29.11.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (3763)

118. mál, uppeldisheimili handa vangæfum börnum og unglingum

Flm. (Soffía Ingvarsdóttir) :

Herra forseti. Í grg. með þessari þáltill. er gerð grein fyrir þeirri þörf, sem á því er, að reist verði uppeldisheimili fyrir vangæf börn og unglinga, og tel ég óþarft að bæta þar miklu við. Þó þykir mér rétt að rifja það upp, að hér er ekki á ferðinni neitt nýmæli. Þegar árið 1935 flytur frú Guðrún Lárusdóttir till. til þál. um þetta efni, en hún var því á sínum tíma mjög kunnug, hver þörf var fyrir hendi í þessu efni. Segir í grg. hennar, að stór hópur barna og unglinga þurfi þá slíkrar hjálpar við. Síðan eru nú liðin 15 löng ár, og sá hópur hefur æ farið vaxandi og þörfin því margfaldazt fyrir slíkt hæli. — Þá vil ég enn fremur leyfa mér að minna á, að árið 1949 skipaði menntmrh. nefnd til að gera till. um ráðstafanir til hjálpar og viðreisnar börnum og unglingum á glapstigum, og voru í henni þessir menn: Dr. Matthías Jónasson, dr. Símon Jóh. Ágústsson, Þorkell Kristjánsson, Jónína Guðmundsdóttir og Gunnhildur Snorradóttir. Nefndin kynnti sér þessi mál ýtarlega og þá reynslu, sem um þau hefur fengizt, en í greinargerð barnaverndarnefndar frá 1949 segir svo meðal annars, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin reynir að fjarlægja þessi börn úr umhverfi sínu með því að koma þeim í sveit. Stundum lánast það vel, en oft illa. Unglingarnir tolla ekki í hinu nýja umhverfi sínu, enda sjaldnast aðstaða þar til þess að halda þeim kyrrum. Þeir koma svo í bæinn á ný í sitt gamla umhverfi og taka til við sömu iðju og fyrr. En mörgum þessara unglinga er alls ekki hægt að koma í burt, bæði vegna þess, að færri og færri heimili fást til að taka þá, og svo neita foreldrar oft að láta þá frá sér.

Þótt áður sé sagt, að nefndin hafi haft afskipti af 15 telpum, var full þörf á að koma 20 stúlkum innan 16 ára burt úr bænum, flestum vegna lauslætis. En ekki tókst að koma fleirum en 12 fyrir, og 9 þeirra komu aftur, sumar eftir nokkra daga, aðrar eftir nokkra mánuði. Þá hefði þurft að ráðstafa 34 drengjum burt úr bænum. En aðeins tókst að útvega heimili handa 13 þeirra, og 4 þeirra komu aftur í bæinn eftir tiltölulega stutta dvöl. Hinum — 21 dreng — var ekki hægt að ráðstafa, og fengu því að leika lausum hala hér í bænum og fremja sumir ýmiss konar afbrot og spellvirki og leiða auk þess aðra drengi út á sömu braut. Þess er alls ekki að vænta, að húsráðendur á sveitaheimilum opni heimili sín fyrir þeim unglingum, sem barnaverndarnefndir kaupstaða telja óalandi í heimahögum. Nú þegar þarf því að hefjast handa um þær aðgerðir, sem gera barnaverndarnefndum kleift að koma þessum unglingum burt úr umhverfi sínu og skapa þeim annað, sem megnar að breyta viðhorfi þeirra til lífsins og beinir orku þeirra og áhuga inn á aðrar brautir. Þær aðgerðir geta aðeins verið á einn veg, þ. e. að stofna uppeldishæli fyrir þessi ungmenni. Þangað til slík heimili eru komin, hlýtur það starf barnaverndarnefnda, a. m. k. hér í Reykjavík, sem lýtur að því að bjarga þessum unglingum af afbrotabrautinni, að vera kák eitt og fálm.“

Þetta var úr greinargerð frá barnaverndarnefnd Reykjavíkur frá 18. marz 1949. Síðan sendi hin stjórnskipaða nefnd till. til úrbóta til menntmrh., og vil ég lesa upp útdrátt úr þeim, með leyfi hæstv. forseta.

„Nefndin leggur til:

1) Að stofnað verði upptökuheimili og rannsóknarstöð, sem veitt geti viðtöku börnum og unglingum, sem vegna lögbrota eða annars misferlis þarf að taka af heimilum þeirra um lengri eða skemmri tíma. Nefndin telur nauðsynlegt, að öll slík börn séu rannsökuð gaumgæfilega af sérfræðingum. Orsakirnar til misferlis barnsins geta átt rætur í sálrænni eða líkamlegri veiklun, sem oft má ráða bót á án þess að taka þurfi barnið af heimili þess. Sé frekari aðgerða þörf, hljóta þær að byggjast á þeirri niðurstöðu, sem rannsóknin leiddi í ljós. Nefndin lítur svo á, að slík rannsóknarstöð tryggi að verulegu leyti árangurinn af starfi uppeldisstofnana og sveitaheimila, sem börnunum kynni að vera ráðstafað á. Raunar er til vísir að slíkri stofnun að Elliðahvammi við Reykjavík, en húsnæði hennar, eins og það er nú, er með öllu ófullnægjandi.

2) Að stofnað verði uppeldisheimili handa drengjum allt að 15 ára gömlum, sem framið hafa lögbrot eða annað misferli. Stærð þessa heimilis mætti fyrst um sinn miða við, að þar dveldust 25–30 drengir. Eftir þeim gögnum að dæma, sem nefndin hefur getað aflað sér, virðist þetta vera lágmarkstala. Nefndin telur það mikils vert, að hægt sé að sjá þeim drengjum, sem leiðast út í afbrot, fyrir hollara uppeldi, áður en þeir eru komnir svo langt út á afbrotabrautina, að þeim verði naumast bjargað. Teljum vér, að þessi ráðstöfun mundi draga verulega úr afbrotum meðal eldri unglinga.

3) Að stofnað verði uppeldisheimili handa piltum á aldrinum ca. 15–20 ára, sem framið hafa lögbrot eða valda á annan hátt vandræðum með hegðun sinni. Stærð þessa heimilis miðist fyrst um sinn við 15–20 unglinga. Eftir skýrslum barnaverndarnefndar Reykjavíkur síðastliðin ár virðist þessi tala vera fulllág, en nefndin telur hins vegar ekki heppilegt að byrja með stór heimili.

4) Að stofnað verði uppeldisheimili handa unglingsstúlkum fram til tvítugsaldurs, sem þarfnast sérstaks uppeldis vegna lauslætis og annars misferlis. Stærð þessa heimilis gæti fyrst um sinn miðazt við 12–15 stúlkur.“

Síðan leggur nefndin áherzlu á, að góð starfsskilyrði þurfi að vera fyrir hendi á þessum heimilum, og sé þeim valinn staður sérstaklega með það fyrir augum. Í þessum till. nefndarinnar er farið fram á það, sem brýn þörf er fyrir, en auðvitað væri mikil bót að fá eitthvað af þessum heimilum, þótt ekki væri ráðizt í að koma þeim öllum á fót nú þegar. Ég hygg, að allir geti verið sammála um það, að undirbúningur undir starf og stofnun þessara heimila sé nú mjög nauðsynlegur, og í trausti þess, að Alþ. og ríkisstj. sýni þessu máli skilning og velvilja, höfum við konurnar lagt fram þessa till., sem ég hef nú í fáum orðum gert grein fyrir.