30.11.1950
Efri deild: 28. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í C-deild Alþingistíðinda. (3694)

117. mál, jeppabifreiðar o.fl.

Flm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langa framsögu um þetta frv., það segir sjálft að öllu leyti til um tilgang sinn. Þó vil ég benda á það, að þeim, sem er lítið kunnugur þessu máli, mun finnast, að nóg sé til af bifreiðum í landinu, þó að þessar jeppabifreiðar séu ekki fluttar inn. Sama manni mun líka finnast, að það sé nóg að greiða fyrir varahluti og benzín til þeirra bifreiða, sem nú eru til, þó að ekki sé bætt við, og þetta er hvort tveggja alveg rétt. Það gæti líka einhver sagt, að hann skildi ekki í því, hvernig stæði á því, að nú fyrst á árinu 1950 væri verið að tala um þetta. Þetta er ekki nema að nokkru leyti rétt, því að fyrir 3 árum flutti ég frv. um sama efni, sem dagaði uppi. En orsökin til þess, að þessi félagasamtök bændanna, sem þurfa á bifreiðum að halda, hafa verið svona sein að ná sér í bifreiðar, er sú fyrst og fremst, að nokkur af búnaðarsamböndunum hafa nú orðið héraðsráðunaut, þ. e. a. s. mann, sem fer um alla sýsluna og sums staðar meira og mælir allar jarðabætur. Þegar innflutningur bíla var sem örastur fyrir nokkrum árum, þá voru ekki héraðsráðunautar, þá var fjöldi af mönnum, sem fóru um hreppana og gátu mælt jarðabætur eins og ráðunautarnir. Þessi breyting, sem hefur orðið víða á landinu, gerir það að verkum, að maður, sem ekki hafði nema einn hrepp, gat komizt yfir þetta farartækislaus, en getur það ekki nú, þegar svæðin eru svona stór. Sæðingarstöðvar voru ekki til, meðan bifreiðainnflutningur var mikill, nema á Akureyri, sem náði í einn bíl. Þetta frv. er þess vegna flutt af nauðsyn þess, að þeir menn, sem hafa þannig lagaða vinnu í landinu meðal bænda, að þeir þurfa, sumir daglega allt árið, en hinir alltaf þann tíma, sem sæmilega fært er um landið, á hverjum einasta degi að fá bíl til afnota, sem gerir þeim kleift að ferðast á skemmri tíma og þægilegri hátt en þeir geta gert nú.

Nú skyldi ég til samkomulags, ef fyrir þessu er einhver vilji, slá af öðru en sæðingarstöðvunum, því að það má segja, að héraðsráðunautarnir geti gengið á milli bæja, farið ríðandi o. s. frv., en það er með öllu ómögulegt að fara með sæði frá sæðingarstöðvunum á 10–20 bæi um heila sýslu nema hafa bil. Sæðingarstöðin, sem nú á að fara að byrja í Gullbringu- og Kjósarsýslu, hefur áreiðanlega það svæði, sem er langhægast yfirferðar, þar geta 2 menn farið frá stöðinni, annar suður með sjó, en hinn upp eftir, og annað öllum pöntunum. En sæðingarstöðin í Borgarfirði verður að hafa marga bíla, sú stöð á ekki um annað að velja en annaðhvort að byrja ekki eða kaupa bíla á svörtum markaði fyrir 40, 60 eða 100 þús. kr., og það sama er að segja um sæðingarstöðina á Lágafelli, hún hefur ekki enn þá neinn bíl. Þessum sæðingarstöðvum er því með öllu ómögulegt að komast af án þess að fá bíla. Hins vegar mætti segja, að héraðsráðunautarnir geti farið á hesti eða gengið. Ég vann í Skagafirði 1923 og fór um allt héraðið gangandi eða á hesti. Þess vegna er ekki lífsnauðsyn fyrir þá að fá bíla á sama hátt eins og sæðingarstöðvarnar.

Þetta mál er fjárhagslegs eðlis og snertir gjaldeyrismál, en það er líka landbúnaðarmál, og þess vegna legg ég það á vald hæstv. forseta, hvort það fer til landbn. eða fjhn.