30.11.1950
Efri deild: 28. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í C-deild Alþingistíðinda. (3695)

117. mál, jeppabifreiðar o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þegar maður heyrir talað um innflutning á jeppabílum, þá er margur, sem hrekkur við og heldur, að það eigi að fara að opna innflutning í þessu efni, en þetta frv. er aðeins um innflutning á jeppum í sérstökum tilgangi. Í fyrsta lagi vildi ég spyrja hv. flm.: Eru öll búnaðarsambönd, sem þarna eru upp talin, lögfestir aðilar til að hafa forgangsrétt til þess að eiga jeppabíla, ef ekki, að hvaða ástæðum er þá sumum búnaðarsamböndum sleppt, hvaða sérstaka forgangsþörf hafa þessi búnaðarsambönd fyrir jeppabíla umfram önnur, sem ekki eru í frv.? Í annan stað: Er enginn möguleiki á því, að hægt sé að leysa þörf þessara búnaðarsambanda um bílakost með öðru móti en innflutningi nýrra bíla? Væri ekki hægt, þar sem sparnaðarandi ríkir hjá ríkisstj., að taka eitthvað af bílum hjá opinberum embættismönnum og stofnunum ríkisins og hugsa sér þann sparnað að láta fækka bílum hjá hinu opinbera og taka þá í þessa nauðsynlegu þjónustu heldur en að fara að opna fyrir innflutning á jeppum, sem getur ekki leitt til annars en að einstakar stofnanir rökstyðji sína þörf fyrir að fá þessi tæki, fyrir utan það, að ég hygg, að það mundi vera hægt að leiða rök að því, að landbúnaðurinn þurfi mjög að fá jeppa í sína þjónustu við jarðrækt almennt?

Þá sé ég þarna, að það er lagt til í frv., að rannsóknarstöðin á Keldum fái einnig jeppabifreið. Þetta er ein af deildum háskólans. Ég get vel ímyndað mér, að fleiri af deildum háskólans teldu sig þurfa sams konar tæki, einkanlega þær, sem búa í fjarlægð frá bænum eins og þessi. Ég get varla ímyndað mér, að stöðvaður verði innflutningur jeppa aðeins við þessa fjórtán, ef farið er að hefja innflutning á þessum tækjum á annað borð.