31.01.1951
Sameinað þing: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í D-deild Alþingistíðinda. (3801)

133. mál, hitaveita á Sauðárkróki

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson) :

Herra forseti. Ég vil eins og hv. samþm. minn þakka hv. fjvn. fyrir afgreiðsluna á þessari till. Get ég fyrir mitt leyti mjög vel fallizt á þá breyt., sem hv. fjvn. hefur lagt til að gerð verði á tillögunni.

En út af ummælum hv. frsm. fjvn. langar mig til að segja nokkur orð varðandi frv., sem liggur fyrir hv. heilbr.- og félmn. Ed., um hitaveitur, sem almennt frv., og var það lagt fram snemma á þessu þingi, en hefur verið þar teppt og ekki verið afgr. Vil ég taka fram, að ég fyrir mitt leyti hef fallizt á og tel rétt, að þetta frv. verði ekki afgr. á því þingi, sem nú situr, en að það verði tekið til endurskoðunar fyrir næsta þing og lagt þá fram að nýju. Hv. þm. Barð. minntist á eitt atriði í sambandi við það, hvort ekki væri rétt, að í það frv. væru tekin einhver almenn ákvæði um það, að hve miklu leyti ríkið skyldi ganga í ábyrgðir fyrir stofnkostnaði slíkra hitaveituframkvæmda sem þessarar. Og það er mjög til athugunar, að þetta verði gert, og má vel vera, að það væri réttara að hafa slík ákvæði þar, þó að þau séu ekki nú í því frv. Og það eru fleiri atriði í því frv., sem allmiklar líkur eru til að breyta þurfi frá því, sem nú er. En ég tel þörf á að setja sem fyrst almenna löggjöf um hitaveitur. Og það þyrfti þá að gerast á næsta Alþ. — En þó að það verði gert og þó að inn í það frv. verði sett ákvæði um ábyrgðarheimildir í sambandi við slíkar framkvæmdir, þá álit ég — og vil þakka hv. fjvn. fyrir, að hún hefur lagt það til — , að þessi till. eigi að ná fram að ganga nú. Þó að það séu kannske ekki miklar líkur til, að framkvæmdir geti orðið í þessu efni á yfirstandandi ári, þá er geysimikils virði fyrir væntanlegar framkvæmdir í þessu efni að fá þessa ábyrgðarheimild samþ. nú.

Aðstaða til hitaveitu á Sauðárkróki er alveg óvenjulega glæsileg, eins og hv. samþm. minn lýsti við fyrri umr. þessarar þáltill. Það er því varla hægt að hugsa sér, að slíkar framkvæmdir dragist nokkuð verulega, þar sem það er alveg víst, að bara sá sparnaður, sem verður í sambandi við eldsneytisnotkun, kola og olíu, á staðnum, greiðir að fullu kostnaðinn við hitaveituna á tiltölulega örstuttum tíma.