05.03.1951
Neðri deild: 82. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í C-deild Alþingistíðinda. (3666)

30. mál, iðnaðarmálastjóri

Emil Jónsson:

Herra forseti. Mér láðist að geta þess, þegar ég mælti fyrir brtt. meiri hl. iðnn., að mér hefur verið bent á, að það mundi vera réttara, í samræmi við þær brtt., sem meiri hl. n. flytur við frv., að flytja um leið brtt. við fyrirsögn frv. Það var breytt fyrirsögn frv. í hv. Ed., þegar framleiðsluráðsákvæðin voru felld úr frv. Það hét upphaflega „frv. til laga um iðnaðarmálastjóra og framleiðsluráð“, en heitir nú aðeins frv. til l. um iðnaðarmálastjóra. En ef ákvæðin um framleiðsluráð verða tekin upp í frv., er eðlilegt, að það komi fram í fyrirsögn frv. Ég vil leyfa mér að bera fram brtt. við fyrirsögn frv., um að fyrirsögnin orðist svo: „Frumvarp til laga um iðnaðarmálastjóra og framleiðsluráð iðnaðarins“, sem ég vona, að hæstv. forseti taki til greina.

Út af ræðu hv. þm. V-Húnv. þarf ég ekki mikið að segja. Hann leggur höfuðáherzlu á, að starfi búnaðarmálastjóra og starfi fiskimálastjóra sé ekki skipað með lögum, og þess vegna sé óeðlilegt, að iðnaðarmálastjórastarfið verði lögfest á þennan hátt sem hér er lagt til, að gert verði. — Ég sé út af fyrir sig ekkert við það að athuga, þó að starfi iðnaðarmálastjórans sé öðruvísi skipað eða að öðruvísi ákvæði séu um það en starf hinna tveggja. Það er frá mínu sjónarmiði ekki nauðsynlegt, að það þurfi að vera sama afgreiðsla á því. Það geta verið þær ástæður fyrir hendi, að það sé eðlilegt, að starfinu sé skipað öðruvísi, og þá með lögum. Og það er einmitt það, sem er. Því að eins og hv. þm. V-Húnv. réttilega tók fram, þá eru samtök iðnaðarmanna í þessu landi miklu yngri og skemmra á veg komin en samtök hinna atvinnuveganna, sem hér hefur verið um rætt. Í Landssambandinu eru t. d. ekki nærri allir iðnaðarmenn í landinu, í því eru nokkuð mörg félög, en þó ekki nærri öll, og alveg er það eins í Félagi íslenzkra iðnrekenda, þar eru ekki nærri því allir eigendur verksmiðja eða þeir, sem stunda verksmiðjuiðnað í landinu, svo að þau félög geta ekki komið fram neitt svipað því og fulltrúar hinna starfsgreinanna geta gert. Hins vegar er í frv. ákvæði, sem, með leyfi hæstv. forseta, hljóðar svo: „Nú sameinast landssamtök handiðnaðarmanna og iðnrekenda, eða hefja samstarf með þeim hætti, að þau stofni til sameiginlegs iðnaðarþings á svipuðum félagslegum grundvelli og með tilsvarandi hlutverki á sviði iðnaðarmála og búnaðarþing og fiskiþing hafa nú í sínum greinum, og fellur þá niður réttur ráðherra til að skipa framleiðsluráð, en iðnaðarþing kýs allt ráðið. Á sama hátt ræður þá nýkosið framleiðsluráð iðnaðarmálastjóra, en hann starfsfólk sitt í samráði við framleiðsluráð.“ Þetta tekur af öll tvímæli um það, að ef samtök iðnaðarmanna sjá sér fært að fara inn á þessa braut, sem við hv. þm. V-Húnv. erum sammála um að væri æskilegust, þá er ekkert til fyrirstöðu, að það sé gert, og þetta bráðabirgðaákvæði gerir ráð fyrir því, að inn á þessa braut verði þá farið. Það, sem ég óttast, ef þetta verður ekki að l., það er, að l. verði tafin svo að þau komi ekki til framkvæmda. Það hefur nú á vegum Landssambands iðnaðarmanna starfað skrifstofa og verið þar framkvæmdastjóri, sem hefur kannske ekki haft öll störf iðnaðarmálastjóra með höndum, en að verulegum hluta, en til þessarar starfsemi gengur illa að fá þann styrk, sem óskað hefur verið eftir, af hálfu ríkisvaldsins. Sömuleiðis hefur á vegum Félags íslenzkra iðnrekenda starfað framkvæmdastjóri og skrifstofa, sem hefur haft svipuð störf með höndum fyrir þann atvinnuveg, en ég veit ekki til, að hann fái styrk af því opinbera. Fyrir bragðið verður starfið hjá þessum mönnum í molum og nær ekki þeim árangri, sem æskilegt væri og til er ætlazt með setningu þessara l. Ég tel þess vegna, að það sé eðlilegt, að málum verði fyrst um sinn skipað á þann hátt, en möguleikum verði haldið opnum til þess að breyta um, þegar aðstæður leyfa.

