01.11.1950
Sameinað þing: 10. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (3736)

43. mál, fiskideild hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins

Flm. (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Við hv. þm. N-Þ. berum fram till. á þskj. 75 til þál., þar sem farið er fram á það, að Alþ. skori á ríkisstj. að hlutast til um, að samin verði reglugerð um hina almennu fiskideild samkvæmt lögum um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins, og hraða þeim undirbúningi, sem nauðsynlegur er, til þess að deildin geti tekið til starfa á þessu ári.

Í lögum um hlutatryggingasjóð frá 25. maí 1949 er kveðið svo á m. a., að heimilt sé að láta sjóðinn taka til starfa, eftir að ár er liðið frá stofnun hans, og einnig, að áður hafi verið samin reglugerð um starfsemi hans, um skiptingu veiðisvæða og fleira. Sjóðurinn skiptist í tvær deildir, síldveiðideild og þorskveiðideild. Nú er það vitað, að síldveiðideildin á að taka til starfa á næstunni og reglugerð fyrir hana er í smíðum. Hins vegar er ekki byrjað að vinna að reglugerð fyrir þorskveiðideildina. En okkur flm. þessarar till. er kunnugt um það, að víða á Norðurlandi, þar sem þorskveiði er stunduð lítillega á sumrin, var í sumar svo lítill afli í sumum verstöðvum, að hann var ekki nema um 1/3 af meðalafla.

Það liggur ekki fyrir, hve mikið fé hefur runnið í sjóðinn síðan hann var stofnaður, en sennilega nemur sú upphæð 1–2 millj. kr. Ástæðurnar fyrir því, að við berum þessa till. fram, eru þær, að nú er mikil þörf fyrir aðstoð frá hlutatryggingasjóði, og í öðru lagi það álit okkar, að sjóðurinn sé þess megnugur að taka til starfa, en til þess að svo geti orðið, þarf að setja reglugerð um starfsemi hans.

Þetta mál er svo ljóst, að ég sé ekki ástæðu til að fylgja því úr hlaði með fleiri orðum. Það virðist ekki ástæða til að fresta umræðum um það, en hv. Alþ. afgreiði það nú og skori á ríkisstj. að hlutast til um, að aðgerðum í því verði flýtt sem unnt er, svo að til gagns megi verða þeim mönnum, sem nú þurfa að njóta aðstoðar frá sjóðnum.