19.02.1951
Neðri deild: 71. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í C-deild Alþingistíðinda. (3624)

183. mál, lax- og silungsveiði

Viðskmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Út af því, sem hv. þm. Mýr. sagði í sinni ræðu um, að hér væri svo mikil nauðsyn að friða fiskivötnin, til þess að þau yrðu ekki gersamlega eyðilögð að veiði, vil ég benda hv. þm. á það, að það er enn þá meiri nauðsyn á að breyta lögnum í Hvítá, til þess að bergvatnsárnar í Borgarfirðinum verði ekki eyðilagðar. Það vita allir, sem hafa fylgzt með þessum málum á siðari árum og sérstaklega síðustu tveimur árum, eftir að umræddur hæstaréttardómur gekk, að það leynir sér ekki, að veiðin í þessum ám fer mjög þverrandi. Og menn vita það líka, að það stafar að miklu leyti af því, að laxinn er tekinn áður en hann kemst upp í bergvatnsárnar. (PO: Hann er tekinn í bergvatnsánum líka.) Það er ekki ástæða til að segja, að ekki megi koma með þessa till. af því, að svo mikil nauðsyn sé á að friða fiskivötnin. Það er að vísu mikil þörf á að friða þau meir en nú er. En ég tel miklu meiri nauðsyn á að vernda árnar í Borgarfirðinum.