25.01.1951
Efri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í C-deild Alþingistíðinda. (3650)

30. mál, iðnaðarmálastjóri

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Þetta mál hefur nú legið lengi fyrir þessari hv. d., og er ástæðan fyrir því sú, að hv. frsm. minni hl. n. var veikur, og var því málið tekið af dagskrá og umr. frestað. Nú þegar loksins er hægt að hafa umr. um þetta mál, þá teldi ég æskilegt, ef hæstv. forseti vildi gera tilraun til þess, að hv. frsm. minni hl. væri hér við umr. Mér finnst það lágmarkskrafa til hv. þm., að þeir geri meira en hrista úr klaufunum einu sinni og fara svo.

Ég hefði nú að mörgu leyti getað fallizt á ýmsar þær brtt., sem komu frá hv. 4. landsk. þm., sem hann hefur borið fram á þskj. 307. En hv. þm. er vel kunnugt um það í sambandi við afgreiðslu málsins í n., að ég hef fallið frá fyllstu kröfum um afgreiðslu málsins til þess að reyna að fá meiri hl. fyrir frv. hér í d. Ég er að sjálfsögðu bundinn við þau loforð gagnvart meiri hl. n., sem fylgir mér að máli, og get því ekki fylgt þeim till., sem hér hafa komið fram frá hv. 4. landsk., þó ég að öðru leyti sé sammála hv. flm. um þær, eins og frv. ber með sér á þskj. 34. Ég mun því verða að greiða atkv. á móti þessum brtt., vegna þess að fylgi þess aðila, sem á sínum tíma skrifaði undir álit meiri hl. n. um frv., var bundið því skilyrði, að þessar breyt. á frv. yrðu samþ. Og þó hann sé ekki nú á þingi, þá skilst mér einnig, að það sé ósk þess manns, sem hefur tekið hans sæti hér á þingi, að því sé ekki raskað á neinn hátt. Ég skal þó leyfa mér að ræða nokkru nánar þessar brtt., fyrst í sambandi við a-lið 5. gr., um að á eftir orðinu „vinnuafli“ komi: gjaldeyri. — Ég tel það í raun og veru innifalið í a-lið 5. gr., tölul. 2, eins og það er í frv. Það er að vísu nánari skýring hér að taka upp orðið „gjaldeyri“, en samt sem áður felst það í gr. Það er þegar vitað, að a. m. k. hugur hv. þm. stendur til þess að reyna að gera verzlunina frjálsari en hún nú er, og það er sí og æ verið að vinna að þeim málum, þó að erfiðlega gangi. Og þá sé ég ekki beinlínis ástæðu til þess að setja þetta í frv., því þessum l. er ætlað að standa lengur en það ófremdarástand varir, sem nú er hér í landinu í sambandi við innflutningsmálin. — Um b-liðinn vildi ég mega lýsa því yfir, að ég get ekki á þessu stigi málsins verið samþykkur því, að þetta ákvæði verði tekið inn í frv., vegna þess að hér er um mjög mikilvægt atriði að ræða og yfirleitt erfitt að gefa um það fastar heildarreglur, hvort unnið skuli nótt og dag. Það er undir svo fjöldamörgu komið. Þetta er gert í hinum stærri iðjuverum, t. d. síldarverksmiðjum og venjulega í fiskimjölsverksmiðjum, vegna þess að það er meginskilyrði til þess, að hægt sé að láta slíkar verksmiðjur ganga, að þurfa ekki að stöðva reksturinn neinn tíma sólarhringsins. En þó veit ég dæmi þess, að það hefur ekki verið hægt að vinna úr hráefnum, sem annars hefði verið hægt að vinna úr í sambandi við fiskimjölsverksmiðju, vegna þess að það hefur ekki fengizt samkomulag við verkalýðsfélögin um að vinna fyrir hæfileg laun í vaktaskiptum, heldur hafa öll laun verið hækkuð við það sem svarar 75%, og framleiðslan hefur ekki þolað að greiða þau laun. Þegar talað er um að vinna allan sólarhringinn, þá er þess krafizt, að launin hækki í eftirvinnu um 50% og næturvinnu um 100%. Sé hins vegar unnið í vaktaskiptum, þá er þessu jafnað þannig, að dagvinnan verður dýrari en næturvinnan ódýrari. Þetta er hægt að gera, þegar vinnuaflið er lítill hluti af framleiðslukostnaði, en hins vegar ef vinnuaflið er verulegur hluti af framleiðslukostnaði, þá er það ekki hægt, því að þá gæti hlutfallið á milli vinnuafls annars vegar