heima við sömu skilyrði og setzt síðan í lærdómsdeild, sem átti ekki að vera eingöngu setin af nemendum úr umhverfi skólans, en frá þessu var horfið með þessari undanþágu. Af þessu er ljóst, hver var tilgangurinn með að afnema gagnfræðadeildir menntaskólanna. — Nú, en það munu sumir segja: Þarna er verið að tryggja ungu fólki afnot af hinum beztu kennslukröftum, og er því hægt að ljúka þessu prófi á tveimur vetrum í stað þess, að það verður að ljúka því á þremur vetrum í öðrum gagnfræðaskólum. — Ég þori að fullyrða það og hef til þess næga reynslu, að það námsefni, sem lagt er fyrir 13–16 ára gamla unglinga til landsprófs, er nóg viðfangsefni til þriggja ára náms fyrir úrvalsnámsfólk. Og kennslan verður mótuð um of af einstrengingsskap, ef miðað er of mikið við það, hvað líklegt er, að komi á landsprófinu, en ef á að gera þetta á tveimur vetrum, býð ég ekki í andríki þeirrar kennslu, í hvaða skóla sem hún fer fram. Það verður andlaus ítroðsla og gengur fram af kröftum venjulegra unglinga, nema þeir séu svo flugnæmir á bóklegt nám, að þeir þurfi ekkert fyrir því að hafa. Það væri þess vegna rangt að taka hér upp tveggja vetra nám í stað þriggja, því að af því veitir ekkert. Það verður að gæta að því, að þetta er ekki þroskað fólk, heldur unglingar, sem setjast að þessu námi 12–13 ára, þ. e. einn ári yngra fólk en börn, sem útskrifuðust úr barnaskólum fyrir nokkrum árum, því að þar hefur námstíminn verið styttur um eitt ár.

Þá er annað, og það er, að ef þetta frv. verður samþ. hér í hv. d., þá teldi ég a. m. k. sjálfsagt, svo framarlega sem ekki er ætlað að stofna til sem mests glundroða, að bætt yrði við frv., að þessi undanþága væri veitt að því tilskildu, að allar sömu námsgreinar væru kenndar í þessari gagnfræðadeild menntaskólans á Akureyri sem nú eru kenndar í bóknámsdeildum gagnfræðaskólanna, því að ef þar verður annað námsgreinaval, yrði það enn líklegra til þess að auka glundroðann um þann prófstimpil, sem á unglingana yrði settur. Þess vegna ætti að koma því inn í frv., að námsgreinar yrðu allar þær sömu og í bóknámsdeild gagnfræðaskólanna nú. — Því verður ekki neitað, að með þessu frv. er að því stefnt að sníða kennslunni miklu þrengri stakk, þ. e. með því að hafa þetta tveggja ára nám í stað þriggja, og hlyti það að ganga út yfir andlegt og lífrænt eðli kennslunnar. Ég get ekki annað séð.

Ég skal ekki á þessu stigi málsins hafa fleiri orð um þetta frv., þar sem þetta er 1. umr., en vildi þó þegar láta koma fram, að ég mun ekki. sjá mér fært að fylgja frv.