26.10.1950
Sameinað þing: 9. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (3773)

39. mál, þurrkví

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég er samþykkur aðalefni till. og þarf því ekki að segja hér mörg orð. Ég teldi æskilegt, að gerð yrði rannsókn á því, hvaða kostur er á að gera þurrkví, sem gæti tekið öll okkar skip, og í öðru lagi þau skip, sem koma til landsins hverju sinni. Það er í því mikið öryggi að geta tekið erlend skip til viðgerðar og mjög erfitt við það að búa, að slíkt sé ekki hægt. Mér er ljóst, að hér er um mikið mannvirki að ræða, og óhætt að segja, að það muni kosta tugi millj. króna, svo að allan undirbúning þarf mjög að vanda. Og ég tel því æskilegt, að hann sé ekki svo staðbundinn við Patreksfjörð sem till. segir til um. Það má vera, að skilyrði til slíkra mannvirkja séu betri þar en annars staðar, en þó vildi ég, að málið yrði athugað á breiðari grundvelli, þannig að þeir staðir, sem til greina gætu komið, verði einnig rannsakaðir. Mér skildist einnig á hv. flm., að hann væri því fylgjandi, að rannsakaðir væru fleiri staðir. Ég sé ekki ástæðu til að flytja brtt. nú, en vil sjá fyrst, hvað nefndin gerir í málinu. En ef nefndin skyldi leggja til, að till. yrði samþ. óbreytt, þá mundi ég koma fram með brtt. þess efnis, að felld yrðu niður úr till. orðin „innan Patreksfjarðar“. Stærðin getur og orkað tvímælis. Það er að vísu rétt, að hingað koma skip, sem vega allt að 18 þús. smál., og það væri auðvitað heppilegt að geta tekið þau til viðgerðar. En mikil bót væri fengin, þótt ekki væri hægt að taka hin allra stærstu. — Ég vil svo óska, að málið verði athugað á sem breiðustum grundvelli.