Hv. þm. V-Húnv. minntist lítillega á verksvið iðnaðarmálastjórans samkv. 3. gr. frv., og var í rauninni aðeins eitt, sem hann taldi þessu til foráttu, þ. e. a. s. það, að mér skildist, að iðnaðarmálastjóra væri þarna ætlað um of víðtækt verkefni, honum væri ætlað að gera till. um fyrirkomulag Síldarverksmiðja ríkisins, áburðarverksmiðju, sementsverksmiðju og annað slíkt, og mér skildist á honum, að það mundi verða honum um megn. En ég held, ef skipaður er hæfur maður í þetta starf, að þá sé ekkert því til fyrirstöðu, að hann geti gert öll þessi störf. Þegar Síldarverksmiðjur ríkisins voru stækkaðar, þá var fenginn til þess sérfróður maður að gera um það áætlanir, sem hann gerði, og hann hafði eftirlit með byggingu verksmiðjanna, hann naut sérfræðilegrar aðstoðar þeirra, sem með þessi mál eru vanir að fara, en það var eigi að síður maður, sem ekki var síldarverksmiðjumaður sérstaklega, heldur var hann einungis tekniskt menntaður vélfræðingur. Ég sé ekkert á móti því, ef fær maður veldist í þetta starf, að hann getí gert till. um öll þessi mál og sparað ríkissjóði stórfé. Ég hygg, að það séu ekki smáræðis fúlgur, sem ríkið hefur orðið að greiða til þess að undirbúa öll þessi mál, en hins vegar, ef ríkið hefur fastan mann í sinni þjónustu, sem getur annazt þetta, þá er eðlilegt, að hann geri það, og ég tel, að hann geti annazt þessi verkefni fyllilega, að gera till. um stækkun Síldarverksmiðja ríkisins eða nýbyggingar, áburðaverksmiðju og sementsverksmiðju. Rafveitur ríkisins koma ekki til greina, því að ríkið hefur sérstakan mann í þeim málum, sem annast það eitt.

Um ríkisrekstur eða ekki ríkisrekstur á þessum verksmiðjum ætla ég ekki að deila. Hv. þm. veit það jafnvel og ég, að ef þessi stóru verksmiðjubákn á að byggja, þá eru engar líkur til þess, að einstaklingar ráðist í það, ríkissjóður hefur alltaf orðið að koma til, þegar um stórfyrirtæki er að ræða, — hverjum augum sem Alþ. lítur spursmálið um einstaklingsrekstur eða ríkisrekstur, þá hefur það orðið að koma til, vegna þess að einstaklingum er ofviða að ráðast í það fjárhagslega.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Ég vil aðeins leggja til við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða fyrir þeirri skriflegu brtt., sem ég gat um og las.