og þess fjár, sem bundið er í vélum í verksmiðjum, hins vegar, verið svo mismunandi á hverjum tíma, að það er í raun og veru ógerlegt að binda það fast í l. að hafa vaktaskipti í verksmiðjum. það er hins vegar hægt fyrir iðnaðarmálastjóra að aðstoða iðjuver um upplýsingar viðkomandi slíku og gera sínar till. um það, hvort hægt sé að koma þeim málum svo fyrir, að það geti verið hagkvæmara að hafa vaktaskipti. Því skal ekki neitað, að ef farið væri inn á þetta í stórum stíl í landinu, þá hlyti það að hækka stórkostlega launagreiðslur til verksmiðjufólks almennt og þar af leiðandi skapa fordæmi um það, hvernig aðrar atvinnugreinar verða að hækka launagreiðslur, þó þar sé aðeins unnið í dagvinnu. Auk þess er það vitað, að verkalýðsfélögin stefna að því ákveðið og hafa gert í mörg ár, að vinna ekki nema dagvinnu, svo mér finnst, að þetta mál sé ágreiningsmál vinnuveitenda og launþega og því sé ekki rétt að setja þetta ákvæði hér í þetta frv. Hitt skal ég viðurkenna, að það er mikill kostur að geta notað vinnuaflið allan sólarhringinn, ef það er hægt að koma því svo fyrir, að það geti verið til hagsældar fyrir fyrirtækið sjálft. En á því byggist, að hægt sé að reka fyrirtæki, að kostnaðurinn sé ekki meiri en tekjur. Ég get því ekki fallizt á neinn hátt á að taka þetta ákvæði inn í frv. — Um c-lið 5. gr. má segja, að í rann og veru felist í honum sama og í 2. tölul. 5. gr. og er háð nákvæmlega sama lögmáli og um gjaldeyris- og innflutningsmálin, og þarf ekki að ákveða það nánar í gr. Viðkomandi því að fella niður 8. tölul. í frv., eins og felst í brtt. á þskj. 307, þá vildi ég segja nokkur orð. 8. liður er um að gera till um sölu iðjuvera ríkisins, et hagkvæmara þykir, að þau séu starfrækt af öðrum aðilum. Nú vil ég benda þeim mönnum á, sem halda því fram, að hér sé um svo mikinn kostnað að ræða í sambandi við þetta nýja embætti, að ef það hefði verið fyrir hendi á þeim tíma, þegar fram fór annars vegar sala á skipasmiðju landssmiðjunnar og hins vegar kaup á trésmiðju ríkisins, þá hefði nýtur iðnaðarmálastjóri meðgóðri þekkingu og þannig góður embættismaður í þeirri grein getað komið í veg fyrir, að miklar upphæðir hefðu verið greiddar, sem ríkið hefur nú orðið að greiða fyrir glópsku í sambandi við þessi mál. Og þar er um miklu stærri upphæðir að ræða en þetta embætti mundi kosta í mörg ár. Í 9. tölul. 2. gr. í frv. til fjáraukal. fyrir árið 1947 er sett upp sem tap á sölu skipasmiðju landssmiðjunnar 2102707.89 kr. Það má nærri geta, hvort maður, sem hefði það á hendi sem ábyrgur embættismaður ríkisins og með fulla þekkingu á þessum málum, hefði látið sér detta í hug að leggja það til, að byggð væri slík smiðja eins og hér hefur verið gert og hún rekin þannig, að ríkissjóður hlaut af því rúmlega 2 millj. kr. tap á tveimur árum. Ég held, að það hefði varla verið hægt að finna þann glóp í þessum málum eða það ábyrgðarleysi hjá manni, sem í slíkt embætti hefði verið settur, að þetta hefði getað komið fyrir, ef maður eins og hér er gert ráð fyrir, þ. e. iðnaðarmálastjóri, hefði haft eftirlit með þessu. Þó ekkert væri nefnt nema þetta eina atriði, þá er það alveg nóg til þess að sýna það, að þetta frv. á fullan rétt á sér og hefði átt að vera búið að lögfesta það fyrir löngu. Ef hins vegar ekki er hægt að reka þetta með sæmilegum hagnaði, þá er ekki óeðlilegt, að slíkur embættismaður sem hér um ræðir hefði getað selt fyrirtækið á heppilegri hátt en hér hefur verið gert. Nú veit hv. 4. landsk. þm., að þessi mál voru öll undir stjórn hans ágæta flokksmanns, og skal ég ekki ásaka þann fyrrv. ráðh. fyrir það mál. En sjálfsagt hefur hann verið svo óheppinn að láta þetta mál í hendurnar á mönnum, sem höfðu ekki embættislega ábyrgð.

