10.11.1950
Neðri deild: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég sagði áðan, að ég gengi ekki hér inn á almennar umræður í sambandi við þá hiið málsins, er snertir sjómenn og verkamenn, því að ég tel það annarra ráðherra að svara í því máli. En það kom í ljós hjá hæstv. sjútvmrh. hér áðan, að hann telur sig hafa öðru að sinna nú. Ég vildi annars setja hér fram nokkrar spurningar, sem ég lagði fyrir hv. Ed., því að ég álít, að það sé gagnlegt að íhuga þær. Mundu vera margir þingmenn í þessari hv. deild, sem álíta, að hið opinbera hafi látið landbúnaðinn sitja fyrir sjávarútveginum undanfarin ár? Mundi sjávarútvegurinn hafa of fáa báta? Vantar kannske togara? Hefur ríkisstj. gert of lítið í þeim málum? Ég veit ekki betur en að við séum úti þessa dagana til þess að reyna að skrapa saman 80 millj. kr. lán til kaupa á togurum, eftir að öllu sparifé þjóðarinnar hefur verið eytt. Mundi skorta frystihús fyrir sjávarútveginn? Mundi vera of lítið af síldarverksmiðjum? Og hefur ekkert verið gert í öðrum slíkum málum fyrir sjávarútveginn? Við horfumst í augu við þá staðreynd, að lánsféð hefur farið til þessa, en því miður sáralítið til landbúnaðarins. Ef maður athugaði t.d., hve mikið fé þyrfti til kaupa á efni í þær votheyshlöður, sem nú er brýn nauðsyn að koma upp í landinu, þá er það 32 millj. kr., aðeins efnið eitt fyrir utan vinnu- og flutningskostnað o.fl. í sambandi við bygginguna. Og það er vitað mál, að það kapítal, sem landbúnaðurinn hefur fengið, er fyrst og fremst í gegnum Búnaðarbankann. Ef landbúnaðurinn fær ekki 40 millj. kr. á næstunni, þá stöðvast öll framþróun hans. Það er ómögulegt að komast hjá að byggja votheyshlöður, peningshús og vélageymsluhús og að rækta, ræsa fram og hlaða flóðgarða. Og það alvarlegasta við þetta er, að valdhafarnir skuli ekki gera sér ljóst, hve geysilega kapítalfrekur landbúnaðurinn er, ef hann á að vera rekinn á sómasamlegan hátt. Menn verða að gera sér ljóst, að það er ekki auðvelt fyrir bónda með lágar tekjur að koma upp, ekki aðeins húsum, heldur líka að rækta stórkostlega, því að það þarf að gera, ef búin eiga að stækka, það þarf að kaupa vélar til ræktunar og til heyvinnslu, það þarf að byggja útihús og koma upp bústofni. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að okkur skortir lánsfé og að það er yfirvofandi stöðvun, vegna þess að við erum búnir að setja okkar fé, sem við áttum í lok stríðsins, utan lands og innan, í ýmis tæki, sem eru við sjávarsíðuna, eins og ég taldi upp áðan. (FJ: Mundi ekki vera nauðsynlegt, að þessi tæki væru starfrækt?) Vitanlega þarf að starfrækja þau, því að það er illa komið, ef þjóðin setur fyrst allt sitt fé í tæki, en þau fara síðan ekki af stað. En ég minnist á þetta, ekki vegna þess að ég sé að fara í neinn meting, heldur til að benda mönnum á að hugleiða, hvort það sé staðreynd, að sjávarútvegurinn hafi beinlínis verið settur hjá. Ég hygg, að ef menn vilja hugleiða þetta rólega, þá muni þeir komast að þeirri niðurstöðu, að landbúnaðurinn hafi ekki verið sérstaklega tekinn fram yfir sjávarútveginn.

En það er eitt atriði að lokum, sem ég þarf að svara. Ég áttaði mig ekki á því áðan, að hv. þm. Ísaf. virtist ekki hafa gert sér það ljóst, hvað hér er um að ræða, og það var ástæðan til þess, að hv. þm. Mýr. kom þarna með háðslega aths. Það var nefnilega þannig, að þegar búið var að athuga ástandið almennt, þá voru úthlutunarreglurnar ekki nógu greinilegar, segir hann, ég skal játa, að það er rétt. En hvað átti ríkisstj. að gera? Hún hafði 3 daga til umhugsunar, eftir að skýrslurnar komu, eftir þessa 3 daga átti að reka féð og slátra því, og það eru ekki stuttar leiðir til þeirra staða, þar sem fé er slátrað á Austurlandi, og það mátti ekki tæpara standa vegna veðurfarsins, að bændur gætu komið því til slátrunar. Á þessum þremur dögum þurfti því að ákveða, hvað hver bóndi átti að fá, því að það var miðað við það, hvað miklu var slátrað. Átti ríkisstj. þá að senda nefnd í hvern hrepp til þess að athuga, hvað þetta var mikið í hverjum hrepp? Það var ekki nóg að senda 2–3 menn, því að það þurfti að ákveða þetta í hverjum hreppi og ákveða það á 3 dögum. Ég get ekki séð, hvaða leið var heppilegri heldur en að láta hreppsnefndirnar ákveða þetta, á þremur dögum, og ákveða þar með, í hvað mörgum skepnum hver bóndi gat haldið lífinu. Það var ekki um neitt að velja, því að það er eins og hv. þm. Mýr. sagði, þegar hann greip fram í, og vitanlega var það það, sem hann var að skopast að, að hv. þm. virðist ekki geta séð þetta atriði ljóst, að það er of seint að veita bændum aðstoð til að halda lífinu í skepnum, sem búið er að farga. Ég vil spyrja: Fyrst hv. þm. er með aðfinnslur og fyrst hann veit, að ekki var hægt annað en að deila þessu niður á 3 dögum, hvaða aðferð álítur hann þá heppilegri heldur en þetta? Það er allt annað, sem hér er um að ræða, heldur en þegar tjón hefur orðið af fiskveiðum og síðan er hlaupið undir bagga á eftir, þar er ekki um það að ræða, að það þurfi að veita aðstoð til þess að halda lífinu í búpeningi og taka ákvörðun um það, hvað eigi að lifa. Þar getur nefnd tekið málið til athugunar og haft til þess sæmilegan tíma.