23.02.1951
Efri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í C-deild Alþingistíðinda. (3591)

165. mál, menntaskólar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Af því að ég er nú nágranni menntaskólans á Akureyri, þá tel ég mér skylt að gera lítils háttar grein fyrir því, hvers vegna þetta frv. er fram komið, og þá er það fyrst og fremst, að það er fram komið vegna þess, að fólkið í nágrenni skólans hefur óskað eftir því, að skólinn starfaði áfram í því formi, að nemendur hefðu aðstöðu til þess að ljúka hinu svonefnda gagnfræðaprófi eða landsprófi. Sýslunefndir allt frá Norður-Þingeyjarsýslu og til Vestur-Húnavatnssýslu hafa allar á sínum tíma óskað eftir því, að þessi undanþága fyrir menntaskólann á Akureyri væri veitt. Fjórðungsþing Norðlendingafjórðungs, sem haldið var í sumar sem leið, óskaði eindregið eftir því, að gagnfræðadeild menntaskólans á Akureyri fengi að starfa áfram. Og hvers vegna? Vegna þess að fólki, sem þarf að senda unglinga til Akureyrar til náms og þá sérstaklega þá, sem hugsa sér að fara langskólaveginn, þykir það, mikill fjárhagslegur ávinningur að geta fengið heimavistarpláss fyrir þá unglinga á Akureyri, en það er ekki hægt við gagnfræðaskólann á Akureyri, heldur aðeins við menntaskólann. Nú má segja, að í sumum þessum héruðum séu gagnfræðaskólar, en þá kemur líka til greina, sem hv. 6. landsk. var að tala um, að nemendur, sem eiga að fara áfram langskólaveginn, þykja fá betri aðstöðu til sinnar skólagöngu með því að byrja hana í gagnfræðadeild við menntaskóla. Hann benti á, að með þessu væri skapaður glundroði í gagnfræðaprófum. Ég er nú ekki eins kunnugur skólamálum og hann, get ekki talað um þetta af svipaðri reynslu, en hins vegar er ég þá heldur ekkert háður því, sem hætt er við, að gagnfræðaskólastjórar séu, þ. e. að vilja halda nemendum að sínum skólum. En ég verð að segja, að ég ber ekki svo djúpa virðingu fyrir þeim skorðum, sem námið hefur verið sett í með hinni nýju löggjöf, og get ekki látið það hafa áhrif á mig, þegar ég tek afstöðu til þessa frv., sem fyrir liggur, því að ég finn, að því fylgir svo mikið hagræði fyrir þá, sem næst standa þessum skóla og geta notið hans. (HV: En skapar það þá ekki óhagræði fyrir hina, sem fjær búa?) Ég hugsa, að þeir fari í þennan skóla, sem eru ráðnir í að halda áfram og eru líklegir til að geta lokið námi á tveimur árum. Það eru nemendur, sem hafa sýnt á fyrra stigi námsins, að þeir eru hæfir til þess að leggja fyrir sig skólagöngu og geta náð markinu á þessum tveimur árum. Og eins og frv. er nú, er ekki hætt við því, að sérstaða þessa bæjarfélags, þar sem skólinn er, hafi svo mikið að segja, t. d. á Akureyri, því að í þessu tilfelli eiga utanbæjarmenn að sitja fyrir.

Skólinn á Akureyri hefur þá aðstöðu, að hann hefur yfir heimavist að ráða og getur þess vegna boðið upp á það að taka við fólki í þessa deild. En mér fyndist ekki til bóta að fara fram á sömu réttindi fyrir menntaskólann í Rvík, því að hann hefur ekki upp á slíkt að bjóða, og mér þykir satt að segja ólíklegt, að hann færi að nota sér þessi réttindi, þó að einhverjir menn, sem hafa metnað fyrir hans hönd, vilji jafnhliða láta réttindin ná til hans. Ég tel, að í þessu máli eigi mjög mikið tillit að taka til þeirra óska, sem fram hafa komið frá þeim, sem næst standa menntaskólanum á Akureyri, og eins og ég gat um í upphafi máls míns, eru þær óskir mjög eindregnar frá Norðurlandi. Undanþágan er nú aðeins miðuð við takmarkaðan tíma, og ég held nú, að af því að fyrirkomulagið hefur reynzt vel og hins vegar er enginn vafi á, að löggjöfin verður endurskoðuð innan skamms, þessi stóra löggjöf, — þá held ég, að sé rétt að leyfa þessu fyrirkomulagi að haldast, sem frv. gerir ráð fyrir, og gera þá ráð fyrir því, að sú endurskoðun, sem vafalaust kemur mjög fljótt, kryfji málið til mergjar.

Í grg. fyrir frv. er gerð rækileg grein fyrir því, hvaða skilyrði skólinn hefur til að taka á móti fólki, og sýnt fram á, að það er réttmætt, að skólinn fái að viðhalda þarna tveggja vetra deild þeim til mikils hagræðis, sem þurfa að kosta nemendur. — Ég vænti þess, að þótt þetta mál sé gallað, ekki frekar en önnur mál svo gott, að engir gallar séu á því, sjái þó þessi hv. d. að öllu athuguðu, að þarna er sæmilegt mál á ferð og hefur meira til síns ágætis en til galla.