13.12.1950
Sameinað þing: 25. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (3754)

83. mál, talstöðvaþjónusta landssímans

Flm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir það, sem hann sagði, svo langt sem það nær. En um sanngirnina vildi ég láta þess getið, að þar má ekki hæstv. ráðh. nota einvörðungu þann mælikvarða, sem forstjóri póst- og símamálanna kann að láta honum í té. Við hinir, sem erum málsvarar sjómanna í þessum efnum, höfum líka mælikvarða við höndina og ætlumst til, að hæstv. ráðh. taki tillit til þarfa sjómanna við afskipti sín af málinu án skrifstofukreddna þeirra, sem fyrir liggja hjá póst- og símamálastjórninni. — Ég ítreka svo þakklæti mitt til hæstv. ráðh. fyrir velvilja, en treysti enn á fylgi þm. til að taka undir í þessu máli með þáltill.