06.11.1950
Efri deild: 15. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta mál. Það er eingöngu vegna þess, að hv. 4. þm. Reykv. (HG) bar fram til mín þá fsp., hvort ríkisstj. mundi efna til sjálfstæðrar rannsóknar út af þessu máli, ef till. væri felld eða henni vísað frá, að ég vil taka fram enn á ný, að ég álít, að þann hátt hefði átt að hafa á þessu máli, að þm., sem hlut eiga að máli, beittu sér fyrir því, að slík rannsókn væri hafin, sem öllum ber saman um að nauðsynleg sé. Ef málið er svo alvarlegt sem hér er haldið fram, þá hlýtur að vera vilji hjá öllum fulltrúum þessa landshluta, að málið verði tekið upp. Það er alger misskilningur hjá hv. 6. landsk., ef hann heldur, að fyrst þurfi að samþ. lagafrv. um, að slík rannsókn sé hafin. Það voru ekki nein brbl. gefin út um það, að rannsókn skyldi eiga sér stað út af harðindunum eða erfiðleikunum á Austurlandi. Þegar færð voru fyrir því nægileg rök við ríkisstj., að þar væri slíkt ástand, að rannsókn væri nauðsynleg, þá var efnt til þeirrar rannsóknar. Á sama veg skilst mér að ef fulltrúar þessa landshluta færa að því rök, að ástæða sé til rannsóknar, þá sé eðlilegt, að rannsókn verði látin fara fram. Um það get ég auðvitað ekki talað í nafni ríkisstj., heldur sjálfs mín. — Mér skilst, að það sé í raun og veru ósannað, að aflabrestur sé valdur að þeim örðugleikum, sem steðja nú að Vestfjörðum. Það getur verið, að þar sé of hátt kaup, að þar sé of lágt verð; það getur líka verið, eftir því sem hv. þm. sagði, að það sé tregða bankanna til þess að veita eðlileg lán, að þessi fyrirtæki, sem nú eiga bátana, séu orðin svo skuldug, að þau geti ekki haldið áfram sínum rekstri. Allt þetta getur komið til greina, ásamt ef til vill aflabresti nú fyrir Vestfjörðum. Hér er því um að ræða mál, sem er ákaflega margþætt og miklu flóknara en hv. 6. landsk. vill vera láta. Það er allt annars eðlis en votviðrin á Austurlandi og í nokkrum öðrum landshlutum í sumar, og það er auðséð, að hér þarf aðra meðferð, og ég hef bent á, hvaða meðferð á þessu máli sé eðlilegust, þ.e. að þm. þessa landshluta taki sig saman og snúi sér annaðhvort til ríkisstj. beint eða til Alþingis um það, að slík rannsókn sé hafin. Fyrr en rannsakað hefur verið, hverjar orsakirnar eru, þá er ljóst, að það er þýðingarlaust að vera að samþykkja fjárveitingu, vegna þess að enginn veit, til hvers fénu á að verja né heldur til hvers á að snúa sér, vegna þess að ef málið er svo einfalt, að það nægi einföld milliganga við banka eða lánsstofnanir, kann að vera, að það sé alveg óþarft að veita nokkurt fé. Ég vil ítreka það, að málið er a.m.k. ekki eins alvarlegt og hv. 6. landsk. lét í veðri vaka hérna um daginn, því að þá fullyrti hann, að það væri útilokað, að útgerð gæti átt sér stað að svo stöddu á Vestfjörðum, en nú játaði hann sjálfur, að útgerðin væri komin á stað frá nokkrum stöðum, án nokkurra sérstakra aðgerða, og mundu þessir bátar hafa aflað skaplega. Er þá ekki hugsanlegt, að úr þessu kunni að greiðast, ef togarinn fer á stað og lánsstofnanir sjá, að hér sé um sæmilegan afla að ræða, án þess að til sérstakra aðgerða þurfi að koma? Ég fullyrði hér ekki neitt, en tel það vera hugsanlegt.

Hv. 6. landsk. varpaði þeirri spurningu til mín, hvort ríkisstj. hefði ekki verið kunnugt um þetta allt fyrir mánuði síðan vegna bréfs, sem henni hefði borizt. Nú er það vitað, að um aflabrest á haustvertíðinni fyrir Vestfjörðum gat ekki neitt bréf skrifað í september sagt neitt. Þá var óreynt á allt þetta, enda var bréfið um allt annað, þess efnis, að ef ekki yrðu gerðar sérstakar ráðstafanir í dýrtíðarmálunum, þá mundu verkalýðsfélögin þar vestra beita sér fyrir kauphækkunum. Þetta var aðalefni bréfsins. Og ég tek nú undir það með hv. þm. Barð. og tel, að hann hafi rétt fyrir sér í því, að ef vandinn er ekki annar en sá að leysa þetta með því, að verkalýðsfélögin hækki kaupið, þá geta þau gert það. Hv. þm. veit sannarlega, að það væri það heimskulegasta, sem þau gætu gert, því að sé erfitt fyrir, þá mundi slíkt magnast að mun, enda er það álit sérfræðinga Alþýðusambands Íslands, að einhliða kauphækkun sé engin lausn á málunum, því miður. Ég undirstrika því, að bréfið var fyrst og fremst um þetta efni, sem verkalýðsfélögin hafa algerlega í sinni hendi samkvæmt landslögum, en þau gera ekki slíkt, því að það yrði þeim sjálfum til skaða, en ekki til gagns.