07.11.1950
Efri deild: 16. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan, sé ég ekki ástæðu til að lengja mjög þessar umr. og skal ekki fara inn á þann meting milli sjávarútvegs og landbúnaðar, sem ég svaraði í minni síðustu ræðu, en mér þykir rétt að benda á það, að þegar talað er um fjárlög í þessu sambandi, þá gefa tölur þeirra falska mynd af ástandinu, því að þar kemur ekki fram allt það, sem verið er að gera fyrir sjávarútveginn, svo sem eftirgjöf á vöxtum og fleira, en framlög til landbúnaðarins eru þar hins vegar talin. Tölur fjárlaganna eru því blekkjandi hvað snertir skiptingu fjármagns milli þessara atvinnuvega, og þyrfti að lagfæra það.

Viðvíkjandi því, sem ég sagði, að sjávarútvegurinn væri að gubba 10 togurum, þá er það náttúrlega ekki gengislækkuninni að kenna, því að ekkert tæki væri hér í gangi, ef hún hefði ekki verið gerð, og ef genginu væri nú breytt þannig, að sterlingspundið væri sett á 26 krónur, þá flyti hér ekkert far. Þetta veit hv. 6. landsk. (HV: Nei, ég veit það ekki.) Hvers vegna flytur þá ekki hv. þm. frv. um að hækka gengið? Nei, sannleikurinn er sá, að örðugleikarnir stafa síður en svo af gengislækkuninni, heldur af markaðserfiðleikum. Nú getum við t.d. næstum engan fisk selt til Þýzkalands, þar sem við gátum áður mokað inn fiski fyrir 70 millj. kr. Við höfðum líka ágætan markað í Bretlandi fyrir ísfisk, sem menn héldu að mundi standa, en nú er sá markaður hruninn. Við gátum selt okkar freðfisk svo að segja í einu lagi fyrir allgott verð, en nú verðum við með mestu erfiðismunum að píra honum í marga staði. Sem sagt: Markaðirnir hafa fallið saman, svo að jafnvel gengislækkunin er ekki nóg til að vega upp á móti þeim skakkaföllum, sem af markaðshruninu leiðir, en ef gengið hefði ekki verið lækkað, þá held ég að enginn hefði þorað að horfast í augu við það ástand, sem skapazt hefði, ef þá hefðu ekki verið gerðar aðrar ráðstafanir betri, sem enn hefur ekki verið hægt að benda á.

Viðkomandi tili. hv. 6. landsk. og yfirlýsingum af minni hendi, þá sagði ég það, að tili. lægi fyrir þinginu um úrræði í atvinnulífinu, og ef ætti á þeim grundvelli að reka tækin, sem búið er að kaupa, og athuga, hvaða staði vantaði tæki, þá skyldi ekki standa á mér að styðja það, að málið yrði rannsakað á þeim grundvelli, og á þeim grundvelli sagði ég að ríkisstj. óskaði samstarfs við viðkomandi aðila.