Nákvæmlega það sama var um byggingu síldarverksmiðjunnar á Skagaströnd. Sú framkvæmd var í höndum manna, sem ráðnir voru til þess að gera þetta, en höfðu engar embættislegar skyldur til þess að bera ábyrgð á, að þeirra hlutverk væri vel af hendi leyst, og gátu ekki haft nægilega þekkingu til þess að segja fyrir um þau atriði, sem þar komu til greina. Ég hef því aldrei tekið undir þá ásökun, sem komið hefur fram á þann hæstv. sjútvmrh., sem þá var, viðkomandi þeim málum. En ég vil benda á það, til þess að sýna fram á, að það fær ekki staðizt að halda, að sá kostnaður, sem yrði við að stofna þetta embætti, sé fé, sem kastað væri á glæ.

Hér er líka í frv. til fjáraukalaga sett fram sem tap á rekstri Trésmiðju ríkisins árið 1947, — en það er líklega fyrsta árið, sem unnið hefur verið í henni í heilt ár, — nærri 64 þús. kr. Ég geri ráð fyrir því, að ef slíkt iðnaðarmálastjóraembætti, sem hér um ræðir, hefði verið til, þá hefði ekki verið þotið til að kaupa það fyrirtæki, heldur hefði verið leitað fyrst eftir umsögn og till. frá slíkum embættismanni. Og ég er viss um, að það hefði verið mjög erfitt að finna nokkurn mann með þeirri þekkingu, sem gert er að skilyrði að iðnaðarmálastjóri þurfi að hafa til þess að verða settur í þetta embætti, og með þeirri ábyrgð, sem slíku embætti á að fylgja, — ég er alveg viss um, að það hefði verið mjög erfitt að finna nokkurn mann í landinu slíkan, til þess að samþykkja þá glópsku, sem þarna hefur verið gerð. En þessar tæpar 64 þús. kr. eru ekki nema lítið brot af því tapi, sem þetta fyrirtæki hefur bakað ríkissjóði, þar til Alþ. að lokum tók þann kost að gefa fyrirtækið til þess að tapa ekki meira á því.

Ég held, að þessar upplýsingar á þessum staðreyndum séu nægilegar til þess að sýna fram á tvennt, annars vegar, að það er miklu meira en tímabært að stofna til þessa embættis, sem hér er um rætt, og hins vegar, að það sé ekki ástæða til þess að fella þetta ákvæði niður, sem er í 8. tölul. í frv., því það er frá mínu sjónarmiði sjálfsagt fyrir viðkomandi aðila, sem hafa um þessi mál að segja, að takist ekki að koma því svo fyrir, að iðnaðarfyrirtæki ríkisins séu rekin þannig, að reksturinn sé álíka hagkvæmur og hjá öðrum, þá eigi þeir að gera till. um að selja þessi fyrirtæki, nema hægt sé að bæta úr rekstrarafkomu þeirra á einhvern hátt. Ég er því ekki sammála um að fella burtu þetta ákvæði. Hitt er annað atriði, að ef ekkert annað hefði verið til ágreinings um þetta mál en þessi eina grein, þá hefði ég getað fellt mig við, að þetta atriði yrði tekið út á þessu stigi málsins, því það væri alltaf hægt að koma því inn, eins og hv. 4. landsk. bendir á. En á þessu stigi málsins sé ég ekki ástæðu til þess að fella það úr frv., þar sem meiri hl. n. hefur ekki lagt það til.

