10.01.1951
Sameinað þing: 30. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (3840)

145. mál, handritamálið

Viðskmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Þingsályktun þessi er að mestu samhljóða samþykkt, sem íslenzka ríkisstjórnin gerði á fundi 31. júlí 1946, samkvæmt tillögum sex íslenzkra fræðimanna í bréfi til menntmrh., dags. 27. apríl 1946. Munurinn er aðallega sá, að í þál. þessari er gert ráð fyrir, að byggt verði sérstakt hús fyrir handritin, en í áðurnefndri samþykkt ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir, að séð verði fyrir öruggum stað til að varðveita handritin.

Ágreiningur kann að verða um orðalag tillögunnar um þetta efni, en um það ætti að geta náðst samkomulag í nefnd.

Þótt fyrir liggi áðurnefnd samþykkt ríkisstj. frá 1946, tel ég eðlilegt, að Alþingi láti í ljós vilja sinn í þessu efni, svo að ekki leiki á tveim tungum, að vilji framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins fari saman og að óhögguð standi sú yfirlýsing, sem gefin var 1946.

Umræður um handritamálið milli Íslendinga og Dana hófust í ágústmánuði 1946. Hafa Íslendingar, eins og kunnugt er, gert kröfu til fullra skila á fornum handritum, skjölum og gripum íslenzkum, sem nú eru í vörzlu Dana. Umræður þessar hafa enn engan árangur borið, en búizt er við, að fram muni koma bráðlega álit dönsku nefndarinnar í málinu.

Íslendingar hafa yfirleitt ekki talið það neinum vafa bundið, að þeim yrði skilað aftur þeirra forna menningararfi, sem verið hefur í vörzlu Dana um nokkurra alda skeið. Þeir bera fullt fraust til drengskapar, víðsýni og skilnings dönsku þjóðarinnar í þessum efnum.

Það, sem hér er um að ræða, er ekki aðeins forn og fágæt handrit. Hér er miklu fremur um að ræða dýrmætan arf íslenzku þjóðarinnar, sem hefur verið undirstaða menningar hennar og manndóms. Það er engin tilviljun, að mesta eymdartímabil þjóðarinnar hefst, þegar lokið var að mestu brottflutningi handritanna og landið hafði verið rúið að því bókmenntalega og sögulega efni, sem þjóðin hafði lifað á frá því lýðveldið leið undir lok.

Með þingsályktun þessari er í raun og veru aðeins farið fram á, að Alþingi lýsi yfir, að það muni, þegar handritunum er skilað, sjá um, að þau séu geymd á öruggum stað, og skapa skilyrði fyrir hagnýtingu þeirra í vísindalegum tilgangi. Hvað öryggi handritanna snertir má segja, að fortíðin eigi í þeim efnum dýrkeypta reynslu, sem erfitt er að gleyma.

Ég vænti þess, að Alþingi geti sameinazt um þingsályktun þessa, ef til vill með einhverjum orðabreytingum, og staðfesti með því þann einhug íslenzku þjóðarinnar, sem stendur bak við kröfu hennar um afhendingu handritanna.