06.11.1950
Efri deild: 15. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Það hefur verið sagt, að misskilningur væri versti skilningurinn. Allir gera sig seka um slíkt að einhverju leyti, en ég hafði haldið, að hv. 4. þm. Reykv. væri venjulegast saklaus af því, en hann hefur nú gert sig sekan í því og það svo mjög, að óafsakanlegt má telja, en það má vera, að lífsskoðanamunur valdi þessum misskilningi. Ég lít svo á, að það, sem nú bagi þjóðina mest, sé, að hún komst á að lifa á annarlegu fé, en ekki af kostum landsins sjálfs. Slíkt hefur skapað ranga verkaskiptingu og hinn óeðlilega fólksflutning, sem hér hefur átt sér stað. Of margt fólk vill lifa af launum, en of fáir við framleiðsluna, og þó er það spursmál, hvort of fáir eru við útgerðina, því að sjávarútvegurinn er of ótryggur til að skapa farsælt og stöðugt fjárhagslíf. En það eru allt of fáir við landbúnaðinn, og þjóðin þarf að leggja allt kapp á að nema landið, og aðalatriðið er, að fólkið flýi ekki frá landbúnaðinum. Og þeir, sem fjármálunum stjórna, verða að gera sér ljóst, að í því er fjárhagslegt öryggi þjóðarinnar fólgið.

Ég sagði hér áður, að till. um hjálp til bænda væri ekki borin fram vegna þess, að bændur vantaði nú á líðandi stund brauð, en hún er samt sem áður réttmæt, því að það má ekki koma fyrir, að landbúnaðinn skorti brauð. Ef bændur þurfa að skera niður bústofn sinn og fara frá jörðum sínum, ef þá skortir brauð, þá hefur gerzt það hættulegasta, sem fyrir atvinnulíf okkar getur komið. Þarna þyrfti forsjón ríkisstj. að koma til, og hún gerði það. Mér skildist á hv. 6. landsk., að á Vestfjörðum skorti brauð, og hann sagði, að skjótra aðgerða væri þörf, ef ekki ætti illa að fara. En nú eru menn tryggðir gegn því að skorta brauð með því að snúa sér til framfærsluhéraðs síns, og ef það þrýtur; þá til ríkisstj. Í þessu fólst ekkert kuldalegt eða ljótt, þó að hv. þm. reyndi að túlka það svo. Það er ekki lengur litið á það sem neina hneisu, sem valdi álitsmissi, þó að menn þurfi að leita til sveitar.

Hv. 6. landsk. sagði, að ég hugsaði meira um að bjarga sauðfé og kúm heldur en fólki, en þetta sýnir, að hv. þm. skyggnist ekki nógu djúpt í málið, þar eð hann sér ekki, hvar atvinnulíf okkar er öruggast. Auðvitað verður að bjarga fólki fyrst, en það verður að gera allt, sem hægt er, til að bjarga einnig sauðfé og kúm og þar með öruggasta atvinnuveginum. Slíkt er ekkert annað en sjálfsögð ráðdeild.

Hv. 6. landsk. sagði að lokum, að aðalatriði till. sinnar væri, að rannsókn á atvinnuástandinu á Vestfjörðum færi fram, en það mætti fella niður fjárhæðina; aðalatriðið væri, að rannsókn færi fram, og þá væri sér fullnægt. En er honum þá ekki fullnægt með till. á þskj. 15 í Sþ.? Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að skipa 5 manna nefnd til þess að kynna sér atvinnuástand og atvinnuhorfur í kaupstöðum og kauptúnum og gera svo fljótt sem unnt er rökstuddar tillögur um ráðstafanir til atvinnuaukningar, þar sem þess er talin þörf.“ Gera svo fljótt sem unnt er. Hv. flm. er sem sé búinn að ganga inn á þá leið, sem meiri hluti n. benti á, því að hann taldi, að aðalatriðið væri, að rannsókn færi fram, og það er einmitt slíkt, sem felst í till. á þskj. 15. Hv. 4. þm. Reykv. spurði, hvort fjhn. hefði hugsað sér að taka upp till. um rannsókn á atvinnuástandi. En ég vil spyrja: Telur hann ekki till. sína fullnægjandi í þeim efnum? Og því er verið að hnýta aftan við þetta frv. efni úr annarri till., sem annar flutningsmannanna stendur að og hinn væntanlega fylgir?