Um aðrar brtt. við 7. gr. get ég verið fáorður. Ég er sammála hv. flm. till. um það, að það sé mjög æskilegt að láta þetta verkefni vera eitt af verkefnum iðnaðarmálastjóra. Hv. 4. landsk. er mjög kunnugt um það, að það að fella niður þá grein er gert til þess að reyna að fá frv. samþ. og gera kostnaðinn við embættið ekki eins mikinn, a. m. k. ekki í byrjun og ekki fyrr en séð er, hve mikið kemur á móti sem hagnaður af þessari lagasetningu. Það er hins vegar alltaf tímabært, þegar séð er, hvað kostnaðurinn við þetta embætti verður annars vegar, og hins vegar, hvaða gagn er af því fyrir þjóðina í landinu, að taka þetta aftur upp og auka verkefni iðnaðarmálastjórans. Ég mun því á þessu stigi málsins ekki treysta mér til þess að fylgja þeim brtt. Hins vegar leyfi ég mér að þakka hv. 4. landsk. þm. fyrir það, að hann vill þó, þr4tt fyrir það þó að hann fái ekki allar sínar óskir uppfylltar við afgreiðslu þessa máls, greiða atkv. með frv., alveg eins og ég verð að sætta mig við það, að felldar séu niður ýmsar af þeim hugmyndum, sem ég setti. fram í frv. og mér er ljóst, að er mikil skammsýni að feila úr þessu frv. En það er vegna þess, að í þessari hv. d. eiga nú ekki sæti nægilega margir menn, sem hafa svo mikla víðsýni að sjá, að það sé þjóðarhagur að samþ. frv. eins og það lá fyrir, og harma ég það, að svo er. En við því er ekkert að gera, því það hefur ekki fengizt samkomulag í iðnn. um að mæla með því, að frv. yrði samþ. óbreytt.

Ég vildi þá ræða nokkur orð við hv. frsm. minni hl. n. Þegar þetta mál var tekið hér til umr., þá var hv. fyrri þm. N-M. veikur og þá var framsaga í málinu af hálfu hv. 8. þm. Reykv. Og rökin, sem sá hv. þm. færði fyrir því, að n. hefði klofnað og lagt væri til að vísa frv. til hæstv. ríkisstj., voru allt önnur en kom fram hjá hv. frsm., og virðist nú ekki hafa verið rætt mikið um málið milli þeirra tvímenninga. Annars verð ég að segja, að þau rök, sem hv. 1. þm. N-M. færði hér fyrir sínu máli, hafa ekki heldur komið neitt til umr. í n., svo það eru fleiri en hv. 8. þm. Reykv., sem ekki vissu um þau. N. öll hefur ekki heyrt þessi rök fyrr en nú, enda er ekki minnzt á þessi rök í sjálfu nál. minni hl. Það er því meiri ástæða fyrir mig að fara nokkrum orðum um þetta mál. .

