01.02.1951
Efri deild: 59. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í C-deild Alþingistíðinda. (3681)

110. mál, orkuver og orkuveita

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Þó að hér sé um stórt mál að ræða, þá get ég að miklu leyti vísað til grg., sem er með frv., og nál., sérstaklega vegna þess, að það er nú liðið töluvert á fundartímann í dag og það er mjög óskað eftir því, að hæstv. forseti geti látið þetta mál ganga fram hér, svo að það geti náð til Nd. og helzt ef hægt væri að ljúka því hér á þessu þingi.

Meginatriði þessa frv. er að fá heimild handa hæstv. ríkisstj. til þess að láta raforkuveitur ríkisins virkja Dynjandisá í Arnarfirði til raforkuvinnslu. Frv. er byggt upp eins og önnur frv. um raforkuveitur og er háð þeim skilyrðum, að allur undirbúningur sé látinn fara fram áður og aflað fjár til þeirra framkvæmda, eins og hefur verið gert að skilyrði í sambandi við aðrar raforkuveitur, og þarf ég ekki að ræða það atriði nánar. — Iðnn., sem fékk málið til athugunar, taldi rétt í fyrsta lagi að senda frv. til umsagnar raforkumálastjóra, og það hefur verið gert, og umsögnin er birt sem fskj. á þskj. 553. Það þótti rétt að birta umsögnina alla, til þess að hv. alþm. gætu kynnt sér hana. N. þótti einnig rétt að láta gera nokkrar breyt. á frv., m. a. til þess að halda því nokkurn veginn í sömu föstu skorðum og kveðið er á um í þeim lagafyrirmælum, sem fyrir eru um sams konar raforkuveitur, og vil ég sem flm. fallast á, að það sé rétt.

Fyrsta breyt., sem n. leggur til að gerð verði, er við 1. gr., að í stað orðanna „í 7000 hestafla“ komi „ í allt að 1000 hestafla“, vegna þess að það er skoðun raforkumálastjóra samkvæmt þeim mælingum, sem gerðar hafa verið undanfarin ár við Dynjandisá, og sýnt er, að það megi búast við, að orkan sé ekki 7 þús. hestöfl, heldur fyrir neðan það, og því sé rétt að orða gr. þannig. Um þetta er ekki neinn ágreiningur milli okkar flm. Þess vegna höfum við fallizt á, að þessi breyt. yrði samþ. — Það er einnig gerð önnur brtt. við sömu gr., þ. e. að orðin „samkvæmt áætlunum dags. 2. marz 1946“ falli niður. Það er eðlilegt, að þessi orð falli niður, vegna þess að þau eiga kannske ekki heima í l., enda hefur áætlun um verkið breytzt algerlega frá því, að hún var gerð í marz 1946.

Við 2. gr. frv. er flutt sú brtt., að í stað orðanna „30 millj.“, eins og það er í frv., komi „60 millj.“. Það er gert samkvæmt ósk raforkumálastjóra, og upplýsir hann, að með því verðlagi, sem nú er í landinu, og samkvæmt lauslegri áætlun líti hann svo á, að stofnkostnaður virkjunarinnar verði ekki minna en 60 millj. kr. Hins vegar er ekki vitað, hvað verðlagið verður í landinu á þeim tíma, sem hafizt verður handa um framkvæmd þessa. En það er aukaatriði, hvort sett verður í frv. 30 millj. kr. eða 60 millj. kr., vegna þess að það er alveg skýrt ákvæði í frv. um það, að ekki megi hefja framkvæmdir fyrr en vitað er nákvæmlega, hvað kostnaðurinn við virkjunina verður, né fyrr en aflað hefur verið fjár til þess að standa undir þeim kostnaði. En jafnvel þó að verkið verði svo dýrt sem hér er gert ráð fyrir, þ. e. 60 millj. kr., þá telur raforkumálastjóri, að frá fjárhagslegu sjónarmiði sé fullkomin ástæða til þess að byggja slíka raforkustöð, því að hún mundi veita viðkomandi héruðum ódýrara rafmagn en þau búa við nú í dag. Þess vegna leggur n. til, að þessu verði breytt þannig í samræmi við þær áætlanir, sem fyrir liggja, og tekið verði inn í frv. 60 millj. kr. í staðinn fyrir 30 millj. kr. — Og í stað „10 millj.“ í síðari málsgr. komi „20 millj.“, og er það í sambandi við það fé, sem ætlazt er til, að komi á móti úr raforkusjóði.

Þriðja brtt. er við 5. gr., þ. e., að greinin falli niður.

Fjórða brtt. er um, að bráðabirgðaákvæðið falli niður, þ. e., að þar til þessu verki er lokið og Vesturland hefur fengið raforku frá vatnsorkuveri, þá skuli vera gerð verðmiðlun á rafmagni eins og það er nú og sú upphæð greidd úr raforkusjóði. Það er eðlilegt, að þetta væri gert, vegna þess, að þeim mönnum, sem búa í þessum héruðum, hefur verið neitað um aðstoð ríkisins til þess að fá þar reist raforkuver; aðrir staðir á landinu hafa gengið fyrir, sumpart vegna þess, að aðgengilegra hefur þótt að byrja á þeim fyrst. Þörfin hefur verið sú sama á báðum stöðum, en aðstæður hafa valdið því, hvar fyrst hefur verið ráðizt í framkvæmdir. Þess vegna hefur Vesturland orðið að standa undir miklu dýrari raforkukostnaði, vegna þess að um vatnsorkuveitu var ekki að ræða, og jafnframt orðið að standa undir þeirri byrði, sem lögin almennt lögðu á þjóðina til þess að koma upp hinum stærri orkuverum, eins og t. d. Sogsvirkjuninni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða um þetta mál nánar á þessu stigi, en vænti þess, að þessi hv. d. samþ. frv. með þeim breyt., sem fylgja hér, og vildi ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann taki þetta mál á dagskrá eins fljótt og unnt er og hraði afgreiðslu þess í hv. d., því að mér er umhugað um, að málið fái framgang á þessu þingi.