12.02.1951
Sameinað þing: 41. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í D-deild Alþingistíðinda. (3844)

145. mál, handritamálið

Frsm. (Pétur Ottesen) :

Herra forseti. Það var samþ. hér á Alþ. ekki alls fyrir löngu þál., þar sem skorað var á ríkisstj. að gera gangskör að því við dönsk stjórnarvöld, að skilað verði aftur handritum þeim, sem Íslendingar eiga og geymd eru í söfnum í Danmörku, og það má ganga út frá því, að ríkisstj. vorri takist að koma því máli fram, svo skýlaus er réttur vor til eignar á þessum handritum. Það er þess vegna eðlilegt framhald af því, að Alþ. gefi nú, á því sama þingi, yfirlýsingu um það, hvað það hyggst fyrir um varðveizlu þessara handrita og hvernig það hugsar sér rannsókn og hagnýtingu þeirra, eftir að þau eru komin í okkar hendur. Skýr og ákveðin stefna um þetta er mörkuð í þáltill. þeirri, sem vísað var til fjvn. fyrir skömmu, sem hv. 7. þm. Reykv. (GTh) er flm. að. Nefndin hefur alveg fallizt á þau rök, sem till. þessi er reist á, og mælir eindregið með samþykkt hennar með lítils háttar breytingum. Það er vitað, að handritin eru geymd í Kaupmannahöfn á þeim stað, sem er mikill hættustaður, ef ófrið ber að höndum, þannig að Danmörk lenti í þeim ófriði, og frá því sjónarmiði ber því brýna nauðsyn til þess, að sem allra fyrst takist að koma handritunum hingað í vörzlu hjá okkur, og er þess vegna mjög eðlileg sú yfirlýsing, sem felst í þessari till. hvað varðveizlu handritanna snertir og að þeim verði séð hér fyrir öruggri geymslu eða öruggri varðveizlu. Nefndin hefur aðeins gert þá breyt. við þessa till., að hún gerir ráð fyrir, að reist verði bygging yfir handritin eða þeim verði búið húsnæði á annan hátt, þar sem tryggð verði örugg geymsla þeirra og góð starfsskilyrði. Þetta gæti vel borið þannig að, að ekki ynnist tími til á sama tíma og handritin bærust okkur í hendur að reisa byggingu yfir þau, og þá er sjálfsagt að búa þeim það húsnæði, þá geymslu og varðveizlu, sem öruggt mætti teljast. — Þá er einnig önnur lítils háttar breyt., sem n. gerir á till., sem er í því fólgin, að um leið og ríkisstj. eða Alþ. gerir þessa yfirlýsingu, þá er ríkisstj. falið að hefja nú þegar þennan undirbúning í samráði við landsbókavörð, þjóðskjalavörð og Háskóla Íslands. Í till. var eingöngu miðað við það, að Háskóli Íslands yrði ríkisstj. til ráðuneytis eða samstarfs um þessa hluti. Nefndinni þótti hins vegar eðlilegt, að ríkisstj. sneri sér einnig til landsbókavarðar og þjóðskjalavarðar um þessi efni. Það stendur að sjálfsögðu opið samkvæmt till., hvort handritunum verður búin geymsla í sambandi við safnahúsið eða háskólann, þangað til slík bygging yrði reist, þar sem handritin yrðu varðveitt, og samkv. upplýsingum, sem n. fékk hjá landsbókaverði, var á það bent, að það mundi vera hagkvæmnisatriði í sambandi við geymslu handritanna, að þau væru geymd í sambandi við landsbókasafnið. En þetta stendur opið, og taldi n. þess vegna eðlilegt, að ríkisstj. hefði þessa 3 aðila til ráðuneytis um þær ráðstafanir, sem í till. felast. Þetta eru þá í aðalatriðum þær breyt., sem n. gerir á till. Fjvn. telur mjög mikilsvert, að Alþ. gefi slíka yfirlýsingu, sem í till. felst, varðandi varðveizlu handritanna og hagnýtingu þeirra, og leggur því eindregið til, að till. þessi nái samþykki og að hæstv. ríkisstj. beiti sér fyrir þeim ráðstöfunum, sem í till. felast.