01.11.1950
Sameinað þing: 10. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (3739)

43. mál, fiskideild hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Ég þakka hæstv. sjútvmrh. fyrir undirtektir hans í þessu máli. Hann gat þess, að það væri ekkert áhlaupaverk að semja reglugerð um síldveiðideildina og væri þó enn meiri vandi að semja réttlátlega reglugerð um þorskveiðideildina, og er það vafalaust rétt.

Hvað viðkemur því, sem hv. þm. Ísaf. setti fram, að setja málið í n. og athuga kostnað við ýmis atriði, sem málinu fylgja í sambandi við hlutatryggingasjóð, þá finnst mér engin ástæða til þess og tel rétt að afgreiða þetta mál sérstaklega. Ég vil leyfa mér að benda á, að fyrir Nd. liggur frv. um breyt. á hlutatryggingasjóðsl., þau brbl., sem sett voru í sumar um það, að heimilt sé nú að taka stofnféð og nota það til bóta. Mér finnst þar hægt að taka fleira til athugunar, og er opin leið að taka málið til athugunar á víðari grundvelli en það frv. gefur tiletni til. En hvað sem því líður, þá vil ég taka undir það með hæstv. sjútvmrh., að það hljóta að gefast ótal tækifæri til að taka önnur atriði þessa máls upp, ef svo reynist, að ekki er talin heppileg leið að taka fleiri atriði fyrir í sambandi við það mál, sem liggur fyrir, þ. e. breyt. á l. varðandi stofnféð. Þess vegna vil ég óska eftir því fyrir hönd okkar flm., að málið sé afgr. nú.