15.02.1951
Neðri deild: 69. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í C-deild Alþingistíðinda. (3611)

181. mál, hafnarframkvæmdir í Rifi

Flm. (Sigurður Ágústsson):

Það eru aðeins nokkur orð til að svara hv. þm. A-Sk. Ég hélt, að honum væri þetta mál, hafnarmál í Rifi, miklu kunnara en raun ber vitni, þar sem það hefur verið á döfinni tvö s. l. þing. Á fjárl. 1950 voru veittar 100 þús. kr. til hafnarframkvæmda í Rifi. Ríkisstj. lagði fram í sínu fjárlfrv. fyrir yfirstandandi ár til hafnarframkvæmda í Rifi 600 þús. kr.; í meðferð fjvn. var sú upphæð lækkuð í 500 þús. kr., og var það samþ. af Alþ. og ég held einnig af þessum hv. þm. Þá spurði hv. þm., eftir hvaða löggjöf eigi að fara um þessar framkvæmdir. Þetta er frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán til þessara framkvæmda. Ég skal viðurkenna, að það liggur enn í loftinu, hvernig þessi hafnargerð verður ákveðin með löggjöf, en ég þori að fullyrða, að það er vilji hæstv. ríkisstj. og hæstv. Alþ., að þessi hafnarframkvæmd komist á, og til þess að geta ekki einungis unnið fyrir það fé, sem þegar er búið að veita á fjárl., heldur einnig til, til þess að hafnargerðin komi að notum, þá er ríkisstj. heimilað með þessu frv. að taka lán til frekari framkvæmda. Að svo stöddu máli get ég ekki gefið hv. þm. frekari upplýsingar.