19.02.1951
Neðri deild: 71. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í C-deild Alþingistíðinda. (3626)

183. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Mér þykir nú lakara, að hvorugur hæstv. ráðh., sem hér hafa talað, er nú viðstaddur. Ég vildi leiðrétta misskilning eða þagga niður vanþekkingu, sem kom fram hjá þeim, a. m. k. um sum atriði, sem þeir hreyfðu hér, sérstaklega viðvíkjandi leiguveiðinni.

Út af því, sem hv. þm. A-Húnv. taldi, að vafasamt væri, að ákvæði þessa frv. tryggðu betur en lög nú gera rétt bænda, sem eiga veiðivötn, — og svipað kom fram hjá hæstv. ráðh., — vil ég segja það, að það er að vísu rétt, og það er ekki tilgangurinn með þessum lagaákvæðum að breyta neinu um það. En það er gert ráð fyrir því hér, að lögfest verði ákvæði um veiðivötn, sem enginn á sérstakan rétt á. Það er ákvæði í lögum um það, að þar sem þannig stendur á, þar hafi allir jafnan og fullan aðgang til þess að veiða þar eftirlits- og hindrunarlaust. Þetta er það atriði, sem tekið er til meðferðar í þessu frv. og þar gerð till. um breyt. á því, til þess að sjá um, að þau vötn, sem einhver skyldi uppgötva, að almenningur hefði aðgang að, verði ekki þurrausin að silungi á skömmum tíma. Og það er einkum það, sem vofir yfir veiðivötnunum, sem hafa verið rík að fiski frá upphafi vega, sem sé fiskivötnunum í Rangárvallasýslu. Það hefur fallið um það undirréttardómur, að þau væru almenningseign og að allir hefðu frjálsan aðgang að því að nytja þau. Og þessi dómur hefur orðið þess valdandi, að menn hafa gert út veiðiflokka með öllum hugsanlegum tækjum til þess að ausa fiski upp úr þessum vötnum. Og ef því fer fram, verða þau þurrausin og eyðilögð á skömmum tíma. Og ég ætla, að ákvæði þessa frv. nægi til að koma í veg fyrir þetta.

Um hitt vil ég taka undir með hv. þm. A-Húnv., að ef á að fara að gera meiri háttar breyt. á þessum lögum, tel ég sjálfsagt að láta undirbúa það fyrir næsta þing, og það þing getur þá gefið sér tóm til þess að athuga þau mál, þannig að einhver bót verði að breyt. En að fara að hlaupa til þess á síðustu dögum þingsins að lögfesta atriði, sem kollvarpa jafnvel eignarrétti margra manna, — og gera það með einu pennastriki — það álít ég ekki viðeigandi.

Ég vil leiðrétta það, sem kom fram hjá báðum hæstv. ráðh., sem töluðu í þessu máli hér, þar sem þeir héldu fram, að hæstaréttardómurinn, sem féll hér fyrir stuttu og minnzt hefur verið á, hafi gerbreytt aðstöðu manna til þess að veiða í ósum og leirum Borgarfjarðar. Dómurinn, sem vitnað hefur verið í, getur ekki hafa haft áhrif á fiskgengd um allan Borgarfjörð á þeim stutta tíma, sem liðinn er síðan hann var upp kveðinn, enda gerði dómurinn ekki annað en að staðfesta þá reglu, sem þarna hefur tíðkazt allan þann tíma, sem laxveiðilögin hafa verið í gildi. Þessar veiðiaðferðir og þessi skilningur á ákvæðum laganna befur verið þar efra allan þann tíma — a. m. k. tvo áratugi, og menn hafa allan þann tíma veitt þar á þennan hátt, sem hæstaréttardómurinn staðfesti, að mætti hafa við veiðarnar, þannig að dómurinn hefur enga breyt. haft í för með sér né hefur, frá því sem verið hefur. Það hefur verið litið svo á, að á leirum, þar sem á skiptir sér í ála, skyldi hver áll skoðast sem sérstök á með tilliti til ákvæða laganna, þannig að sömu ákvæði hafa verið látin gilda í honum eins og um sérstaka á væri að ræða, sömu takmörk um veiðitæki og veiðileyfi. Og þannig hefur verið leyfð veiði í Hvítá síðustu 20 árin, eða hér um bil allan tímann, sem laxveiðilögin hafa gilt. — Það hafa fallið tveir dómar um þessa veiði. Annar, sá fyrri, þrengdi töluvert rétt manna til veiða í ánum. En síðari dómurinn staðfesti þá venju, sem þarna hefur verið viðhöfð um veiði í Borgarfirði á undanförnum árum. Og það er hvorki meira né minna en þannig. að ef ákvæðum laganna væri breytt á þann hátt, sem hæstv. ráðh. minntist á og till. hefur komið fram um, þá mundu nokkrir veiðibændur neðarlega í Borgarfirði verða sviptir allri veiði, þannig að öll veiðiréttindi yrðu af þeim tekin á jörðum þeirra. Ég efast um, að slík löggjöf stæðist fyrir dómstólunum vegna ákvæða stjórnarskrárinnar um þetta atriði. Ég viðurkenni fúslega, að full ástæða er til að hafa löggjöfina þannig, að veiði, þarna eins og annars staðar, sé svo takmörkuð, að ekki stafi af henni stórkostleg hætta á eyðileggingu laxastofnsins vegna veiðanna. En ég tel nokkuð langt gengið, og vafasamt að svo langt sé hægt að ganga af Alþ., að kasta svo til höndunum að setja slíka löggjöf á, sem ég gat um og taka mundi veiði gersamlega af ýmsum bændum, og það með ekki meiri undirbúningi en hægt væri að viðhafa þá fáu daga, sem eftir eru af þessu þingi, löggjöf, sem hefði í för með sér, að fjöldi manna yrði sviptur þeim veiðirétti, sem þeir menn hafa haft áratugum saman og eigendur jarða þeirra öldum saman, þannig að þessir aðilar yrðu sviptir þessum rétti með einni lagagrein mjög athugunarlitið. Ég tel, að það veitti ekki af því að hafa ofurlitið lengri tíma til þess að athuga þetta mál, áður en slík löggjöf væri sett. — Það má vel vera, að eitthvað sé til í því, þó að ég haldi, að of mikið sé úr því gert, að laxinn gangi til þurrðar í ánum í Borgarfirði. Í fyrrasumar var t. d. lakari veiði í Borgarfirði en vanalega, en í hittiðfyrra var metveiði þar. Það eru nokkur áraskipti að því, hve veiðin er mikil þarna. Það kann að vera, að það sé farið að ganga á laxveiðina þar, þó að sannað telji ég það alls ekki. En þá er betra að athuga, hvort ekki er hægt að eyðileggja laxinn, þegar kemur upp eftir ánum í Borgarfirðinum, með ofveiði þar. Það ganga sögur um það, að stangaveiðin sé svo mikil ofarlega í Borgarfirðinum, að það sé verið að þurrka árnar þar með þeirri stangaveiði. Og það er ekki einhlítt að banna laxveiðina í Borgarfirðinum við sjóinn, ef henni er haldið eins skefjalaust áfram ofar í Borgarfirðinum og gert er í sumum uppsveitum Borgarfjarðar, að þar sé dregin upp hver einasta branda.

Ég held því, að ef þessi mál eru skoðuð ofan í kjölinn, þá verði að athuga fleira en það, hvernig bændur neðarlega í Borgarfirði leggja net sín í vötn eða sjó.