27.11.1950
Efri deild: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í C-deild Alþingistíðinda. (3689)

114. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil benda hv. flm. á það, að ef þetta frv. er ekki flutt til þess eins að sýnast og það er tilgangurinn, að það verði samþ. hér, þá er það ákaflega ófullkomið. Það er ekki einn stafur um það, hvernig ómagar, sem eru á framfæri aðila, skuli reiknaðir, það er ekki einn stafur um sameiginlega eign, ekki einn stafur um gjöld til trygginganna. Allt þetta verður að taka fram, ef frv. á fram að ganga og er ekki aðeins flutt til að sýnast. Ef þetta nær fram að ganga, þá verður að taka fram miklu ríkari ákvæði en eru í frv. og fleiri. En ég persónulega er í miklum vafa um, hve þjóðfélagslega heppilegt það er, að mæður séu frá börnum sínum mikinn hluta dagsins og feli þau umsjá einhverra og einhverra. Bæði vantar hér, hvernig telja skuli ómaga, sem er á framfæri beggja, hvernig reikna skuli eign, sem bæði eru talin fyrir, hvernig vinna konunnar á hennar eigin heimili skuli reiknuð. Ég vil benda nefndinni á, að allt þetta þarf að athuga, ef hún hugsar sér, að þetta frv. fari í gegn sem umbótamál, en ef það er aðeins flutt til þess að sýnast, fáni, sem dreginn er upp til að blakta þar, þá er alveg sama.