06.03.1951
Efri deild: 85. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í C-deild Alþingistíðinda. (3600)

165. mál, menntaskólar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. minni hl. menntmn. fyrir sanngjarna og skynsamlega afstöðu í þessu máli. Því miður get ég hins vegar ekki þakkað hv. meiri hl. fyrir hið sama. Ég hef hér í höndum nál. hans, er, því miður ekki búinn að kynna mér það nógu rækilega í öllum atriðum, en sem betur fer er það samt ekki mjög stórt. Að vísu hefur lengi verið beðið eftir fæðingu þess og búizt við því, eins og var um Völsung forðum, að það mundi sjá dagsins ljós miklu fyrr, enda hefur nú þessi síðgotungur þegar nokkurn skeggvöxt, og eru þar meira að segja sum hárin frá árinu 1945, er milliþn. í skólamálum sat á rökstólum. Það eru spásagnir hennar frá þeim tíma, sem þarna koma fram, en hins vegar er ekki stafur um þá reynslu, sem fengizt hefur af miðskóladeild menntaskólans á Akureyri. En það er aðalatriðið í þessu máli, sem ekki fjallar um breytingu á hinni nýju skólalöggjöf, heldur um framlengingu á ákvæðum, sem gilt hafa um menntaskólann á Akureyri.

Það er rétt, að frv. er ekki lengur eins og það var lagt fram í upphafi, þar sem inn í það hefur verið fleygað ákvæði varðandi menntaskólann í Rvík, — ekki að því er ég held samkvæmt óskum þess skóla, heldur í þeirri trú, að þetta yrði banabiti frv. Það mæla ekki sömu rök með því, að ný miðskóladeild verði sett á stofn við menntaskólann í Reykjavík, og því, að menntaskólinn á Akureyri fái að halda áfram þeirri deild, sem þar hefur starfað. Og ég ber það traust til menntmrh., hver sem hann kann að verða, er þar að kemur, að hann kunni að greina þarna á milli, og láti ekki þennan banabita frv., er vera skyldi, koma að sök við framkvæmd þessarar heimildar, ef að lögum verður.

Hv. frsm. meiri hl. lagði áherzlu á það, að í raun og veru væri þetta ákvæði í ósamræmi við aðalákvæði l. Það getur hins vegar ekki orðið þessu frv. að fótakefli, þar sem líta má svo á, að með því að stytta miðskólanámið við menntaskólann á Akureyri um eitt ár frá því, sem annars staðar er, sé aðeins um undanþágu að ræða. — Þá sagði hv. frsm., að hann hefði ekki séð húsnæði menntaskólans á Akureyri, en fullyrti þó, að það væri svo takmarkað og lélegt, að það mundi ekki rúma nemendur í framtíðinni. Hins vegar fullyrðir skólastjóri menntaskólans á Akureyri og kennarar skólans, að húsrými muni verða nægilegt fyrir þá nemendur, sem líklegt er, að sæki skólann, þegar búið er að gera nothæfa hina nýju heimavist fyrir 10 manns og taka má pláss heimavistarinnar í gamla skólahúsinu til kennslu. Og ég vil taka meira mark á því, sem þessir menn segja, er undir þessum skilyrðum eiga að vinna, heldur en máli þeirra, sem aldrei hafa komið á þennan stað.

Hv. frsm. meiri hl. undirstrikaði það atriði úr álitsskjali milliþn. frá 1949, að umrædd breyting sé varhugaverð og geti orðið örlagarík. Þetta var sem sagt ritað 1949. En ég vil nú spyrja: Getur hv. frsm. sýnt fram á, að þetta hafi valdið illum örlögum? Við nágrannar menntaskólans á Akureyri vitum a. m. k. ekki annað en hann hafi unnið gott verk með miðskóladeildinni, og ég vildi heyra þá, sem ástæðu hefðu til að bera annað fram.

