01.11.1950
Sameinað þing: 10. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (3744)

43. mál, fiskideild hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það má segja, að það skipti ekki miklu máli, hvort þessi till. fer til n. eða ekki, en hins vegar vil ég taka undir það með meðflutningsmanni mínum, að ég sé enga ástæðu til þess, að málið fari til n., því að það er ekkert í sambandi við þessa till., sem þarf athugunar. Ég held, að það gæti nokkurs misskilnings hjá hv. þm. Ísaf. Hann ræddi um það í þessu sambandi, að það geti verið, að síldveiðisjóði verði fjár vant, þannig að það þyrfti að gera ráðstafanir til þess að afla honum tekna. Ég er því ekki kunnugur, hversu mikils fjár er vant og hvaða möguleikar eru á því að bæta fjárhag síldveiðideildarinnar, en ég þykist þess fullviss, að ef einhverjar ráðstafanir verða gerðar til þess að afla fjár, þá verði það ekki gert með þál., heldur með samþykkt laga, og þess vegna er það ólíklegt, að hv. þm. Ísaf. geti, þó að þessari till. væri vísað til n., fengið í sambandi við hana nokkra lausn á því máli, sem hann óskar eftir. Ég hygg því, að byggð sé á misskilningi þessi ósk hans um að þáltill. fari til n.

Úr því að ég stóð upp, þá vil ég vekja athygli á því, að það stendur fjárhagslega dálítið öðruvísi á í almennu fiskideildinni en í síldveiðideildinni. Síðan l. gengu í gildi hafa verið tvær síldarvertíðir, sem báðar hafa brugðizt. Þess vegna hefur síldveiðideildin eðlilega sáralitlar tekjur fengið. En það gegnir nokkuð öðru máli um þorskveiðideildina. Að vísu var mjög léleg þorskveiði sums staðar á landinu á síðustu vertíð, en á öðrum stöðum sæmileg, og þess vegna ætla ég að þeirri deild hafi borizt töluvert meiri tekjur en síldveiðideildinni, þannig að hún hefur sennilega nokkru meiri möguleika til þess að taka til starfa heldur en síldveiðideildin hefur.