05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í C-deild Alþingistíðinda. (3596)

165. mál, menntaskólar

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Mál það, sem hér liggur fyrir, er komið hingað frá hv. Nd. Það var nokkuð rætt við 1. umr., og vísað síðan til menntmn. þessarar hv. deildar. Nefndin átti þó nokkra fundi um málið, og á fundi hennar mættu fræðslumálastjóri, rektor menntaskólans í Reykjavík og einnig stjórn landssamlands framhaldsskólakennara. Frv. var rætt við þessa aðila og síðan í nefndinni, en hún gat ekki orðið sammála um það, og hér liggur fyrir nál. minni hl. nefndarinnar. Meiri hl. leggur til, að frv. verði fellt, en minni hl. leggur til, að það verði samþ., eins og nál. á þskj. 768 ber með sér. Þar sem ég hafði ekki ætlað mér að hafa framsögu fyrir minni hl. n. og því ekki búið mig undir það, ætla ég ekki að fjölyrða um það. Þar sem þetta er aðeins heimild fyrir ríkisstj., sjáum við í minni hl. n. ekki ástæðu til að neita menntaskólanum á Akureyri um þetta né menntaskólanum í Reykjavík, sem komst inn í málið við meðferð þess í Nd. Eins og segir í nál. minni hl., þá treystir hann því, að ríkisstj. láti athuga þetta sem rækilegast, áður en til framkvæmda kemur, einkum hvern kostnað slíkt fyrirkomulag hafi í för með sér, en það kom m. a. fram við 1. umr., að þetta mundi hafa í för með sér aukinn kennslukostnað. Sömuleiðis hefur það komið fram í umræðunum, að það væri ekki heppilegt frá heilbrigðislegu sjónarmiði að hafa þessar deildir saman, en þetta tókum við fram í nál., að við viljum, að ríkisstj. láti athuga þetta hvort tveggja, áður en heimildin verður veitt.