Frv. þetta virðist reka sig mjög á tvenns konar metnað, — annars vegar gagnfræðaskólakennaranna, sem telja, að með því að leyfa menntaskólanum á Akureyri að hafa miðskóladeild sé dregið frá þeirra skólum bezta fólkið, sem ella mundi stunda nám við gagnfræðaskólana og lyfta þeirra nemendahópum. Hins vegar er svo metnaður þeirra manna, sem stóðu að þeirri skólalöggjöf, sem við búum við nú og hafa eðlilega áhuga á því, að hún fái að sýna þá kosti, sem þeir vonuðust eftir, að hún fæli í sér. Ég get ekki séð sanngirni í því, að gagnfræðaskólakennarar skuli beita þessum metnaði gagnvart menntaskólanum á Akureyri. Ég get ekki heldur séð sanngirni í því, að þeir menn, sem stóðu á sínum tíma að núverandi skólalöggjöf, skuli beita sér gegn því, að þessi undanþága sé veitt, sem gefur þroskuðum og hæfileikamiklum nemendum tækifæri til að komast yfir það námsefni á tveim vetrum, sem, almennt er farið yfir á þrem. Ég get ekki séð annað en það gæti verið heppilegt að hafa eins konar hliðarstig í sambandi við þetta skólakerfi, sem hinir léttfættari nemendur gætu þá farið.

Það er ekki rétt að leggja jafnmikla áherzlu á það atriði, að með samþykkt þessa frv. væri verið að stofna til þess, að unglingum verði ofboðið við námið, eins og margir hafa gert, því að miðskóladeildin á Akureyri er fyrst og fremst hugsuð fyrir nemendur utan af landi, sem að koma, oftast nær eitthvað undirbúnir og eiga þá léttara með að fara það á tveim vetrum, sem aðrir fara á þrem. Ég get því ekki séð ástæðu fyrir höfunda þessarar löggjafar að leggja stein í götu þessa máls. Ef þeir væru í raun og veru trúaðir á það sjálfir, að þetta fyrirkomulag væri óheppilegt, þá held ég, að með þessari undanþágu ættu þeir að geta fengið sönnun á yfirburðum síns kerfis fram yfir kerfi andstæðinganna. Ég trúi ekki öðru en að neikvæður árangur framkvæmdar þessa máls mundi verða hin bezta sönnun fyrir réttmæti þeirra kerfis og kenninga. Ég fyrir mitt leyti er á þeirri skoðun, að þetta skólakerfi, sem við búum við, sé of mikið byggt upp sem vélasamstæða, sem steypi eins konar hnappasteypu á það fólk, sem í gegnum hana fer. Ég held því, að það væri heppilegt að veita menntaskóla Akureyrar þessa sérstöðu, til þess að hann gæti þá skorið úr því, hvort mín skoðun á þessum málum væri rétt eða skoðun andstæðinganna, og þeim ætti líka að vera þetta kærkomið tækifæri til að sanna ágæti síns kerfis.

Þá má minna á það, að þessi fskj., sem fylgja nál. meiri hl., eru ærið mörg, eða 7 talsins. Þau eru eins og vagnalest, sem hið litla nál. dregur. Þriðji vagninn í röðinni hefur inni að halda útreikning á því, hvað miðskóladeild í menntaskóla kosti miklu meira en sama deild í gagnfræðaskóla. Þessi útreikningur mun vera kominn frá fræðslumálaskrifstofunni, og vil ég ekki bera brigður á, að hann sé réttur, það sem hann nær. En ég held þó, að þar komi fram mjög takmörkuð sönnun fyrir því, að ríkinu muni verða svona miklu ódýrari kennslan í þrem bekkjum gagnfræðaskóla en í tveim bekkjum miðskóladeildar við menntaskóla Akureyrar. Ég bið hv. þdm. að taka eftir því, að ég tala alltaf um miðskóladeild við menntaskóla Akureyrar, en ekki við menntaskólann í Reykjavík, því að ég er á þeirri skoðun, að menntaskólinn í Reykjavík eigi ekki að fá þessi réttindi, og ég treysti því, að menntmrh., hver sem hann verður, komi í veg fyrir, að svo verði, enda vænti ég þess, að menntaskólinn í Reykjavík muni ekki óska eftir miðskóladeild, þar sem hann hefur líka engan húsakost til þess. En það, sem vantar í þennan útreikning, er það, að það sé sýnt, hversu mikinn hag ríkið hefur af því, að nemendur miðskóladeildarinnar þurfa ekki á framlagi skólans að halda nema í tvo vetur í stað þriggja í gagnfræðaskólunum. Og ég vil einnig benda á það, að það er líka fjárhagsmál, hvílíkur ávinningur það er fyrir foreldra nemendanna og þá sjálfa að fá aðstöðu til að dvelja í heimavistinni á Akureyri hjá því að þurfa að kosta sig t. d. í prívathúsi. Því flytur þessi vagn langt frá allan sannleikann í þessu atriði málsins.