Hv. fyrri þm. N-M. hefur haft afskipti af þessu máli, að ég held alla tíð frá því það kom fyrst fyrir Alþ., og hann hefur sagt, að hann væri í raun og veru samþykkur efnislega þessu máli og að hann áliti, að iðnaðurinn ætti að fá sams konar aðstoð frá því opinbera eins og sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn. Þetta hafa verið hans orð og till. í málinu, en hann hefur hins vegar aldrei talið, að málið væri nægilega vel undirbúið. Hitt hefur hv. þm. stundum minnzt á, að frá hans sjónarmiði liti hann svo á, að þessi félagsskapur ætti að mótast á sama hátt og þar ætti að vera um sömu framþróun að ræða og hjá Búnaðarfélaginu og Fiskifélaginu, þ. e. að þeir menn, sem taka þátt í iðnaðinum, myndi með sér slíkan félagsskap og kjósi sér sjálfir iðnaðarmálastjóra. Eins og vitað er, þá er hvorki starf búnaðarmálastjóra né fiskimálastjóra embætti, sem samþ. hefur verið af Alþ. Það eru ekki nein l. um búnaðarmálastjóra, heldur er það ákvörðun búnaðarþingsins, að þeir skuli hafa búnaðarmálastjóra. Á hverju ári er varið miklu fé til búnaðarsambandanna, en það er vitað, að þetta borgar sig, því að það mun gefa miklu meira í auknum þjóðartekjum en sem þessu nemur. Ég tel ekki ástæðu til, að langt sé farið út í þessa stefnu, en ég tel það engan sóma að taka hálfa aðra milljón úr ríkiskassanum í þágu eins atvinnuvegar, en vera svo að óskapast út af þessu, og er það þó ekki sagt til þess að rægja starfsemi Búnaðarfélagsins. Ég teldi rétt, að bæði búnaðarmálastjóri og fiskimálastjóri væru fastir embættismenn ríkisins og óháðir þessum félögum. Og mér finnst það hart, að þessi aukna fjárveiting til iðnaðarins skuli talin eftir af manni, sem fær 150 þús. til þess að kalla saman búnaðarþing einu sinni á ári. En þessum 150 þús. sér enginn maður eftir, þó að þetta þing hafi aðeins tillöguréttindi. En þessi sami maður getur ekki hugsað sér að verja nokkru til iðnaðarins. Það sama má segja um Fiskifélagið, þar er varið öðrum 150 þús. til þess að menn geti komið saman til að gera tillögur til úrbóta. Og þeir menn, sem standa að þessum félögum, geta ekki með nokkrum rétti staðið á móti því, að varið sé 200 þús. til stofnunar embættis iðnaðarmálastjóra. Og ég verð að segja það, að ég tel betur varið þessum 200 þús. kr. að spara þær við búnaðarþing og láta þær til stofnunar embættis iðnaðarmálastjóra en að neita iðnaðinum um þetta fjárframlag.

En þessa leið þarf ekki að fara, því að ríkið fær miklu meiri tekjur af þessu embætti heldur en því nemur, sem það kostar, alveg á sama hátt og ríkissjóður fær miklu meiri tekjur af landbúnaðinum en kostnaðurinn við búnaðarþing er, því að í þeim kostnaði er reiknaður kostnaður af ráðunautum, en iðnaðarmálastjóri verður ráðunautur ríkisstj. í iðnaðarmálum. Þess vegna verð ég að játa það, að ég hef aldrei skilið afstöðu þeirra manna, sem á móti stofnun þessa embættis eru, fyrr en ég heyrði ræðu hv. 1. þm. N-M. Hann sagði fyrst, að n. hefði klofnað um frv. og að till. meiri hl. hefðu aldrei verið bornar undir minni hl. Það er rétt að nokkru leyti, en hv. minni hl. hafði engar till. í þessu máli aðrar en þær að vísa málinu til ríkisstj. Og mér finnst, að þau rök hv. 8. þm. Reykv. hafi við heldur lítið að styðjast að segja, að atvmrh. væri því mótfallinn, að þetta frv. næði fram að ganga. En þetta væru þó rök, en hitt væru engin rök, að segja, að till. meiri hl. hefðu ekki verið ræddar í n. Það var margrætt um þetta mál, og því eru þetta engin rök hjá hv. 1. þm. N-M. Ég veit varla, hvað það getur verið, sem ræður afstöðu hans í þessu máli. Hann sagðist vilja leiðrétta þann stóra misskilning, að iðnaðurinn væri einhvers konar hornreka í þessu landi, þ. e., að iðnaðurinn fái ekki sömu aðstoð og sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn. Og fyrir þessu færði hann þau rök, að iðnaðurinn væri styrktur með verndartollum, og hann sagði, að kaupendur húsanna hefðu orðið að borga 7 þús. af hverju húsi, sem flutt var inn. Heldur hv. þm., að það hafi verið til iðnaðarins, þó að ríkissjóður hafi svikizt um að endurgreiða þetta? Ég veit varla, hvað hv. þm. meinar með öðrum eins málflutningi og þessum. Hins vegar fékk iðnaðurinn ekki þessar 7 þús. kr. Hann fékk þær ekki frekar en hv. þm. Það var ríkissjóður, sem fékk þennan toll. Og hvað kemur svo þetta iðnaðinum við? Ég skil ekki svona röksemdafærslu. En þó að þetta hafi runnið þannig í ríkissjóð, þá á ekki að láta það bitna á þessu frv. né láta það koma niður á alsaklausri stétt manna í landinu. — Hann minntist einnig á það, að iðnaðinn vantaði hina leiðandi hönd eins og landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn hefðu. M. ö. o., hann vantar iðnaðarmálastjóra á sama hátt og landbúnaðurinn hefur búnaðarmálastjóra. Þess vegna vil ég fá hann til að fylgja mér í þessu máli, að þessi þriðji atvinnuvegur landsins fái hina leiðandi hönd. Ef hv. þm. hefur átt við með þessu, að þennan atvinnuveg vantaði um sig einhvern félagsskap, þá held ég, að það sé til bóta.

