25.01.1951
Efri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í C-deild Alþingistíðinda. (3652)

30. mál, iðnaðarmálastjóri

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Vegna þess að það kom fram hjá hv. frsm. minni hl. n., að það væri ein ástæðan fyrir því, að hann vildi ekki fylgja þessu máli, að hver einasta grein í framleiðslu okkar iðnaðar væri svo dýr, að hægt væri að kaupa iðnaðarvörurnar ódýrari frá útlöndum, — þá vil ég spyrja: Vill hann setja slíkan mælikvarða á landbúnaðarafurðir og hafa sömu afstöðu eins og í þessu máli gagnvart styrk til landbúnaðarins, vegna þess að svo að segja hverja einustu vöru landbúnaðarins væri hægt að fá ódýrari frá útlöndum en með því að framleiða hana í landinu? — Ég held, að þessi mælikvarði verði ekki lagður á málið.

Sami hv. þm. sagði að síðustu, að hann væri aðallega á móti þessu frv. vegna þess, að sett hefði verið upp alþjóðastofnun, sem ætti að leiðbeina í þessum efnum, og batt þessi hv. þm. andúð sína gegn frv. við það. En reynslan hefur sýnt á þessu síðasta ári, að sú aðstoð, sem Íslendingar hafa fengið frá þessari stofnun, hefur kostað margfalt meira fé en sem nemur því, sem hér er um að ræða, að það kosti, sem frv. þetta er um. Og ég fullyrði, að ef iðnaðarmálastjóri væri til hér, til þess að taka að sér þau störf, sem hv. þm. talaði um, viðkomandi iðnaðarframleiðslu, sem hann mundi gera, þá mundi leiðbeiningarstarfsemi á vegum Sameinuðu þjóðanna gagna þjóðinni miklu betur vegna þess, að hann yrði um leið að taka tillit til íslenzkra staðhátta.