19.12.1950
Sameinað þing: 28. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (3759)

83. mál, talstöðvaþjónusta landssímans

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Hv. fyrsti flm. þessarar þáltill. og frsm. allshn. er því miður veikur og getur ekki mætt á þessum fundi. — Allshn. hafði þessa till. til athugunar, og þeir 6 nm., sem viðstaddir voru á fundi, er n. afgr. málið, mæltu eindregið með því, að hún yrði samþ. Hv. 2. þm. Skagf., sem á sæti í n., var ekki viðstaddur.

Eftir að n. hafði afgr. till., barst henni bréf frá póst- og símamálastjórninni, þar sem póst- og símamálastjóri telur, að það, sem þessi till. fer fram á að framkvæmt sé, sé í samræmi við þá þjónustu, sem talstöðvar inna nú af hendi gagnvart skipum.

Við flm. till. teljum, að þetta sé ekki að öllu leyti, og getum nefnt dæmi því til sönnunar, ef því er að skipta. — Þar sem póst- og símamálastjóri er samþykkur till., þó hann telji hana óþarfa, og þar sem hæstv. ráðh. hefur við umr. lýst yfir, að hann muni taka þetta mál þegar til athugunar, mundi ég telja, að ef till. fer nokkuð í samræmi við það, sem póst- og símamálastjóri telur rétt að gera, þó að við flm. teljum, að á því hafi orðið nokkrar undantekningar undanfarið, þá muni till. verða til bóta, og leggur n. eindregið til, að hún verði samþ.

Um leið og ég legg þetta til fyrir hönd þeirra nm., sem mæla með samþykkt till., vil ég þakka póst- og símamálaráðh., hve liðlega hann brást við áskorun — hvaðan sem hann hefur fengið hana, — samhljóða þskj. 404 (147. mál), um, að Landssíminn sendi út á stuttbylgjum til íslenzkra skipa á höfum úti, svo sem áður hefur tíðkazt, daglegan fréttaútdrátt, er fréttastofa útvarpsins semji. Þessi þjónusta hafði lagzt niður í febrúar s. l., og vakti það mikla óánægju hjá sjómönnum, sem fjarri voru sínum heimilum og gátu ekki fengið nokkrar fréttir svo máli skipti, og óskuðu þeir, að þessi þjónusta væri tekin upp aftur. Þessi þjónusta var tekin upp aftur í gær eða fyrradag. Og ég vildi fyrir hönd n. þakka hæstv. ráðh. fyrir, hve vel hann hefur brugðizt við þessari áskorun.