31.01.1951
Sameinað þing: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (3830)

167. mál, bygging þriggja sjúkrahúsa

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þessi till. er fram borin í því skyni, að ríkisstj. fái heimild Alþingis til þess að fá lán fyrir Akureyrarkaupstað, til þess að hægt sé að ljúka þeirri fjórðungssjúkrahúsbyggingu, sem staðið hefur yfir frá 1945. Það er mikil bygging, sem verið er að reisa, þar sem sjúkrahúsið er, og ekki eingöngu fyrir Akureyrarkaupstað, heldur er óhætt að segja að það sé hagsmunamál Norðlendingafjórðungs í heild, og er eindreginn vilji fyrir, að unnt sé að fullgera það hið fyrsta, og hafa bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar og núverandi þm. Ak. lagt á það mikla áherzlu. Það má telja, að vonir standi til þess að þetta lán fáist, þótt það sé engin vissa um það enn þá. Þessi bygging kostar um 9 millj. kr. fullgerð, búið er að vinna fyrir 4.7 millj., en eftir að vinna fyrir um 4.2 millj. kr., og ber ríkissjóði að greiða 3/5 af heildarkostnaði byggingarinnar, en hefur til þessa aðeins lagt fram rúmar 2 millj. kr., en á eftir að greiða rúmar 3 millj.

Ef fengist 2½ millj. kr. lán og ½ millj. kr. framlag á fjárlögum, þá mundi það komast langt með að nægja til þess að fullgera sjúkrahúsbygginguna, og ef hægt væri að fá það lán nú, mundi fljótlegt að fullgera hana. Húsið er uppkomið og hitalögn komin í það. Það, sem sérstaklega er eftir, er allur umbúnaður hússins.

Ríkisstjórnin er sammála um að standa að því, að þessari byggingu verði lokið, og því greiðum við þessari till. fullt jáyrði. Ég vil vænta þess, að hv. Alþingi sjái sér fært að afgreiða þetta mál á þann hátt, sem till. fer fram á. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta, en leyfi mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og fjvn.