27.11.1950
Efri deild: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í C-deild Alþingistíðinda. (3688)

114. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Soffía Ingvarsdóttir) :

Herra forseti. Þetta baráttumál okkar kvenna er ekki nýtt hér í þinginu, og var það nýlega tekið upp af Gylfa Þ. Gíslasyni og Katrínu Thoroddsen. Í raun og veru er þetta aðeins einn þáttur í jafnréttisbaráttu kvennasamtakanna, og fleiri samtök hafa tekið í sama strenginn. Á Alþýðusambandsþinginu var samþykkt í einu hljóði tillaga samhljóða þessari. Og á þingi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja var samþykkt ályktun sama efnis. Þetta mál er ekki nema réttlætismál um frjálst stöðuval kvenna innan heimilisins og utan. Það er ekki nema rétt, að konur, sem stundað hafa langt skólanám og hafa hlotið sína sérmenntun, geti notað hana sjálfum sér og þjóðfélaginu í heild til gagns. Það er ekki ástæða til að telja fremur tekjur húsmæðra, sem vinna úti, með tekjum manna þeirra til skatts, en tekjur systkina, sem hafa sameiginlegan fjárhag að öðru leyti en því, að þau telja fram sitt í hvoru lagi til skatts. Það er ranglátt að slengja tekjum hjóna þannig saman til þess að koma þeim þannig í hærri skattstiga. Í þessu fyrirkomulagi felst einnig nokkur freisting fyrir fólk að búa saman ógift, en það er ekki heppilegt frá þjóðfélagslegu sjónarmiði séð. Það eru margar giftar konur, sem hafa bæði tíma og þekkingu til að sinna þjóðfélagslegum vandamálum, en þær telja það ekki borga sig vegna hins rangláta fyrirkomulags skattalöggjafarinnar. Mér dettur í hug hjúkrunarkona, sem sagði það ekki borga sig að vinna úti vegna þess, hve mikið það yki skattana. Það má segja, að konur noti ekki krafta sína til hins ýtrasta og sjái ekki ástæðu til þess vegna hinnar ranglátu löggjafar. — Ég vil svo að endingu óska þess, að málinu verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og fjhn.