30.11.1950
Efri deild: 28. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í C-deild Alþingistíðinda. (3698)

117. mál, jeppabifreiðar o.fl.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég nenni ekki að rekja sagnfræði hv. þm. um afstöðu mína til mála. Það kom í ljós um daginn, að þessum minnisgóða manni getur skjátlazt, því að þá hélt hann fram, að ég hefði verið riðinn við mál, sem var afgr. 2 árum áður en ég kom á þing. Ég veit, að svipað er um það, sem hann hélt nú fram. Það er allt byggt á misminni.

Það er gamall málsháttur, að allt er þegar þrennt er, og mér finnst nóg, ef þingið þarf í þrjú skipti að fjalla um þessa vitleysu, ekki sízt þegar hv. þm. segir sjálfur, að hann hafi enga von um, að það verði samþ. Ég spyr hann nú í góðu, hvort það sé ekki síðasti liðurinn í frv., sem hann hefur áhuga fyrir. Ég skal ekki fara frekar út í ástæður fyrir því. Hann á nú annars svo innangengt hjá fjárhagsráði og góða vini og tengdamenn þar, alveg eins og hann er í góðu sambandi við svarta markaðinn og veit vel, hvað gerist þar. Ég efast ekki um, að hver af þessum óskum yrði tekin til greina, ef menn treystu sér til að flytja bíla inn á annað borð. En hver treystir sér til á Alþingi að segja, að þessir einir fjórtán bílar skuli flytjast til landsins? Hvernig halda menn, að færi með störf þingsins, ef það ætti að eyða tíma sínum í að jafna niður jeppum ?