Þá er það síðasti vagninn í lestinni, en það má segja, að hann sé fullur af herörvum. Hann flytur yfirlýsingu frá gagnfræðaskólakennurum í Reykjavík um það, að ef menntaskólarnir fari að taka að sér hlutverk gagnfræðaskólanna og menntaskólakennarar gangi þar til starfa með þau laun, sem þeir nú hafa og eru hærri en laun gagnfræðaskólakennara, þá muni þeir koma og gera kröfu til sömu launa og menntaskólakennarar. Mér þykir það fullauðvelt að skera upp svona herör í þessu landi, og ég verð að segja, að mér finnst þetta ekki fríð herdeild í þeim búningi, sem hún kemur fram í. Það er ekki hægt að leggja mikið upp úr því, þótt svona yfirlýsing komi fram sem fskj. með nál. Og mér finnst raunar, að hv. 6. landsk. ætti sem skólastjóri á Ísafirði svona hálfpartinn að banda höndum við þessu fskj., vegna þess að á Ísafirði er lærdómsdeild við gagnfræðaskólann og kennarar hennar sýna þann þegnskap að kenna fyrir sömu laun og kennarar við gagnfræðaskólann fá.

En hverjir eru það eiginlega, sem biðja um þá lagasetningu, sem hér er verið að ræða um? Jú, það eru kennarar við menntaskólann á Akureyri og það eru héruðin í kringum Akureyri. Sýslunefndir á Norðurlandi og sambandsfundur í fjórðungssambandi Norðlendinga hafa samþ. óskir um, að miðskóladeildin fengi að haldast áfram, og það eru óskir allra þm. Norðlendingafjórðungs, að einum undanteknum, að þessi heimild verði veitt. Ég get ekki hugsað, að það hv. fólk, sem stendur að meiri hl. hv. menntmn. í þessu máli, geti gert lítið úr því, þegar svona almennar óskir koma fram. Hv. 6. landsk. er einn þeirra manna, sem lagt hafa hvað mest upp úr því, að óskir fólksins yrðu teknar til greina. Hér eru það óskir fólksins annars vegar, en á móti þeim mælir einkametnaður gagnfræðaskólakennara og metnaður höfunda þeirrar löggjafar, sem hér er farið fram á undanþágu á. Ég vænti því, að það blandist engum hugur um, þegar borið er saman það lið, sem mælir í móti, og það, sem bíður, að það eru þeir, sem biðja, sem vita þörfina fyrir þessa undanþágu, því að á Norðurlandi eru margir þannig settir, að þeir verða að koma börnunum sínum að heiman til gagnfræðanáms og óska því, að þau gangi hratt í gegnum skólann, og það eru þessir menn, sem óska alveg sérstaklega eftir því, að miðskóladeildin fái að haldast við menntaskólann á Akureyri. Ég vænti þess því, að þessi hv. deild geti fallizt á að verða við þessum einlægu óskum fólksins.