Hv. þm. sagði, að með því að rækta jörðina væri ekki aðeins verið að vinna fyrir líðandi stund, heldur einnig verið að skapa gæði fyrir komandi kynslóðir. Ég skal ekki deila við hann um þetta atriði. Það er rétt, að þeir, sem jörðina rækta, eru að skapa verðmæti handa fleirum en sér einum. En þó að ræktað sé, þá dugir sú ræktun ekki handa öllum eftirlifandi kynslóðum. Og það veit hv. þm., að ríkissjóður hefur greitt jarðabótastyrk á sama blettinn oftar en einu sinni. Svo að þetta eru engin veigamikil rök fyrir því, að ekki eigi að veita fé til þessa atvinnuvegar. Og það er engin ásökun á hendur landbúnaðinum, þó að það þurfi að rækta nú það land, sem brotið var fyrir hálfri öld, að maður tali nú ekki um það 1and, sem ræktað var í vor og búið er að selja þökurnar af. — Og það sama er að segja um kynbætur búfjár, þær, sem gerðar eru í dag, standa ekki til allrar eilífðar, ekki sízt, ef einhver sjúkdómur fylgir nú í kjölfar kynbótanna. Ég vildi nú aðeins benda á, að í þessu er ekki falin nein ásökun á hendur landbúnaðinum.

Svo segir hv. þm., að landbúnaðurinn geti ekki notazt við reynslu annarra þjóða. Ég held, að landbúnaðurinn íslenzki hafi orðið að nota reynslu Dana í þessum efnum, þó að þeir hafi orðið að taka tillit til staðhátta. Og hv. þm. veit, að vísindamaðurinn Löve, þó að í annarri grein sé, og Björn Jóhannesson hafa báðir hlotið sína menntun annars staðar en hér, og hefur þó, held ég, hv. þm. talið þeirra reynslu nýtilega fyrir íslenzkan landbúnað.

Svo segir hv. þm., að það sé allt annað með sjávarútveginn, því að þar sé reynt að drepa sem mest, og þegar hann sé styrktur, þá sé það til þess að drepa meira. Það er hart, að hv. þm. skuli taka sér þessi orð í munn um þann atvinnuveg, sem hefur byggt upp allt atvinnulíf í landinu. Því að það má hann vita, að öðruvísi væri umhorfs í sveitum landsins nú, ef sjávarútvegurinn hefði ekki verið þeim til styrktar. Og hv. þm. veit, að það er ekki síður varið fé til þess að kynnast göngu fiska og hrygningarsvæðum og til að reyna að auka fiskigengdina heldur en til þess að drepa hann niður. Ég held því, að þessi samlíking hv. þm. fái ekki staðizt, og því síður er hún sambærileg hvað iðnaðinum viðkemur. Við getum að vísu notað sömu vélar og þeir í Ameríku og fengið upplýsingar um þær þar. En við getum líka fengið upplýsingar um landbúnað þar, og er þó talið nauðsynlegt að hafa sérstaka ráðunauta í þeim efnum hér. Og ég vil benda hv. þm. á, að hæstv. fjmrh., flokksbróðir hans, hefur talið nauðsynlegt að verja fé til athugunar á möguleikum til þaravinnslu hér, þó að þessar stofnanir séu til í Ameríku. Ég verð að segja það, að hann er á annarri skoðun en hv. þm. Einnig vil ég benda á, að mjög er athugandi, hvort ekki væri rétt að koma upp saltvinnslu í Krýsuvík, þar sem þúsundir hestafla blása út í loftið, og mætti sú saltvinnsla sjá fyrir þörfum okkar og gæti jafnvel framleitt útflutningsverðmæti.

