19.01.1951
Sameinað þing: 31. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í D-deild Alþingistíðinda. (3776)

39. mál, þurrkví

Frsm. (Gísli Jónsson) :

N. hefur athugað þetta mál á nokkrum fundum og sent það vita- og hafnarmálastjóra til umsagnar, og er umsögn hans birt sem fskj. með nál. á þskj. 317. — N. er öll sammála um, að full þörf sé á því að koma upp fullkominni þurrkví hér á Íslandi og helzt af þeirri stærð, að hún geti fullnægt þörfum flotans eins og hann er í dag og á næstu árum. Að slíkum framkvæmdum yrði mikill hagnaður fyrir þjóðina, beint og óbeint, og ekki sízt mjög mikill sparnaður á erlendum gjaldeyri, að þurfa ekki að láta viðgerð skipanna fara út úr landinu eða geta annazt hér innanlands viðgerðir á erlendum skipum, er kynnu að þurfa á viðgerð að halda. Hins vegar er hér um mjög yfirgripsmikið mál að ræða, sem kostar mjög mikið fé, og er því eðlilegt, að þetta mál sé athugað mjög gaumgæfilega, áður en hafizt er handa. Það hefur farið hér fram allvíðtæk rannsókn á því áður, hvað það mundi kosta að koma upp þurrkví hér í Rvík, þó að minni sé, og liggja allar þær athuganir hér fyrir, og er hægt fyrir viðkomandi aðila að fá að þeim greiðan aðgang. En hér er farið fram á, að þessi þurrkví verði miklu stærri, vegna þess að sýnt er, að þau skip, sem sigla til landsins, eru miklu stærri en á þeim tíma, þegar þetta var rannsakað, og vegna þessa mikla kostnaðar þykir rétt að breyta þáltill. í það horf, að það sé rannsakað, hvað kosti að gera þurrkví, sem sé ekki nema fyrir 6 þús. smálesta skip.

Þá hefur verið bent á það af hafnar- og vitamálastjóra, að það sé eðlilegast, að einnig verði látin fara fram rannsókn á fleirum en einum stað á landinu, og hefur n. fallizt á, að það sé rétt að athuga það, hvort ekki kæmu fleiri staðir til greina en sá staður, sem tilnefndur er í þáltill. Það kemur auðvitað margt fleira til greina en möguleikarnir á því að byggja þurrkvína sjálfa, því að einnig ber að athuga, hvaða not verði að þurrkvínni, og væri um t. d. Patreksfjörð og Reykjavík að ræða, þá yrði Rvík tekin fram yfir hvað þetta snertir, en hins vegar yrði miklu ódýrara að byggja þurrkvína á Patreksfirði. Ég geri ráð fyrir, að hér sé ekki nema um þrjá staði að ræða, þ. e. Rvík og Hafnarfjörð vegna þeirrar aðstöðu, sem þeir bæir hafa til þess að nota þurrkvína, og svo hins vegar Patreksfjörð, þar sem miklu ódýrara yrði að byggja hana en á hinum stöðunum. N. hefur því orðið sammála um að leggja til, að þáltill. verði breytt eins og segir hér á þskj. 317 og að hún orðist þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera athugun á því, hvar á landinu sé hentugast og ódýrast að koma upp þurrkví til hreinsunar og viðgerðar á skipum, og láta gera að lokinni þeirri athugun kostnaðaráætlun um byggingu þurrkvíar þar, sem hagkvæmast þykir. Þurrkvíin taki allt að 18 þús. smálesta skip. Jafnframt sé athugað, hvert kostnaðarverð yrði, ef kvíin yrði aðeins gerð fyrir 6 þús. smálesta skip. Skal áætluninni lokið svo fljótt sem verða má og eigi síðar en fyrir 1. október næst komandi.

Kostnaður við athugunina og kostnaðaráætlunina greiðist úr ríkissjóði.“

Þá er enn fremur lagt til, að fyrirsögn till. verði svo: „Till. til þál. um byggingu þurrkvíar.“ Í sambandi við þá kostnaðaráætlun, sem vitamálastjóri minntist á, vil ég leyfa mér að taka fram, að fjvn. ætlast ekki til þess á þessu stigi málsins, að gerðar séu fullar vinnuteikningar í sambandi við verkið, heldur að athugunin fari fram á þann hátt, að fullvíst sé nokkurn veginn, hvaða stað eigi að velja þurrkvínni annars vegar, og hins vegar, að athugað verði um byggingarkostnaðinn, miðað við það verðlag, sem nú er í landinu. Ég held því, að sá kostnaður, sem vitamálastjóri heldur að verði í sambandi við þetta, verði miklu minni, þegar hugsað hefur verið um það, á hvaða hátt þessar framkvæmdir verði látnar fara fram.

Fjvn. leggur því til, að þáltill. verði samþ. með þeim breyt., sem greinir á þskj. 317, og vænti ég, að það nái þannig samþykki hæstv. Alþingis.