10.01.1951
Sameinað þing: 30. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (3839)

145. mál, handritamálið

Flm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Eitt þeirra atriða, sem Íslendingar leggja hvað mesta áherzlu á í sjálfstæðisbaráttu sinni, er endurheimt íslenzku handritanna. Um þetta mál hefur mikið verið rætt og ritað, var það tekið til umræðu við Dani, en strandaði á því, að sérstök nefnd var að vinna að athugunum sínum. Nú hefur nýtt fjör færzt í umræður um þetta mál, ýmsir málsmetandi menn hafa um það ritað í dönsk blöð og haldið þar fram rétti Íslendinga.

Það þarf ekki að rekja rök Íslendinga í þessu máli hér á Alþingi. Það er öllum ljóst, hver nauðsyn okkur það er að fá þessa fjársjóði flutta inn í landið, auk þess sem hér eru öll skilyrði bezt til þess að rannsaka þessi handrit. Íslendingar skilja og tala það mál, sem þau eru rituð á, og mundu vinna betur að varðveizlu þeirra og vísindalegum rannsóknum en nokkrir aðrir, auk þess sem hér á Íslandi eru þeir menn, sem unnið hafa sér álit í þeim fræðum; hér eru því betri skilyrði til útgáfu þeirra en annars staðar, því að hér eru flestir menn, sem vit hafa á slíkum störfum. Ég tel því rétt til að undirstrika vilja Íslendinga í þessum efnum, að Alþingi láti í ljós, að þjóðin vilji eitthvað í sölurnar leggja til þess að búa að þessum fjársjóðum. Í því skyni er þessi till. flutt. Í fyrsta lagi er í henni gert ráð fyrir því, að ríkið byggi yfir handritin jafnskjótt og þau fást endurheimt. Í öðru lagi er gert ráð fyrir, að íslenzkum fræðimönnum verði búin starfsskilyrði til vísindaiðkana, og í þriðja lagi er ætlazt til, að íslenzka ríkið veiti styrk þeim erlendum fræðimönnum, sem hingað kynnu að vilja koma til rannsókna á handritunum.

Árið 1946 tóku nokkrir íslenzkir fræðimenn þetta mál upp og rituðu ríkisstjórninni tillögur sínar í því efni. Þáverandi ríkisstjórn tók málið upp og bjóst til, að málið næði fram að ganga. Alþingi hefur hins vegar ekki gert ályktun um málið enn, en ég tel, að það væri mjög heillavænlegt í þeirri baráttu, sem nú er háð um að fá handritin endurheimt, að Alþingi lýsti yfir vilja sínum í þessu máli.

Nú er svo komið, að við Íslendingar eigum marga fylgismenn okkar málstaðar í Danmörku. Margir málsmetandi Danir hafa tekið okkar málstað. Ég vil ekki að svo komnu máli nefna nein nöfn í því sambandi, en einn af nýjustu stuðningsmönnum okkar er einn af merkustu lögfræðingum Dana, sem var hér á ferð í sumar og varð þá fyrir þeim áhrifum, að strax og hann kom heim til Kaupmannahafnar skrifaði hann um málið í dönsk blöð og tók undir kröfu okkar til handritanna.

Ég þori að slá því föstu, að ef Alþingi sýnir vilja sinn til að búa svo að handritunum eftir endurheimtingu þeirra, að hér verði starfsskilyrði til vísindalegra fræðistarfa, þá verður það áhrifamikið vopn fyrir þá dönsku fræðimenn, sem styðja okkar málstað.

Ég skal svo ekki hafa orð mín fleiri um þetta mál að sinni. En ég vænti þess, að Alþingi geti í meginatriðum fallizt á þessar tillögur, og ef einhver ágreiningur skyldi verða, mætti jafna hann á milli umr., en ég er sannfærður um, að þetta mál mun ná fram að ganga.