Það má vel vera, að einhverjar upplýsingar megi fá um þetta í Ameríku, en það mælir ekki gegn nauðsyn þess að koma upp íslenzkum ráðunaut í þessum efnum. Og það er áreiðanlegt, að aldrei verður afkoma landsmanna örugg, fyrr en þeir hafa þennan þriðja atvinnuveg til að styðjast við, en ekki aðeins tvo stopula atvinnuvegi, sem þó geta ekki án iðnaðar í einhverri mynd verið. Það á að tengja þessa þrjá atvinnuvegi svo saman, að þeir geti borgið þjóðinni í hvaða árferði sem er.

Hv. þm. segir, að búið sé að slíta úr frv. þau ákvæði, sem mest stríði á móti stefnu Sjálfstfl. Ég verð að segja, að ég á erfitt með að skilja þetta. Ég held, að hv. þm. eigi við eitthvert annað mál. T. d. við 2. gr., að framleiðsluráð falli niður. Ég sé ekki, hvernig það hefur strítt á móti stefnu Sjálfstfl. Það er einungis gert til sparnaðar, og hingað til hefur flokkur hv. þm. ekki verið á móti sparnaði. — Nú og um 3. gr., að hún falli niður. Það er bein afleiðing af breytingunni á 2. gr. Og við 5. gr., að draga úr rannsóknum, þá er gert ráð fyrir, að það verði dregið úr kostnaði við ýmsar aðrar stofnanir í landinu.

Hv. frsm. minni hl. talar um það, að frv. stríði á móti stefnu Sjálfstfl. Ég verð að segja það, að það væri virðulegra fyrir þennan hv. þm. að éta ofan í sig öll stóryrðin og rakaleysurnar, — úr því að hann þurfti endilega að tala hér og gat ekki látið sér nægja þau orð, sem hv. 8. þm. Reykv. lét falla hér. Málflutningur þessa hv. þm. getur naumast talizt boðlegur hér á Alþingi. Hann leggur til, að málinu verði vísað frá, og fyrir því ber hann þau rök, að iðnaðurinn njóti nú svo mikilla styrkja, að hann eigi ekki meira skilið, og í hinu orðinu segir hann, að iðnaðurinn standi mjög höllum fæti í þjóðfélaginu. Væri nú ekki eitthvað rökréttara að samþykkja þetta frv. óbreytt til þess að reyna að rétta iðnaðinn við og koma honum á réttan kjöl, — eða að skapa iðnaðinum svo sterka hönd, eins og hv. þm. viðurkenndi, að hann vantaði, svo hann geti staðizt samkeppni við erlendan iðnað? Væri þetta sjónarmið þingmönnum ekki frekar til sóma — heldur en að láta iðnaðinn vera í því ræktarleysi, sem hann hefur hingað til verið í? Iðnaðurinn eins og hann er nú er okkur ekki boðlegur, og hann vantar hina leiðandi hönd, sem mundi hjálpa til að gera framleiðsluvörur okkar, landbúnaðar- og sjávarafurðir, boðlegar til útflutnings. Væri nú ekki rökréttara af þessum hv. 1. þm. N-M. að biðja þingið um samþykkt þessa frv. til þess að leiða iðnaðinn út úr þessum ógöngum, sem hann nú er í? Þetta fyndist mér eðlilegast, að hv. þm. gerði, eftir að hafa heyrt lýsingar hans á iðnaðarmálum nú, — og ekkert annað gæti talizt sæmilegt af honum — eða að öðrum kosti verður að álíta, að rök hans um iðnaðinn séu ekki rétt.

Ég sé þá ekki ástæðu til að ræða þetta nánar, og reyndar hef ég haldið lengri ræðu en ég hefði viljað, og er það vegna ræðu og ummæla hv. frsm. minni hl. iðnn.